27.02.1948
Neðri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

61. mál, sementsverksmiðja

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég get vel skilið aths. hv. þm. Borgf. og finnst þær mjög skynsamlegar og eðlilegt, að á þessu atriði sé vakin athygli. Það er alveg rétt, að hér er um að ræða nokkurt nýmæli. Hins vegar vil ég vekja athygli á því, sem markaði skoðun n., að hér sé um mjög smávægilegt atriði að ræða, þar sem það útsvar, sem heimilt er að leggja á þessa verksmiðju, getur aldrei farið fram úr 45 þús. kr. En það er vel þess vert að vekja athygli á því, að gert er ráð fyrir, að útsvarið skiptist milli hreppanna eftir samkomulagi þeirra sjálfra, og ef samkomulag næst ekki, þá sker atvmrh. úr. Ef hrepparnir geta komið sér saman um að skipta milli sín útsvarinu, sem er ekki stórvægilegra en þetta, þá virðist þessi tilhögun alls ekki óeðlileg. En verði ekki samkomulag, sker atvmrh. úr, og virðist því ekki vera stigið hér neitt spor, sem kallazt gæti varhugavert eða gæti gefið óheppilegt fordæmi. Hins vegar þykir mér mjög eðlilegt, að þessi aths. skyldi koma fram, og finnst hún skynsamleg, þó að ég sé hv. þm. Borgf. ekki sammála um, að hér sé stigið svo varhugavert spor, að ástæða sé til að stíga það til baka. Og þar sem hér er um að ræða 3. umr., vil ég mjög mælast til þess, að þetta atriði yrði ekki til að tefja afgreiðslu málsins. Enn eru eftir þrjár umr. í Ed., og þar verður frv. að sjálfsögðu athugað í n. og þessu atriði breytt, ef ástæða þykir til. Ég skal gjarnan taka að mér að vekja athygli n. í Ed. sérstaklega á þessu atriði. Og breyti Ed. málinu, þá kemur það að sjálfsögðu aftur hingað. É g skal gera mitt til, að þetta verði athugað sérstaklega í Ed.

Í tilefni af ræðu hv. 2. þm. Reykv. vil ég leyfa mér að segja örfá orð.

Hv. þm. lagði höfuðáherzlu á, að nauðsyn væri að breyta 1. gr. í skylduform, því að nú legðist landsbankavaldið ekki einungis á framkvæmdir ríkisstj., heldur á allar framkvæmdir í landinu. En ef það er svo, að Landsbankinn vill hindra framgang þessa máls, þá er engin bót þar á ráðin með brtt. hv. þm. Siglf. Það bætir ekkert úr, þó að sett séu skyldul. í staðinn fyrir heimildarl. Þessi rökfærsla hv. þm. fær því ekki staðizt. Það, sem eftir hans hugsanagangi þarf að gera til að tryggja framkvæmd málsins, er ekki aðeins það að ákveða, að verksmiðjan skuli reist, heldur að tryggja nægilegan gjaldeyri til framkvæmdarinnar og skylda Landsbankann til að leggja fram nægilegt fé til stofnunar og rekstrar verksmiðjunnar, en um það hefur engin till. komið fram, og þó er þetta 3. umr. málsins. M.ö.o., hér liggur ekki neitt það fyrir í tillöguformi, sem að dómi hv. þm. tryggir málinu framgang. Það er augljóst, að þótt till. hv. þm. Siglf. verði samþ.. er jafnauðvelt eftir sem áður fyrir Landsbankann að neita að leggja nokkurt fé til þessarar framkvæmdar. Það er fjarri mér að verja allar gerðir Landsbankans í fjármálum landsins, en þó getum við ekki leyft okkur að gera Landsbankann að einhverjum allsherjar syndasel og kenna honum allt, sem aflaga fer. Landsbankinn hefur oft beitt valdi sinu gálauslega og léttúðlega, og það er fjarri mér að verja allar hans gerðir, en þó kann að vera, að þegar í odda hefur skorizt milli ríkisstj. og Landsbankans, þá kann að vera, að málstaður bankans hafi stundum verið eins góður og ríkisstj.