27.02.1948
Neðri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

61. mál, sementsverksmiðja

Pétur Ottesen:

Það er í sambandi við brtt. á þskj. 393, .sem ég vil segja nokkur orð. Það er gengið inn á nýja braut í útsvarsmálum hér á landi með því að gera útsvarsskylda efnistöku í sveitarfélögum. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er verksmiðjan reist í Flateyrarhreppi. en skeljasandur tekinn í Mosvallahreppi, og skal þá útsvari skipt á milli hreppsfélaganna eftir samkomulagi eða öðrum kosti samkvæmt úrskurði atvinnumálaráðherra.“

Þessi grundvöllur, sem hér virðist eiga að leggja, er alveg nýr í útsvarsmálum hér á landi. Ég er ákaflega hræddur um, að þetta gæti leitt af sér allmikla togstreitu milli hreppsfélaga, ef farið væri að færa slík ákvæði út á víðara svið í útsvarsl. Og þegar einu sinni er búið að slá þessu föstu í l., þó að á takmörkuðu svæði sé. þá er mikil hætta á því, að fram komi raddir og óskir og kröfur um, að slík ákvæði verði tekin inn í þá almennu löggjöf, sem útsvör eru byggð á. Það er líka dálitið einkennilegt við þessa brtt., að í sjálfu frv. er sagt svo, að ríkisstj. sé heimilt að láta reisa við Önundarfjörð þessa verksmiðju, en ekki nánar til tekið, á hvaða stað. En svo kemur fram miklu síðar, þegar farið er að tala um útsvarsskyldu verksmiðjunnar, að þá fyrst er farið að tilnefna staði, ekki einn, heldur tvo, sem verksmiðjan verði tengd við. Það getur vel verið, að það hagi svo til við Önundarfjörð, að sá staður, sem tilnefndur er, Flateyri, sé þannig í sveit settur þarna, að sjálfsagt sé að reisa verksmiðjuna þar. Ég þekki það ekki. og við því er ekkert að segja, þó að það komi fram í frv., ef það er ótvírætt, að verksmiðjan eigi að vera þar. Ég vil mjög vekja athygli á þessu, að ef á að veita hreppi vegna efnistöku rétt til útsvars í þessu tilfelli, þá gæti það leitt til þess, að fleiri slíkar kröfur kæmu fram. Ég vil t.d. benda á í sambandi við hin væntanlegu fiskiðjuver, þar sem hráefnið kann að koma frá öðrum stöðum en þar, sem fiskiðjuverið sjálft er, að þá gæti svo farið, að slík krafa sem þessi kæmi fram. Það sama gæti orðið upp á teningnum í sambandi við síldarverksmiðjurnar á miklu stærra og víðtækara sviði en nokkurri annarri atvinnugrein.

Ég vil þess vegna mjög vekja athygli á þessu og fara fram á, að n., sem hefur borið þessa till. fram, athugi þetta á ný, og vil ég þá jafnframt vekja athygli d. á því, að þetta verður að skoðast nokkru gerr, áður en því er slegið föstu, að farið skuli inn á þessa braut því að ég er ekki í vafa um, að það muni geta haft allvíðtækar afleiðingar og skapa mikla erfiðleika í okkar útsvarsmálum, sem ærnir eru fyrir.