27.02.1948
Neðri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

61. mál, sementsverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hélt, að ýmsu af því, sem fram hefur komið áður, mundi verða svarað, en fyrst það hefur ekki verið gert. langar mig til að segja nokkur orð, sérstaklega út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði. — Hann lýsti yfir því, að hann gæti ekki tilnefnt sérstakan tíma, þegar hann treysti sér til að láta hefjast handa um að framkvæma þetta, eða að eina leiðin til að framkvæma þetta væri að taka gjaldeyrislán. Ég skal ekki fara út í að deila lengi um þetta mál. Það er oft búið að taka það fram. að til þess að þetta mál verði vel afgr. frá þinginu, þá þyrfti að liggja fyrir áætlun um framkvæmdir, til þess að þetta gæti orðið vel úr garði gert. En þetta hefur ekki fengizt. Mér þykir leitt. að hæstv. ráðh. skuli ekki nota það tækifæri sem enn er til, til þess að ganga þannig frá málinu.

Hv. 4. þm. Reykv. benti á það út frá ræðu minni, að till. væri fram komin um að skylda Landsbankann til þess að leggja þetta fé fram. Hins vegar hefur nú tvisvar verið rætt um það í þessum umr. að skora á hæstv. ríkisstj. að koma fram með slíka till., ef hún óskaði að fá slíka skyldu inn í l. Hv. 4. þm. Reykv. talaði um, að það væri ekki nóg að samþykkja svona heimildarl. og það væri ekki nóg að skylda. Landsbankann til þess að tryggja framgang svona máls. En því betur sem þingið gengur frá svona máli, því erfiðara verður fyrir Landsbankann að rísa upp á móti því. Þegar l. um stofnlánadeild sjávarútvegsins voru fyrir d., komu fram till. um það að skylda ekki Landsbankann til að leggja fram féð, heldur skyldi það fást með almennri sölu á skuldabréfum.

Ég mun ekki bera fram brtt. við þetta mál, af því að ég veit af reynslu, að það eru ekki möguleikar að fá slíkt fram, nema hæstv. ríkisstj. óski eftir slíku.

Hv. 4. þm. Reykv. minntist á, að það væri ekki allt að kenna Landsbankanum. Það er rétt. Það er nú svo, að Landsbankinn er ekki æðsta stofnun landsins. Hæstv. ríkisstj. og Alþ. eru þar æðri Ráðh. getur vikið bankastjóra frá og Alþ. getur breytt bankal. Hvort tveggja er vald, sem afar sjaldan er gripið til. Landsbankinn, sem er aðalseðlabanki þjóðarinnar, þarf að starfa í samræmi við vilja þjóðarinnar og sérstaklega hagsmuni hennar. Hann hefur sem slíkur mikið vald, og Alþ. grípur ekki inn í að breyta því valdi, sem er í l., nema málin séu komin í öngþveiti. Alþ reynir að bæta úr þeim göllum, sem eru á lagasetningum, en einmitt þegar Landsbankinn vill fara gálauslega að, þá á Alþ. að gripa fram í, þegar ljóst er, hve vitlausir menn það eru, sem stjórna. Hins vegar sé ég, að hv. 4. þm. Reykv. vill ekki svara áskorunum frá hv. þm Siglf. vegna þess, að hvorki hann né aðrir treysta sér til þess eða óska eftir að ræða um fjármálapólitík landsins. Við sósíalistar höfum reynt að að gera það, sem við helzt kynnum að álíta, að þurfi að gera til að tryggja þetta. Við höfum boðið hæstv. ríkisstj. upp á að fylgja þeim till., sem hún kæmi með til að tryggja aðstöðu sína, en hæstv. ríkisstj. hefur ekki viljað fara inn á það. Þess vegna verður að fara sem fara vill um þetta nú. Ég býst við, því miður, að á næsta þingi verði að taka þessi mál til umr. aftur, ef þingið ætlar að sjá um, sem nú er ljóst, að samþykkt um sementsverksmiðju verði framkvæmd.