20.02.1948
Neðri deild: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

61. mál, sementsverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Ég sé, að þessu máli verður ekki frestað nú, eins og ég vildi.

Ég ætla þá að svara ræðu hv. atvmrh. frá því í gær. Í fyrsta lagi vil ég taka það fram, að áætlun sú, er hann talaði þá um, hefur hvergi komið fram enn þá. Það virðist helzt vera, að sá háttur hafi verið upp tekinn, að einstakir menn úr fjárhagsráði hlaupi með hinar og þessar áætlanir í allar áttir og ólíklegustu stofnanir áður en Alþ. á þess kost að sjá þær, sem hefur þó meiri rétt til þess. Með innflutningsáætlunina er farið á verzlunarráðsþingið, án þess að sú innflutningsáætlun hafi verið lögð fyrir fjvn. eða þingið. Og hvað snertir þá áætlun, þá virðist hún vera hreinasta ómynd og raunverulega engin áætlun, a.m.k. eins og hún hefur verið birt í blöðunum. Hins vegar verð ég að lýsa yfir því, að ég álít, að það sé óhæf aðferð, sem nú er viðhöfð gagnvart Alþ., að útbýta ekki þessari áætlun til þingsins. Ég veit, að hæstv. atvmrh. (BÁ) segir það í góðri trú, að í gær hafi verið farið að útbýta þessari áætlun til fjhn. En hún er ekki komin til fjvn. enn þá, en það er farið að sýna hana hinum og öðrum mönnum utan fjárhagsráðs og einstökum þm. Það þýðir það, að farið er með plögg, sem ætti að leggja fyrir þ., til einstakra manna. Það þýðir það, að l. eru brotin. Ég vil átelja þetta fyrirkomulag og sérstaklega vegna þess, að hæstv. atvmrh. og sessunautur hans, hæstv. menntmrh., hafa báðir staðið í þeirri meiningu, að búið væri að útbýta þessari áætlun. Þetta getur ekki gengið. Það er krafa þm. að fá þessa áætlun.

Ég hef nokkrum sinnum skorað á þann þm. þessarar hv. d., sem á sæti í fjárhagsráði, að gera grein fyrir þessum málum, en hann hefur kosið að flýja og samtímis að fara með þessa áætlun, sem fjárhagsráð hefur verið að semja. sem eitthvert dularfullt plagg. Ég hef orðið var við það, að blað Framsfl. er ekki ánægt með þessa aðferð, og ég þykist vita, að ekki sé samkomulag um þetta. Mér finnst það sízt sitja á þeim þm., sem hér á sæti í fjárhagsráði, að draga svo á langinn að leggja þessar áætlanir fyrir þ. Hann reis ekki svo lágt í fyrra, þegar verið var að undirbúa l. um fjárhagsráð, en hann var einn í þeirri n. Í þeim l. var sagt svo í 3. gr., 2. mgr., með leyfi hæstv. forseta:

„Í áætlun þessari skal gerð grein fyrir kostnaði við allar stærri framkvæmdir, svo og með hverjum hætti fjár skuli aflað, enda skal kveða á um það, í hverri röð framkvæmdir skuli verða. svo að vinnuafl og fjármagn hagnýtist þannig, að sem mest not verði að.“

Í því frv., sem hv. þm. Ísaf. (FJ) undirritaði fyrir hönd stj., er gert ráð fyrir hvorki meira né minna en því, að í fjárhagsáætluninni fyrir árið 1948, sem skuli verða til um leið og fjárlfrv., skuli vera gerð áætlun um hverja framkvæmd, bókstaflega hverja framkvæmd.

Ég sé, að hv. þm. Ísaf. er þarna inni í hliðarherberginu. Ef hann skyldi ekki hafa heyrt mál mitt, var ég að tala um undirbúninginn að frv. um fjárhagsráð. Ég vakti athygli á því, að það mundi verða örðugt að ætla að setja svona nákvæmar kröfur. Þess vegna stakk ég upp á því. að gerðar væru áætlanir um stóru framkvæmdirnar. Nú hefur það gengið svo með áætlun um stærri framkvæmdir, að hún er ekki einu sinni farin að koma. Sú áætlun, sem stj. fullvissaði okkur um, að væri til, með hana er farið eins og huldubörn, og virðist verða að toga hana með töngum úr stj. til þess að hún komi fram. Nú veit ég, að þegar þessi áætlun að lokum kemur fram, þá mun verða sagt: Já, það er ekki hægt að byrja á framkvæmdum sementsverksmiðju, vegna þess að það vantar vélar. Hvað þýðir þetta? Það þýðir það, að ekki er hægt að skapa sér neitt heildaryfirlit yfir þjóðarbúskapinn 1948. Einmitt viðvíkjandi þessum stóru atriðum er óhjákvæmilegt, að um leið og áætlun er gerð fyrir árið 1948, sé einn;g gerð áætlun fyrir lengri tíma nm þau stóru fyrirtæki, sem sérstaklega er gert ráð fyrir að reisa. Peninga, sem þjóðin ætlar að leggja til hliðar, þarf hún að spara saman á meira en ári. Hún þarf að spara fyrir vélum, sem þurfa 2–3 ára pöntunarfrest. Ég held þess vegna, að þeir, sem hafa hugsað út aðferðir til þess að búa út áætlanir fyrir allar framkvæmdir, ættu að hugsa um það að búa út áætlanir, fyrir lengri tíma um þessar stóru framkvæmdir, vegna þess að það getur tekið langan tíma að undirbúa þessar framkvæmdir. Þetta hélt ég, að þeim mönnum, sem á annað borð hugsa alvarlega um áætlunarbúskap, væri ljóst, og út af því gerði ég þá till., að áætlanirnar væru tvenns konar. Þessar brtt. voru á þskj. 725 og hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutverk ráðsins skal vera að semja og framfylgja heildaráætlunum um þjóðarbúskap Íslendinga. Séu áætlanir tvenns konar:

1. Áætlanir um nýsköpun íslenzka atvinnulífsins fyrir ákveðin tímabil, 5–10 ára, eftir nánari ákvörðun laga þessara, ríkisstjórnar og ráðsins.

2. Áætlanir fyrir eitt ár í senn um allan þjóðarbúskapinn.“

Þessi till. mín var felld.

Stjórnarliðið sá ekki ástæðu til að búa til slíka áætlun. Nú finnst hæstv. atvmrh., að þetta þurfi að ákveða fram í tímann. Þetta er alveg rétt. Till. um þetta lagði ég fram í fyrra, og þá var hún felld af stj. og hennar fylgifiskum. Mér þykir leitt, ef stj. þarf að vera í mörg ár að læra það, sem hún hefði getað lært strax af því litla, sem reynt hafði verið að undirbúa í nýbyggingarráði. Ég held þess vegna, að það væri ráð fyrir hæstv. ráðh. að taka upp till. mína og undirbúa áætlun fyrir lengri tíma og svo fyrir hvert ár í senn. Hitt mun reka sig á annars horn, ef þessi háttur verður ekki hafður á. Mér þykir leitt, að ekki hefur verið haft almennilegt verklag um undirbúning á þessu. Þá þykir mér leitt að þurfa að ræða þessi mál án þess að hafa getað fengið þá stóru fjárhagsáætlun, sem átti að hafa verið búið að leggja fram.

Þá minntist hæstv. atvmrh. á það, að ekki væri rétt að hrópa svona hátt á þessa áætlun. Hann og aðrir góðir menn hefðu haft svo mikla biðlund gagnvart nýbyggingarráði, að hægt væri að ætlast til, að ég hefði líka nokkra biðlund.

Þegar l. um nýbyggingarráð voru samþykkt og reglugerð viðvíkjandi þeim, gerðu þeir, sem l. og reglugerðina settu, sér alveg grein fyrir því, hvers konar verkefni þeir væru að leggja út í. Verkefnið var tvíþætt. Annars vegar að semja áætlun um þjóðarbúskapinn til 5 ára, en jafnframt að framkvæma þessa hluti, stóru framkvæmdirnar. Og af því að ég átti þátt í þessu, og af því að ég sá, hve mikið ólag er á öllu, sem snertir hagskýrslur á Íslandi, þannig að þeir, sem vildu vita um afla, urðu að fara í gegnum heilan stafla af skýrslum, þá var sleginn varnagli við þessu í reglugerðinni. En þar segir í 3. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Samtímis því, sem nýbyggingarráð vinnur að samningu slíkrar heildaráætlunar um nýbyggingu í þjóðarbúskapnum, sem um ræðir í 1. gr. getur það, eftir nánari fyrirmælum ríkisstjórnarinnar og í samráði við hana, leitað fyrir sér um kaup slíkra atvinnutækja erlendis og enn fremur haft um það milligöngu fyrir þá aðila, er þess óska. Skal eigi beðið með slíka umleitun þar til heildaráætlun er lokið, heldur þegar rannsakað í samráði við ríkisstjórnina, hvað hægt sé að fá af tækjum og efni og hvenær.“

Jafnhliða þessu er nýbyggingarráði falið að ráðstafa vörudreifingu og í 5. gr. reglugerðarinnar er síðan tekið fram, hvernig ráðstafa skuli í höfuðatriðum því fé, sem nýbyggingarráði var fengið til umráða.

5. gr., sem ég skal lesa með leyfi hæstv. forseta hljóðar svo:

„Þessir skulu vera höfuðflokkar atvinnutækja og eftirgreindar fjárhæðir áætlaðar til þeirra til bráðabirgða:

1. Skip, vélar og efni til skipabygginga o.fl. samtals a.m.k. 200 milljónir króna.

2. Vélar og þess háttar til aukningar og endurbóta á síldarverksmiðjum, hraðfrystihúsum, niðursuðu, svo og til tunnugerðar, skipasmíða o.fl. um 50 millj. króna.

3. Vélar og þess háttar til áburðarverksmiðju. vinnslu og hagnýtingar landbúnaðarafurða, jarðyrkjuvélar og efni til rafvirkjana o.fl. um 50 milljónir króna.

Nýbyggingarráð skal þegar eftir fyrstu bráðabirgðaathugun á verkefni sínu gera tillögu til ríkisstjórnarinnar um fleiri flokka tækja og efnivara, svo sem til bygginga, og um nánari skiptingu fjár milli þessara flokka.“

Í þeirri reglugerð, sem nýbyggingarráð hafði til að vinna eftir, var í höfuðdráttum skipt upp hvernig verja skyldi þessu fé, og ráðinu falið að gera í höfuðdráttum áætlun.

Ég lagði á það áherzlu, að aðalatriðið væri að fá þessar framkvæmdir fram, að framkvæmdirnar væru þýðingarmeiri en áætlanir. Þess vegna var það, að áður en nýbyggingarráð var búið að sitja meira en ár, var búið að gera ákvörðun eins og það að kaupa 30 togara og aðrar slíkar ákvarðanir, sem stj. hafði falið nýbyggingarráði að gera. Og ég vil spyrja þá aðila, sem álasa nýbyggingarráði fyrir að hafa ekki gert áætlanir um starf sitt, hvort hafi verið þýðingarmeira að semja slíka áætlun eða framkvæma höfuðatriði hennar. Ef ég á að velja, hvort er þýðingarmeira, þá eru það framkvæmdirnar. Þess vegna er ég reiðubúinn hvenær sem er að jafna því saman, hvernig unnið var af fyrrv. stj. á hennar fyrsta ári og hvernig unnið hefur verið af núv. stj. á hennar fyrsta ári.

Hvað viðvíkur nýbyggingarráði, var áætlun þess útbúin og byrjaður undirbúningur áframhaldandi áætlunar. Ég skal enn fremur geta þess. að vegna hinna fjölmörgu starfa, sem nýbyggingarráð hafði með höndum, voru starfskraftar þess teknir til ýmislegs annars. Nýbyggingarráð undirbjó lagafrv., sem sum hafa verið framkvæmd í tíð núv. stj., eins og ræktunarsjóðurinn. Svo voru mál eins og stofnlánasjóðurinn, þar sem baráttan á þ. var hörð, og þess vegna þurfti að leggja aukna vinnu í málið. Kraftarnir dreifðust vegna þess, að þeir voru uppteknir við að undirbúa þessi h og framkvæma þau. Og ef menn vilja álasa nýbyggingarráði fyrir að hafa ekki komið nógu miklu í verk, vil ég minna á það, að meðan nýbyggingarráð starfaði, var af Framsfl. talinn eftir hver maður, sem að því vann. Þetta var meðan verið var að undirbúa löggjöf til hagsbóta fyrir útvegsmenn og bændur. En þegar fjárhagsráð var sett á laggirnar, var ekki verið að sjá í vinnukraftinn. Mér þætti gaman að því að fá upplýsingar um, hve margir vinna þar. Ég veit, að húsnæðið hefur verið aukið stórum og að bætt hefur verið við mönnum Ég veit, að fjvn. hefur farið fram á að fá að vita þetta, en það hefur aldrei fengizt nein skýrsla. Ég er tilbúinn til umræðna um þetta mál og til samanburðar á því.

Ég vil þá koma að því, sem er annað aðalatriðið í því, sem hér er um að ræða, en það er spurningin um fjármagnið. Það hefur hvað eftir annað komið hér fram í þessum umr.. að hv. þm. líta svo á, að ég haldi því fram, að bezta ráðið sé að prenta seðla. En það, sem ég sérstaklega vildi ræða í þessu sambandi, er takmarkið með seðlaútgáfunni, því að ég er hræddur um, að takmark núv. stj. með útgáfu seðla sé annað en það, sem eðlilegt mætti telja.

Ég held þá, að ég verði að fara inn á grundvallaratriði hagfræðinnar. Ég held, að þeim, sem stjórna gjaldeyrismálum á Íslandi, fari eins og hænu, sem dregið er hvítt strik í kringum. Hún heldur, að hvíta strikið sé óyfirstíganleg hætta. en hættan er aðeins til í hennar eigin heila. Við skulum athuga, hvað seðlar eru. Þeir eru ávísun á þrennt. Menn klæðast ekki í peningaseðla fremur en skömmtunarseðla, sem landsfólkið talar um að klæðast í. Seðlarnir eru aðeins til að skipta fyrir annað, og þess vegna eru þeir afl þeirra hluta, sem gera skal, og þetta þrennt. sem þeir eru ávísun á, er: 1) Vinnuafl. 2) Erlendur gjaldeyrir. 3) Innlent efni. Vinnuaflið er nauðsynlegt, ef þjóðfélaginu á að vegna vel, að hagnýta til fullnustu, og seðlaútgáfuna þarf að miða við það, að vinnuaflið sé hagnýtt til fulls. Það þýðir það, að það verður að vera nákvæmlega áætlað, í hvað við verjum vinnuaflinu. Og þá kem ég að því, sem hv. þm. Rang. var að tala um í þessu sambandi, að það dygði ekki að nota vinnuaflið þar, sem það gæfi ekki arð. Spursmálið er ekki, hvort það gefur arð, heldur, hvort það hefur notagildi. Spítalar gefa ekki arð, skólar gefa ekki arð, vegir gefa ekki arð, eins og það venjulega er skilið, en allt þetta hefur mikið afnotagildi fyrir þjóðfélagið, og er það undir öllum kringumstæðum þannig, að það er alltaf nægilegt til að vinna, sem gefur slíkan arð fyrir þjóðfélagið. Þess vegna er það undir öllum kringumstæðum rétt og sjálfsagt, að seðlaútgáfa sé miðuð við að hagnýta vinnuafl þjóðarinnar til fulls og án tillits til þess, hvort það er notað til þess, sem gefur arð eða ekki. Ég skal minna á það, að þegar Roosevelt var að skapa sína nýju skipun í fjárhagsmálum Bandaríkjanna, lét hann listamenn fara að vinna við það að gera mikið skraut á hin og þessi stórhýsi í Ameríku til þess þannig að koma þessum mönnum í vinnu, sem var kostnaður fyrir þjóðfélagið að láta vinna. en hjálpaði til að skapa kaupgetu og koma á hreyfingu í þjóðfélaginu á öllum sviðum, allt frá því að vinna praktíska vinnu og til þess að láta listamenn skapa ný listaverk. Arðsjónarmiðið er ekki það afgerandi sjónarmið. Það er vert að taka mikið tillit til þess, en það er ekki afgerandi, og vil ég leyfa mér að halda því fram. að það sé ekki samræmi í þeirri yfirlýsingu núv stj. að styðja að því, að hver maður hafi vinnu. og því sjónarmiði, sem ræður í seðlaútgáfunni. Seðlaútgáfan er ávísun á erlent efni, sem við getum haft til umráða að miklu eða litlu leyti, og út frá því, hvort erlenda efnið er mikið eða lítið. ber okkur að gera okkar áætlanir. Ef við erum mjög fátækir í erlendum gjaldeyri, þannig að við getum ekki lagt í eins mikið, mundi koma til greina á þeim tíma, sem lítið erlent efni væri hægt að fá, að láta vinna það, sem heimtaði lítinn erlendan gjaldeyri. Þessir hlutir: vinnuaflið, erlenda og innlenda efnið, það er afl þeirra hluta, sem gera skal. Seðlaútgáfan hefur vissulega lítið að segja, ef við höfum ekki þessa hluti. Seðlarnir eru aðeins ávísun, og það væri dæmalaust, ef það gæti komið fyrir í einu þjóðfélagi, sem hefur áætlunarbúskap, að það stæði á því að gefa út seðla. Þess vegna er ég ákaflega hræddur um, eftir þeirri þekkingu, sem fram kemur í umr. um seðlaútgáfuna, að hv. alþm. geri sér ekki ljóst, um hvað var að ræða, þegar við vorum að setja l. um fjárhagsráð og ákveða að koma upp áætlunarbúskap og nægri atvinnu. Þess vegna er það, sem ég hef sérstaklega óskað þess, einmitt áður en við hefðum framkvæmt þetta viðvíkjandi fjármagninu og ráðstöfun á því, að þessar áætlanir fjárhagsráðs hefðu legið fyrir. Ég geng út frá því sem sjálfsögðu, að með þeirri áætlun fylgdi samþykkt landsbankastjórnarinnar og að ríkisstj. leyfi sér ekki að leggja fyrir okkur alþm. áætlanir, sem síðan eigi að fara að sækja um leyfi fyrir, hvort eigi að framkvæma. Það væri jafnfráleitt og að gefa út fjárfestingarl. og gjaldeyrisl. án þess að sjá fyrir gjaldeyri. Ég ætlast ekki til, að Alþ. sé beiningamaður gagnvart landsbankastjórninni. Til þess er verið að undirbúa áætlunarbúskap, að ríkið sé ekki sjálfu sér sundurþykkt. Af því að bankinn er eign ríkisins, sem ræður seðlaútgáfunni, hefur það þarna umráðaréttinn og ákvarðar um það, hvað rétt sé að hafa mikla seðlaútgáfu á hverjum tíma, og það er eitt af frumatriðum slíkra áætlana.

Ég hef farið svo ýtarlega út í þetta af því, að aðalgrundvöllur ríkisstj. átti að vera áætlunarbúskapur. Ég mun ekki ræða þetta frekar, en vona, að af því, sem ég hef samt, sé hæstv. atvmrh. ljóst, að ég er mér þess meðvitandi, hvaða takmörk eru fyrir seðlaútgáfunni, og vonast til þess, að embættismenn ríkisins, sem vinna að þessu, geri sér jafnvel ljóst, hvaða skyldur fylgja seðlaútgáfu hjá þjóð, sem ætlar að búa við áætlunarbúskap.

Þá kom hæstv. atvmrh. inn á þetta með vélarnar. Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. hefur spurzt fyrir um vélar í þessu sambandi og hvar helzt ætti að kaupa þær. Frá því að ég fór að skipta mér af þessum málum, hef ég haft augastað á sérstöku landi í þessu sambandi, þar sem ég veit, að við gætum gert hagstæðustu kaup, en það er Tékkóslóvakía. Mér er kunnugt um, að tékkneskur iðnaður er um framkvæmdir svona verka eins vel útbúinn og samkeppnisfær við amerískan stóriðnað. Hins vegar er hvað verðið snertir fyrir okkur um tvennt ólíkt að ræða. Verðið, sem við fáum fyrir hraðfrysta fiskinn í Tékkóslóvakíu, er 100% hærra en það verð, sem við fáum í Bandaríkjunum, en þetta gildir ekki um alla hluti, sem keyptir eru í Tékkóslóvakíu. Við vitum, að þar, sem Bandaríkin geta komið fjöldaframleiðslunni að, geta þau undirboðið alla aðra. Það er því nauðsynlegt, að við tökum tillit til þessara hluta, og vona ég, að ríkisstj. hafi athugað slíkt í tíma út frá þeirri hugmynd, að við mundum á næstu árum, fram að 1950, geta gert slík stórinnkaup í Tékkóslóvakíu og geta selt eitthvað ákveðið af vöru okkar þar.

Þegar ég var umboðsmaður fyrrv. ríkisstj. í Tékkóslóvakíu með Pétri Benediktssyni, lagði ég til, að íslenzka ríkið lánaði Tékkum 25 millj. kr. Ég skal játa, að þegar ég gerði slíkar kröfur, þá var það ekki aðeins út frá því sjónarmiði að tryggja innkaup okkur á slíkum stórtækjum. heldur líka út frá því sjónarmiði að knýja okkur til að spara útlendan gjaldeyri. Ég sá vel þá, hvert stefndi með gjaldeyri okkar og vissi, að ef við frystum eitthvað verulegt af því, sem við áttum þá inni í sterlingspundum í Englandi, og lánuðum það til slíkra þjóða, þá myndum við eiga inneignir á næstu árum, sem gætu komið sér vel, fyrst ekki var þá hægt að stöðva þá eyðslu, sem átti sér stað samtímis því, sem þjóðin var að gera sinn stórfellda sparnað með nýsköpunarframkvæmdum. Því miður tókst ekki að fá það fram, að við gætum átt þetta mikið inni hjá Tékkum. M.a. strandaði það á skilningsleysi Landsbankans, og það skilningsleysi kom fram í fyrra, þegar lánsinneign okkar hjá Tékkum var milli 7–8 millj. og Landsbankinn heimtaði, að gengið yrði hart að Tékkum og stj. borgaði þetta út, í staðinn fyrir að skilja, hver nauðsyn það var fyrir íslenzkan þjóðarbúskap að eiga fé inni og nota það í varanlega hluti. — Þegar hæstv. atvmrh. þess vegna var að tala um, að við myndum þurfa að fá lán, hefði mátt búast við því, að þess háttar hugmyndir hefðu komið fram að nota það fé, sem við eigum hjá öðrum þjóðum, í slíku skyni. Og það hefði verið æskilegt að fá það upplýst einmitt í sambandi við þær áætlanir, sem hér ættu að liggja fyrir, hvernig innflutningi okkar til Tékkóslóvakíu er háttað í augnablikinu. Ég hef heyrt, að það hafi verið hægt að gera samninga við þetta land í nóvember s.l. um að selja þangað fyrir 37 millj. kr., en ríkisstj. hafi neitað að gera þessa samninga og haft það að yfirvarpi, að hún vissi ekki, hvað hægt væri að kaupa frá þessu landi. Og rétt á eftir kemur hæstv. atvmrh. og segir: Við verðum líklega að taka lán til þess að kaupa þessar vélar, og við vitum, hvað það getur tekið langan tíma að fá þær. Ég hef áður minnzt á það í sambandi við stórvirkjanir, svo sem sementsverksmiðjuna, áburðarverksmiðjuna og stór raforkuver, hversu heppilegt væri að semja við þetta ríki og tryggja okkur að fá þessar vélar þar. Og ef þessar vélar væru allar búnar til í eitt skipti fyrir öll, ætti að vera hægt að fá þær ódýrara, hvort sem þær væru keyptar í Bandaríkjunum eða Tékkóslóvakíu. Ríkisstj. hefur sannarlega verið bent á þetta í tíma. M.a. lagði ég sérstaka áherzlu á það í haust, eftir að þetta þing hófst. að það væri tækifæri til að gera samninga til margra ára við þetta ríki um að afla sér þessara hluta sem fyrst. Samkvæmt ákvæðum l. áttu áætlanir fjárhagsráðs um stórfelldar framkvæmdir að liggja fyrir í upphafi þings. Samkvæmt ráðleggingu, sem ríkisstj. fékk frá okkur sósíalistum, var hægt að gera samning til margra ára og tryggja langan afhendingarfrest. Það þurfti að gera samninga við þessi ríki um það, að þau í áætlun sinni um vélaframleiðslu gerðu ráð fyrir að framleiða þetta árabil handa Íslendingum svona og svona mikið af dýnamóum, túrbínum og alls konar vélum viðvíkjandi verksmiðjum, sem ráðstafanir hafa verið gerðar til að byggja. Ríkisstj. var bent á þetta, en hún skellti skollaeyrunum við. Síðan er komið hér og reynt að telja okkur trú um, að Íslendingum liggi svo mikið á því að taka erlent lán.

Ég hef gerzt svo fjölorður um þetta vegna þess, að mér þykir sárt, að það skuli ekki vera hægt að fá þá menn, sem hér ráða og hafa tekið að sér að stjórna okkar þjóðarbúskap og marka honum bás til margra ára, til þess, sem tvímælalaust hefði verið hagkvæmast fyrir þjóðarbúskap okkar, ekki aðeins fyrir þetta árabil, heldur miklu lengri tíma. Svo kemur hæstv. atvmrh. og segir, að við munum þurfa að taka lán erlendis. Hins vegar er ég ákaflega hræddur um, eftir því sem lánamarkaðurinn er í heiminum og eftir því sem áður hefur verið talað hér af hæstv. samgmrh. í haust, að það mundi verða í Bandaríkjunum, sem lánsféð yrði tekið, en ef það er ekki meiningin, þá fáum við væntanlega að heyra, hvar hugsað er fyrir því.

Viðvíkjandi spursmálinu um erlent lán, þá álit ég, að það sé leið, sem við eigum ekki að fara út í fyrr en í síðustu forvöð. Það fyrsta, sem við verðum að heimta af ríkisstj., þegar um þess háttar mál er að ræða, er það, hvort allt sé gert, sem hugsanlegt er til þess að tryggja sem mesta framleiðslu og útflutning frá Íslandi og sem mest verð fyrir það. Það er það, sem við hljótum að setja sem nr. 1. Og þegar Alþ. ætlar að dæma um það, hvort þörf sé fyrir að taka erlent lán, verðum við fyrst og fremst að hafa þetta í huga: Hefur verið gert allt, sem hægt er. til þess að auka framleiðslu okkar, framleiðslan verið hagnýtt innanlands og sparaður þannig innflutningur? Hafa öll okkar skip og verksmiðjur verið settar í gang til þess að framleiða sem allra dýrmætasta vöru til útflutnings? Þetta hlýtur að vera fyrsta spurningin. Ég hef rökstudda ástæðu til að ætla, að af hendi fjárhagsráðs hafi ekki verið skeytt um að hagnýta alla möguleika innanlands, og í öðru lagi, að ekki hafi verið skeytt um að tryggja, að öll okkar framleiðslutæki séu í gangi til útflutningsframleiðslunnar. Í þriðja lagi er ég hræddur um, að alls ekki hafi verið um það hugsað að framleiða úr þeim afurðum, sem við drögum úr sjónum, svo dýrmæta vöru sem nauðsynlegt er. Ég held, að fjárhagsráð hafi stillt þannig til, að úr Faxaflóasíldinni hafi verið unnin vara, sem ekki gefur nema helming þess verðmætis, sem önnur meðferð á sömu afurðum getur gefið. Hefði verið sett meiri síld í fiskiðjuverið hér á hafnarbakkanum og unnin úr því dýrmæt vara, hefði verið hægt að selja hana hæsta verði. Mér er sagt, að ríkisstj. hafi staðið til boða að selja þannig verkaða síld fyrir 1/2 millj. kr. til Tékka, og mér reiknast, að það mundi þýða a.m.k. helmingi meiri gjaldeyri fyrir Faxaflóasíldina, ef þannig væri farið með hana. Ég held þess vegna, að það sé afskaplega fjarri því, að framleiðslumöguleikar okkar séu hagnýttir til fulls með þeim framleiðslutækjum, sem við höfum til að vinna sem dýrmætasta gjaldeyrisvöru, og meðan slíkt á sér stað, þá er óviðfelldið að leggja til að taka lán, meðan þjóðin er þannig látin eyða og kasta í sjóinn dýrmætum gjaldeyri. Ég held þess vegna, að hæstv. ríkisstj. verði, áður en hún heldur því fram í sambandi við stórmál eins og þetta, að það sé ekki gjaldeyrir fyrir hendi, að færa sönnur á það áður, að þeir möguleikar, sem hér eru innanlands, hafi verið hagnýttir til fulls. Ég veit meira að segja, að á sama tíma sem vanrækt er að nota þessa möguleika í sambandi við fiskiðjuverið, þá er af hálfu ríkisstj. verið að reyna að þvinga upp á erlenda kaupendur skemmdri niðursuðuvöru, sem kannske lokar mörkuðum, vegna þess að þar eiga góðir stuðningsmenn ríkisstj. hagsmuna að gæta og slíkir hagsmunir eru metnir þarna meira en hagsmunir ríkisins sjálfs. — Þessa hluti þurfum við að fá upplýsta, þegar verið er að ræða um þessi mál. Það er ómögulegt að ætlast til þess, að það sé tekið sem góð og gild vara að segja: Það er enginn gjaldeyrir til, — en láta á sama tíma þessa óstjórn viðgangast hvað snertir framleiðslu okkar. Ég mundi þess vegna, ef um slíkt væri að ræða, leggja höfuðáherzluna á sjálfa áætlunina viðvíkjandi útflutningnum. Við verðum fyrst að láta þingið fá tækifæri til þess að gera þetta, áður en það væri viðurkennt, að óhjákvæmilegt sé að taka lán erlendis til þess að koma upp þessum fyrirtækjum. Ég held því, að það þurfi fullkomna skýrslu frá ríkisstj. um það, hvernig gjaldeyrisöflun þjóðarinnar er háttað, áður en við gleypum þá flugu sundrungaraflanna, að það þurfi að taka erlent lán. Þetta er viðvíkjandi því, að við getum fengið meira fyrir okkar útflutning.

Næst er þá að athuga, hvort stj. hefur sparað eins og hægt er viðvíkjandi innflutningnum. Það er þá fyrst, þegar allt er orðið í fullkomnu lagi með útflutninginn og gjaldeyrisöflunina og sparsemi í innflutningi, sem ég mundi fyrir mitt leyti ganga inn á að taka lán erlendis. Viðvíkjandi því, sem hér hefur verið minnzt á í þessum umr., um möguleika á, að sementsverksmiðja borgaði sig viðvíkjandi sementsverði, þá vil ég taka það fram, sérstaklega viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Rang. var að segja, að það væri ekki öryggi fyrir því, að það verð, sem reiknað er með, geti haldizt svipað erlendis og það er, að það er ekki aðeins hugsanlegt, að þetta verð hækkaði, heldur, að það lækkaði. Við skulum gera okkur það ljóst, að það er líka hugsanlegt. að verðið yrði lægra en framleiðslukostnaður. Og þótt það gæti komið fyrir, að það yrði hærra, þýðir það á engan hátt, að við ættum að breyta neitt um viðvíkjandi afstöðu okkar um sementsverksmiðju. Ég vil aðeins taka þetta fram, ef ríkisstj., sem er áfram um að athuga málið betur, skyldi fara að hugsa út í það við meðferð málsins, að það kynni að verða fáanlegt sement erlendis, og ég tel það líklegt, en það eru engin rök á móti því að byggja sementsverksmiðju Ef kreppa skylli á í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu, þá félli náttúrlega sementið þar. En samtímis, ef við erum markaðslega bundnir við þær þjóðir, mundu útflutningsvörur okkar einnig falla í verði og við yrðum svo gjaldeyrisfátækir. að við treystum okkur ekki til þess að kaupa sement, þótt fallið hefði í verði. En ef við þá hefðum komið upp okkar sementsverksmiðju. gætum við framleitt sement til okkar þarfa. Það. að verðfall verði á sementi erlendis, þýðir því ekki, að við ættum auðveldara með að kaupa það.

Þetta vildi ég segja við þessa umr., og ég vona. að þegar málið kemur til 3. umr., þá liggi fyrir áætlun fjárhagsráðs, sem hæstv. atvmrh. hefur boðað, að útbýtt verði á næstunni, svo að hv. þm. þurfi ekki að komast eftir innihaldi hennar upp úr heildsalablöðunum eða öðrum krókaleiðum, og það er krafa þm., að áætlunin verði lögð fyrir, eins og ákveðið er í lögum. enda þá fyrst hægt að ræða þetta mál á raunsæjan hátt.