16.03.1948
Efri deild: 79. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

61. mál, sementsverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Þegar mál þetta var hér til 1. umr., hafði ég ætlað að reifa það nokkuð, en var þá kallaður á fund. Næst er málið var tekið á dagskrá, var mér ekki tilkynnt um það, og var það að sjálfsögðu yfirsjón mín að biðja ekki hæstv. forseta að láta mig fylgjast með því. Mér finnst þó ekki ástæða til að fara að halda þá framsöguræðu, sem ég mundi þá hafa haldið, vegna þess að ég geri ráð fyrir, að hv. dm. hafi nú kynnzt sögu málsins og þeim rökum, sem flutt eru fram fyrir því í álitsgerð þeirri og skýrslu, sem fylgir frv.

Eins og hér er tekið fram, hefur þetta mál nú verið beint og óbeint alllengi á döfinni, þótt það hafi ekki komizt lengra til þessa. — Á þinginu 1935 var samþ. ályktun um að hefja rannsókn á sementsverksmiðju hér á landi. Þessi hreyfing átti sér þau upptök, að þá nýlega hafði verið rannsakaður skeljasandur á Vestfjörðum, er hafði að innihalda nægilegt kalk. Í áframhaldi af þessum athugunum var fenginn hingað danskur sementsverkfræðingur, sem gerði hér ýmsar rannsóknir á árunum 1936 og 1937, og taldi hann, að í Vestfjarðasandinum væri nægilegt kalk til þess að framleiða sement., en hins vegar erfitt að finna ýmis önnur efni nauðsynleg framleiðslunni, sérstaklega kísil, sem hann leitaði mjög að. Og eftir hans rannsóknum var kísil ekki að finna nema við hveri, þ.e. í hverahrúðri, austur við Geysi og á öðrum stórum hverasvæðum. Taldi hann, að um nokkurra ára skeið væri hægt að vinna nægilegan kísil til þess að unnt væri að framleiða það sementsmagn, sem þá var miðað við, að nægði hér á landi. Þess vegna gerði hann ráð fyrir í till. sínum, að efni til framleiðslunnar yrði að flytja á milli landsfjórðunga. Af þessum ástæðum og þar sem auðsýnt var, að þessi framleiðsla yrði óhjákvæmilega mjög dýr, var lítið þannig á, að mjög hæpið væri að ráðast í þetta fyrirtæki eins og þá stóðu sakir. Nú hafa þessar rannsóknir hins vegar verið teknar upp að nýju. Hefur ungur og efnilegur verkfræðingur haft þær með höndum, og með honum hefur starfað hr. Tómas Tryggvason. Í stuttu máli varð það niðurstaða þessara manna, að hér innanlands væru fyrir hendi svo að segja öll hráefni, sem þyrfti til sementsframleiðslu, hæði kalk, kísill og ýmis önnur efni, sem nauðsynleg eru til að blanda með sementið, þannig að ekki mundi þurfa að flytja inn annað en gips til framleiðslunnar. En það, sem meira var um vert, var, að þeir fundu stað, þar sem öll þessi hráefni eru samankomin í sandleðjunni, þ.e. við Önundarfjörð, eins og talað er um í frv. Þarna eru þessi efni samankomin í sandleðjunni í nokkurn veginn réttum hlutföllum, en þó ekki alveg, þannig að það verður að þvo sandinn til þess að fá hin réttu hlutföll, og þarna virðist vera heil náma af þeim hráefnum, sem til þessara hluta þarf.

Hv. þm. Barð. (GJ) var að gera ýmsar aths. við niðurstöður þeirra sérfræðinga, sem þetta mál hafa nú rannsakað og bent hafa sérstaklega á Önundarfjörð. Vildi hv. þm. í þessu sambandi halda fram, að ýmsir aðrir staðir á landinu gætu engu síður komið til greina. Má vel vera, að víðar en á þessum stað væri unnt að koma þessari framleiðslu á með yfirstíganlegum kostnaði, en samkvæmt þeim niðurstöðum, sem ég hef minnzt á, hygg ég, að hver maður, sem les þetta frv. ásamt fskj. og athugar vel og hlutlaust þær rannsóknir, sem fyrir liggja, sannfærist um, að einn staður beri af öðrum í þessum efnum, og hann sé einmitt sá, sem þessir sérfræðingar hafa bent á og ákveðinn er í frv. fyrir sementsverksmiðju. Ég hef a.m.k. sannfærzt um þetta af þessum niðurstöðum, og hv. iðnn. Nd., sem hefur athugað þetta mál lengi og ýtarlega, er einnig sammála um þetta.

Hv. þm. Barð. sagði, að Haraldur Ásgeirsson hefði ekki aðstöðu til að geta verið hlutlaus í þessu máli, vegna þess að hann væri fæddur og uppalinn á þeim stað, sem hér um ræðir. En hvernig er með sálina hans Jóns míns? Mun ekki sál hv. þm. Barð. vera eitthvað bundin við Barðastrandarsýslu, og væri ekki eins hægt að véfengja álit hans eins og hinna mannanna? Annars finnst mér ekki rétt að vera með aðdróttanir í garð þessara manna, sem virðast hafa leyst þetta verkefni af hendi af mestu alúð og samvizkusemi, og engin ástæða til að ætla, að það sé vegna eigin hagsmuna, þótt þeir hafi bent á þennan stað. Ég tel þó, að það sé ekkert nema viljinn til að finna hið rétta, sem vakir fyrir hv. þm. Barð., en vænti, að hann verði svo frjálslyndur að ætla öðrum það sama, þótt skoðun hans og þeirra falli ekki saman. Þá ræddi hv. þm. mikið um það, að vafasamt væri að staðsetja verksmiðjuna í frv., af þeirri ástæðu, að þá hlytu þær lóðir, sem á sínum tíma yrðu notaðar undir verksmiðjuna, að hækka mikið í verði, ef þessi staður yrði ákveðinn með l. Má ef til vill segja, að hv. þm. hafi að nokkru leyti rétt fyrir sér í því, að betra hefði verið að kaupa þessar jarðir áður en frv. kom fram, en hæpið hefði þetta verið, ef t.d. yrði samþ. brtt. frá hv. þm. Barð. um að reisa verksmiðjuna á Patreksfirði eða annars staðar. Hins vegar hygg ég, að það geti ekki gert mikinn mismun, þótt þetta ákvæði sé í frv. Það mundi alltaf vitnast, þegar komið hefði verið að því, að enn frekari rannsóknir hefðu farið fram eins og hv. þm. var að tala um, og endanleg niðurstaða legið fyrir um, hvaða staður væri heppilegastur og viðkomandi jarðeigendur þannig fengið aðstöðu til að hækka lóðarverð. En hér er gert ráð fyrir því, að um leið og verksmiðjan verður staðsett, verði land undir verksmiðjuna tekið eignarnámi, og ég er ekkert hræddur við, þegar sá háttur er á hafður, að landið verði óhóflega dýrt. Mér hefur verið sagt, að þessar jarðir hafi nýlega verið seldar, og það fyrir lágt verð, og dettur mér ekki annað í hug en að sá eignarmatsdómur, sem um þetta fjallaði, mundi taka tillit til þessa söluverðs. Annars er það ekkert aðalatriði fyrir mér að staðsetja verksmiðjuna nú. En þar sem hins vegar niðurstaða sérfróðra manna liggur fyrir um, að sá staður, sem nefndur er í frv., sé ákjósanlegastur, sé ég enga ástæðu til að draga að ákveða þetta með l.

Þá var hv. þm. að fetta fingur út í ýmsar greinar frv. Honum þótti t.d. óeðlilegt, að verksmiðjan skyldi ávaxta og endurgreiða lán, er ríkisstj. heimilast að taka samkv. 2. gr. Með þessu er átt við það, að haga verði verði á sementinu með það fyrir augum, að verksmiðjan standi undir þessu láni. Sementið verður að seljast með kostnaðarverði, og einn liðurinn þar er lánið, og ef gera á ráðstafanir um, hvernig lánið skuli greiðast, er ekki eðlilegt, að það greiðist á annan hátt en þennan.

Þá minntist hv. þm. á það Vatnsfirði til framdráttar, að þar væru mjög góð vatnsskilyrði. Ég skal viðurkenna, að nægilegt rafmagn er mjög mikill kostur í þessu máli, og það er að vísu ókostur, að ekki skuli nú vera fyrir hendi nægileg raforka á Vestfjörðum til þess að nota við þennan rekstur. Þess vegna er gert ráð fyrir því til bráðabirgða að reka dieselstöð við verksmiðjuna, og hefði óneitanlega verið mikill kostur að því, að ekki þyrfti að eyða útlendum gjaldeyri til að reka olíustöð í sambandi við reksturinn. Hins vegar þykir ekki rétt að fresta byggingu verksmiðjunnar, þar til rafvirkjun yrði komið á á Vestfjörðum, sem mundi nægja verksmiðjunni, vegna þess að gjaldeyrissparnaðurinn, sem hún skapar, er svo stórkostlegur, þrátt fyrir það, að verja þurfi erlendum gjaldeyri til rekstrar olíustöðvarinnar. Hins vegar verður að sjálfsögðu stefnt að því að koma upp stórvirkjun á Vestfjörðum, sem hægt væri að leiða rafmagn frá til þorpa og kaupstaða á Vestfjörðum og þ. á m. til þessarar verksmiðju.

Þá vildi hv. þm. fella úr frv., að þetta væri bundið við atvmrh., og hef ég ekkert við því að segja. Hins vegar er ég ekki sammála honum um, að það sé nokkuð óeðlilegt, að þetta mál heyri undir atvmrh., því að hér er um venjulegt atvinnumál að ræða.

Um málið almennt vil ég segja það, að ég tel það, ef það verður leyst á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, eitt af merkustu og nauðsynlegustu stórframkvæmdum, sem fyrir okkur liggja. Athuganir, sem fyrir liggja, sýna, að gjaldeyríslega getur verksmiðjan borgað sig eða borgað þann gjaldeyri, sem til stofnkostnaðar fer, jafnvel árlega, með þeirri sementsnotkun, sem hún mest hefur verið undanfarin ár. Og við verðum að vera svo bjartsýnir að vænta þess, að við getum og þurfum að koma sementsnotkun okkar upp í það, sem hún hefur mest verið undanfarin ár, en með þeirri framleiðslu eigum við að geta sparað gjaldeyraupphæð í námunda við það, sem fer til kostnaðar verksmiðjunnar allt að því árlega. Auk þess tryggir þetta þjóðinni, að hún geli ráðizt í framkvæmdir, sem eru sementsfrekar, þótt gjaldeyrir sé lítill á hverjum tíma, sem ella yrðu að bíða kannske árum saman. Er hér ekki aðeins um byggingar og hafnarframkvæmdir að ræða, heldur einnig vegalagningar, sem vafalaust verður stór liður í framkvæmdum okkar á næstu árum. Það er ekki lítið öryggi að því að hafa slíka verksmiðju í landinu sjálfu. Ég hygg, að allir geti verið sammála um það, að ef niðurstaðan verður í samræmi við álitsgerðina, þá liggi það fyrir að hrinda málinu í framkvæmd sem fyrst.

Ég viðurkenni það, að þó áætlanir séu vel og samvizkusamlega gerðar, þá getur alltaf farið svo, að fyrirtækið verði dýrara en gert er ráð fyrir, en það ætti þó að vera hægt að sjá nokkuð af tilboðunum, hvað fyrirtækið yrði dýrt, og kontrolera þannig kostnaðinn. Ef fyrirsjáanlegt verður, að kostnaðurinn fari ekki úr hófi fram, getur svo farið, að ríkisstj. sjái sér fært að hefja framkvæmdir. En ef ráðuneytinu litist svo á, að líkindi væru til, að kostnaðurinn færi langt fram úr áætlun, þá mundi ég auðvitað skýra frá því, og ég hygg, að alveg óhætt sé að samþykkja frv. vegna þess, að ekki verði ráðizt í neinar óframkvæmanlegar framkvæmdir.

Í frv. er gert ráð fyrir heimild til lántöku, og hef ég skilið heimild þá þannig, að ríkisstj. sé heimilt að taka lánið hvort heldur er í íslenzkum eða erlendum gjaldeyri, en án þess tel ég útilokað að koma fyrirtækinu upp. Þó að tekið yrði erlent gjaldeyrislán, þá hygg ég, að verksmiðjan yrði fljót að borga það upp, þar sem hún mundi spara mikið erlenda gjaldeyriseyðslu.

Hv. þm. Barð. óskaði eftir að málið væri nú tekið af dagskrá, svo að n. gæti athugað það áður en þessari umr. lyki. Ég vil beina því til hv. þm. Barð., hvort hann treysti sér ekki til að athuga frv. milli umr. og koma með þær brtt., sem hann e.t.v. hefur í hyggju, við 3. umr. málsins, svo að það verði ekki tafið nú með því að senda það til n. Eftir að þessari umr. er lokið, gæti n. athugað frv. sameiginlega og þá komið fram við 3. umr. öll þau sjónarmið og till. sem þm. kunna að vilja koma með. Ég vænti, að þótt málið sé ekki tekið af dagskrá nú, megi koma að öllum þeim athugunum og upplýsingum, sem fyrir hendi kunna að vera, og ég vil beina því til hæstv. forseta og hv. þm. Barð., að þessi málsmeðferð, sem ég hef bent á, verði viðhöfð.