27.02.1948
Neðri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

61. mál, sementsverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég tel ekki ástæðu til að bæta miklu við það, sem ég hef þegar sagt um þetta mál.

Það er rétt, að hv. 2. þm. Reykv. óskaði eftir því við 2. umr., að áætlunin frá fjárhagsráði lægi fyrir áður en málið yrði afgr. frá d. Um þetta hef ég sagt honum það, að Alþingi mun á sínum tíma fá að sjá þær áætlanir, þegar þær lægju fyrir og fyllilega frá þeim gengið, en það er ekki enn þá, en vitanlega fær Alþingi að sjá þær, undir eins og frá þeim hefur verið gengið. Annars sé ég satt að segja ekki, hvaða beina þýðingu það hefur í sambandi við þetta mál. Ef svo stæði á. að svo og svo mikill hluti af þm. væri á móti þessu máli og bæri því við, að það væri ekki samkvæmt áætlun fjárhagsráðs unnt að hrinda málinu í framkvæmd, þá væri ástæða til að athuga áætlanir fjárhagsráðs. En nú stendur svo á, að Alþingi er sammála um að láta málið ganga fram, þó að við getum ekki á næsta ári eða árum varið gjaldeyri okkar til framkvæmdanna vegna annarra nauðsynlegra og aðkallandi hluta, en um það hefur verið rætt að leysa málið með því að taka til þess gjaldeyrislán. Af þessum ástæðum sé ég ekki neina knýjandi ástæðu til að athuga áætlanirnar nú. Ég get ekki heldur lofað neinu um, hvenær málið verði tekið til framkvæmda. En ég vil endurtaka það, sem ég hef áður sagt. að því aðeins fer stj. fram á heimild til að hefjast handa um þetta mál, að hún hefur trú á málinu og áhuga á að fylgja því fram. Og ég get endurtekið það, sem ég hef sagt áður, að ég mun, þegar þetta frv. hefur endanlega verið samþ., sem ég vænti, að geti orðið innan skamms tíma, hefja þann undirbúning, sem í mínu valdi stendur, um fjáröflun, útvegun véla og annað, sem til framkvæmdanna þarf. Og ég get endurtekið það enn, ef þess er þörf, að meðráðh. mínir — og sérstaklega hæstv. fjmrh. — eru mér sammála um þetta mál, og ég tel, að ég standi ekki feti nær því að framkvæma málið, þó að till. sú verði samþ., sem hv. þm. Siglf. ber fram.