27.02.1948
Neðri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

61. mál, sementsverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Í umr. við 2. umr. þessa máls óskaði ég þess, að þm. fengju að sjá áætlanir þær, sem fjárhagsráð á lögum samkvæmt að gera og leggja átti fyrir þingið og hafa til hliðsjónar við samningu fjárl. Þessar áætlanir eru ekki komnar fram enn, og má það undarlegt heita, ef ráða á til lykta stórmálum án þess að skapaður sé raunhæfur grundvöllur fyrir framkvæmd þeirra. Alþ. og stj. eiga að sjá um það, að þeir hlutir, sem ákveðnir hafa verið, séu gerðir, o g Alþ. hlýtur að krefjast þess, að I. sé framfylgt. Ég vona, að hæstv. ráðh. skýri frá því, hvort tillit er tekið til þessa máls í áætlunum fjárhagsráðs.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að nú væri ekki þörf á baráttu fyrir þessu máli, því allir væru sammála um nauðsyn þess. En má ég spyrja: Hvernig hefur orðið um framkvæmd annarra mála? Hvað líður t.d. lýsisherzluverksmiðjunni? Það var ekki barizt á móti því máli í Alþ. Það þótti ekki þörf á því, vegna þess að það átti að svæfa málið utan veggja Alþingis. Meðan einstaklingar koma sér upp verksmiðjum, er svo lögunum stungið undir stól, meira að segja þótt vélar hafi verið keyptar. Hvaða dularfulla hönd er það, sem leggst á hvert einasta mál, sem hrinda á í framkvæmd? Það skaðar ekki, að hv. alþm. geri sér það t.d. ljóst, hvaða öfl standa á móti því, að lögin um ræktunarsjóð séu framkvæmd. Ráðh. hefur vald til þess að skylda seðlabankann til þess að veita ákveðið fé. Alþ. vildi með þessu tryggja það, að l. væri framfylgt. Nú rekur Alþ. sig á það, að stj. er hikandi við það að beita þessu valdi gegn Landsbankanum. Það er einkennilegt, að maður. sem er prófessor í hagfræði, skyldi ekki gera sér þetta ljóst. Alþ. verður að tryggja það vald, sem því er gefið, svo að ein af embættisstofnunum þjóðarinnar leiki sér ekki að því að brjóta lög landsins. Í sambandi við lögin um ræktunarsjóð hefur jafnvel gengið svo langt, að hótað hefur verið með málssókn. Það hefur ekki skort viljann, heldur festuna gagnvart peningamönnum.

Það er ekki til neins að ætla að blekkja þm. með því, að enginn standi á móti málinu. Það er staðið gegn því, og það er rétt að segja það., meðan málið er innan þingveggjanna, vegna þess að reynslan er sú, að mótstaðan kemur, þegar málið er komið út úr þinginu. Þeir, sem fylgdust með baráttunni um l. um stofnlánadeild sjávarútvegsins, vita, að í n. var frv. breytt á móti skoðun n. sjálfrar. N. lýsti yfir því, að hún bæri brtt. fram, þó að hún væri á móti henni. Þetta er skráð í nál. Það er því þannig, að þessi dularfulla hönd seilist svo langt, að þm. fá ekki að halda sannfæringu sinni. Það er manns eins og hv. 4. þm. Reykv., sem er prófessor og hagfræðingur, að athuga, hvers konar svikamylla það er, sem hér er tefld af fjármálavaldinu gegn lögum þjóðarinnar. Þess vegna situr sízt á hv. 4. þm. Reykv. að reyna að dylja þjóðina, hvað þarna sé um að ræða. Þess vegna er það, þar sem við vitum, að það verður barátta um þetta mál, þegar það er komið út úr þinginu, þá er tækifæri nú til að ganga svo frá málinu, að þeir, sem eru á móti framkvæmdinni, geti ekki unnið sigur. Það má auðvitað segja, að það komi þing eftir þetta þing, og þá megi laga l., en það þýðir töf, og það þýðir tap. Og þeir, sem þekkja, hvað erfitt er að fá mál tekin upp hér og dregin út úr n., þeir vita, að bezt er að ganga ekki einungis frá málinu sem l., heldur einnig frá því sem framkvæmd.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann treysti sér til að tilnefna nokkurn tíma. nokkurt ár, sem hann gæti treyst sér til að byrja á þessari verksmiðju, hvort hann geti gefið þinginu nokkra bendingu eða loforð viðvíkjandi því. hvort hann geti gefið þinginu nokkurn skapaðan hlut, sem þingið geti fest fingur á, annað en það. að ef hægt er að fá fjárveitingu til þess setta í fjárl. og ef stj. lítist vel á, þá skuli verða ráðizt í það. Það er æskilegt fyrir þá, sem vilja tryggja framgang þessa máls, að fá þess háttar yfirlýsingu, svo að þeir geti fengið fullvissu um, að ekki verði farið með þetta mál eins og fjölda annarra góðra mála, sem samþ. hafa verið á Alþingi, en hafa verið stöðvuð af framkvæmdaleysinu í þessu landi, af því valdi, sem stjórnar því, að hlutirnir séu ekki framkvæmdir. Þess vegna er ég hræddur um, að slík yfirlýsing fáist ekki. Hins vegar efast ég ekki um, að hæstv. ráðh. muni vilja koma þessu máli í framkvæmd. og ég er viss um, að ef hæstv. ráðh. vildi segja d. það í dag, að hann vildi fá inn í frv. ákvæði, sem skyldaði Landsbankann til að leggja fram féð, þá mundi d. samþykkja það.

Nú er svo komið, að hvað eftir annað heyrist frá ýmsum ráðh., að það séu samþ. frá þinginu hin og þessi l., en síðan sé ekkert hugsað fyrir því, að hægt sé að framkvæma þessi l. Hins vegar tekur hæstv. stj. við hverjum l. á fætur öðrum. Það væri nú æskilegt, að hæstv. ríkisstj., fyrst hún ekki enn þá fæst til að leggja fram þá áætlun, sem henni lögum samkvæmt bar að leggja fram, vildi segja, með hvaða skilyrðum hún vill taka að sér að framkvæma þau l., sem hún tekur við, hvaða lán hún þurfti að fá til framkvæmdanna fram yfir þá lánsheimild, sem felst í þessu frv. Alþ. meinar það tvímælalaust með því að samþykkja þessi l., að þau verði framkvæmd. Og þá er eðlilegt, að Alþ. vilji fá að heyra frá framkvæmdavaldinu, hvað þurfi til þess að framkvæma þau.

Það hefur aldrei verið meining okkar sósíalista að tefja þetta mál, síður en svo. Við höfum gert bæði rú og áður það, sem í okkar valdi stóð, til að tryggja því framgang. Þetta er ekki nýtt mál, það er meira en áratugs gamalt. Og stjórnarflokkarnir segja, að það hafi ekki strandað á þingviljanum, heldur hafi mótstaðan verið utan þingveggjanna. En fyrst svo er, þá væri æskilegt, að þing og stj. reyndi, meðan málið er enn ekki afgreitt frá Alþingi, að ryðja þeirri hindrun úr vegi, og ég efast ekki um, að Alþingi er reiðubúið til að fá stj. það vald, sem þarf til að tryggja málinu framgang.

Ég endurtek, að það væri mjög æskilegt, ef hæstv. atvmrh. vildi við þessa umr. segja frá því, hvort þessi áætlun frá fjárhagsráði sé tilbúin og hvenær hann búist við, að hægt verði að hefja framkvæmdir, og ef hann er ekki öruggur um það, hvað hann þurfi að fá frá þinginu til þess að l. verði framkvæmd.