20.02.1948
Neðri deild: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

61. mál, sementsverksmiðja

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég get látið mér fáein orð nægja að þessu sinni. Umr. hafa orðið mjög langar, og ég tek undir það með hæstv. atvmrh., að fátt hefur komið fram í þeim, er skiptir máli. Ég held, að í þessu máli sé yfirleitt enginn ágreiningur, heldur er verið að reyna að búa til ágreining. Hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Siglf. hafa, að því er mér finnst, tekið það í sig, að þeir séu að berjast við einhvern fyrir framgangi málsins. En það er misskilningur, því að við engan er að berjast, og allir viðurkenna nauðsyn þess, að málið nái fram að ganga. Í n. kom ekki fram nein rödd í aðra átt, og var þó frv. athugað og rætt rækilega af n.

Hv. þm. Siglf. hefur sagt, að formið á frv. sé valið vegna þess, að meiningin sé að byrja ekki á framkvæmdum á næstu tímum. Það sé verið að búa til fánýtt pappírsgagn. Það er ekkert í nál., sem gefur tilefni til slíkra ályktana, og ef það lægi á bak við nál., þá skil ég ekki, að fulltrúi sósíalista í n. hefði orðið sammála okkur hinum. En það er venja um þess konar frv. að afgreiða þau í heimildarformi, og ég sé enga ástæðu til að hafa þetta öðruvísi nú, nema ástæða væri til að tortryggja hæstv. ríkisstj. um, að hún mundi nota sér heimildina, en ekkert það hefur fram komið, sem gefi tilefni til slíks. Það liggur fyrir yfirlýsing hæstv. ríkisstj. um, að hún muni nota heimildina, þegar hægt er. og hæstv. atvmrh. hefur lagt málið hér fyrir og beitt sér fyrir framgangi þess, og sé ég því enga ástæðu til að hafa frv. öðruvísi en í heimildarformi. Ef Alþ. væri hins vegar að berjast við ríkisstj., væri ástæða til þess. En eftir yfirlýsingar stj. um fullan stuðning við málið, er það öldungis óþarft. Ég er því andvígur brtt. hv. þm. Siglf., ekki af því, að hér eigi að staldra við um framkvæmdir í málinu, heldur af því, að ég tel eðlilegt, að málið verði afgreitt eins og svipuð mál áður og af því að ég treysti yfirlýsingum hæstv. atvmrh.