18.11.1947
Neðri deild: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

22. mál, jarðræktar- og húsgerðarsamþykktir í sveitum

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. — Þetta frv. er komið frá hv. Ed. og var fyrst lagt fram sem stjfrv. og gerðar á því örlitlar breyt. í Ed. Annars virðist það hafa verið afgreitt þar með samhljóða atkvæðum, og landbn. þessarar d. hefur mælt með því, að frv. verði afgreitt óbreytt.

Ég vil aðeins geta þess um efni þessa frv., að það kom í ljós, þegar farið var að framkvæma l. um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum, að nokkur vandkvæði voru á því að fá nægan verkfærakost handa ræktunarsamböndunum. því að það er svo til ætlazt, að þar, sem settar hafa verið ræktunarsamþykktir; eigi að útvega mönnum með aðstoð þess opinbera hæfilega~t verkfærakost til þess að koma í framkvæmd þeim jarðræktarframkvæmdum, sem ráðgerðar eru á viðkomandi samþykktarsvæðum. Til þess þyrfti geysimikinn verkfærakost stórvirkra vinnuvéla, en erfitt hefur verið að flytja inn nægilega mikið af þeim, og þess vegna þarf að grípa til þess að nokkru leyti að nota eldri tæki, sem inn voru flutt rétt áður eða um það bil sem þessar samþykktir voru settar. En samkvæmt l. eins og þau voru var tæplega hægt að fá jarðræktarframkvæmdir viðurkenndar, nema að þeim væri unnið með nýjum vélum. Það hefur því undir framkvæmd 1. þótt nauðsynlegt að viðurkenna vélar og verkfæri, þó að þau hafi verið keypt áður, ef þau væru jafnhæf nýjum vélum hvað verkhæfni snertir. Þetta frv. fer aðeins fram á, að slíkt sé heimilað. Eins og frv. ber með sér, er meiningin, að ekki verði aðrar vélar viðurkenndar sem styrkhæfar á ræktunarsvæðunum en þær, sem eru nýjar eða hafa nýja mótora og eru lítið sem ekkert notaðar.

Landbn. mælir eindregið með því, að þetta frv. verði samþ. Það er þegar farið að koma í ljós, að þessi 1. munu hafa stórkostlega byltingu í för með sér hvað umbætur snertir í þessum efnum, og hafa nú í flestum héruðum landsins hafizt stórkostlegar, skipulagðar framkvæmdir með nýtízku jarðvinnsluvélum, og er ekki nokkur vafi, að þessar vélar koma til með að valda straumhvörfum í jarðræktarframkvæmdum hjá okkur. En nú sem stendur er erfitt að fá vélar frá útlöndum og erfitt að fá þær greiddar, þótt þær fengjust, og hygg ég, að þessi litla breyt., sem hér er farið fram á. sé í alla staði sjálfsögð.