18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

61. mál, sementsverksmiðja

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég heyrði það við 1. umr., að hv. þm. Barð. lagði aðeins áherzlu á eitt atriði — og aðeins eitt meginatriði — og það var þetta: hvar verksmiðjan yrði staðsett. Þetta er honum enn efst í huga, því að hann lét í ljós, að hann sæi ástæðu til að koma með viðtækar brtt. við frv., ef ekki fengist felld niður staðsetningin. Nú sé ég ekki, ef það er á annað borð þörf þessara viðtæku brtt., að þeirra væri ekki jafnt þörf hvar sem verksmiðjan yrði reist, hvort það væri við Önundarfjörð, Vatnsfjörð eða Patreksfjörð. En svo miklu máli finnst honum skipta, að ekki sé nefndur Önundarfjörður, að hann getur þá fallið frá öllum sínum víðtæku brtt. Þetta sýnir, að hv. þm. Barð. leggur á það ofurkapp, að ekki sé í frv. nein ákvörðun um staðinn.

Þeir hv. þm., sem töluðu við 1. umr., höfðu skilið hv. þm. Barð. svo, að honum fyndist það megingalli, að niðurstöður vísindamanna skyldu ekki verða á þá lund, að staðir í Barðastrandarsýslu hefðu yfirburði umfram alla aðra, og þeir legðu til, að verksmiðjan risi þar. Þegar hv. þm. Barð. svaraði þessu, taldi hann það á misskilningi byggt, að hann hefði nefnt nokkra staði í Barðastrandarsýslu sérstaklega. En það var nú eins og skáldið segir: „Á Skagafjörð benti það allt“. Á Barðastrandarsýslu benti allt hans tal um yfirburði Vatnsfjarðar, t.d. um vatn og sand og fleira. Nú hefur komið aths. frá Haraldi Ásgeirssyni á þá leið, að þótt hann hafi ekki fjölyrt um ókosti Vatnsfjarðar og annarra staða, væri ástæðan sú ein, að hann hefði talið rétt að fjalla fyrst og fremst um þá staði, sem flesta kosti hefðu, og í viðræðum við hv. þm. Barð. hefði hann gert grein fyrir ókostum hinna ýmsu staða áður. Mér mundi finnast það hjákátlegt, ef 1. gr. frv. hljóðaði á þessa leið: Ríkisstjórninni er heimilt að láta reisa verksmiðju einhvers staðar með fullkomnum vélum og öðrum nauðsynlegum útbúnaði til vinnslu sements o.s.frv. — Ríkisstj. ætti að vera heimilt að láta reisa verksmiðjuna einhvers staðar og ekkert að leggja upp úr vísindalegum niðurstöðum hvað staðinn snertir. Því að rökrétt niðurstaða af því, sem hv. þm. Barð. hefur sagt, hlýtur að verða sú, að hann leggi ekki upp úr rannsóknum vísindamannanna að neinu leyti. Og hverju er þá að treysta? Ég get ekki séð annað en það sé rétt, að ef staðsetningin verður felld niður, þá verði að ganga svo frá frv., að einhverjum aðila sé heimilað að skera úr um það, hvar verksmiðjan skuli reist, er rannsókn hefur farið fram og lán er fengið. En þegar hv. þm. Barð. segir, að bíða megi með ákvörðun Alþ., þá vakir fyrir honum sá duldi tilgangur að tefja málið í eitt ár. En ef d. vill fallast á þann drátt, er alveg eins gott að fresta afgreiðslu málsins í heild. En það er nú sameiginlegt álit flestra alþm., að það sé eitt af okkar stærstu framfaramálum, ef við gætum komið upp þessari verksmiðju og framleitt það, sem við þurfum af þessari nauðsynlegu vöru. Ég tel, að staðsetningin eigi að byggjast á niðurstöðum vísindamanna eftir nákvæma rannsókn. Og ég teldi það til skemmda á frv., ef ófagfróðum ráðh. væri ætlað að ákveða staðinn, sem e.t.v. tæki ekki tillit til slíks úrskurðar vísindamanna. Og ef meiri hluti verksmiðjustjórnar væri t.d. með sama hugarfari og hv. þm. Barð., þá yrði verksmiðjan hvergi staðsett nema við Vatnsfjörð, Patreksfjörð, Tálknafjörð, Hvestu eða annars staðar í Barðastrandarsýslu, hvað sem öllum rökum og niðurstöðum liði. Með því væru opnaðir möguleikar til þess, að verksmiðjan yrði sett á bandvitlausan stað, sem væri valinn af blindri hreppapólitík, og fyrirtækið þannig e.t.v. skaðað um hundruð þúsunda árlega.

Ég sætti mig mjög vel við frv. eins og það liggur fyrir, og ég geri ráð fyrir, að gengið yrði til fulls úr skugga um það, sem enn er ekki rannsakað að fullu, jafnhliða því sem fjáröflun færi fram, og sannprófað utanlands og innan, hvort öruggar niðurstöður séu fengnar, og ekki flanað út í framkvæmdir fyrr en leitað hefur verið álits vísindamanna um öll undirstöðuatriði.

Ég gat ekki annað en brosað í kamp, þegar hv. þm. Barð. fór að gera samanburð á hafnarskilyrðum Önundarfjarðar annars vegar og Patreksfjarðar og, Vatnsfjarðar hins vegar og taldi hafnarskilyrði í Önundarfirði síður en svo góð. Nú er það vitað, að hafnarskilyrði í Önundarfirði eru einhver þau beztu á Vestfjörðum, svo að Patreksfjörður stenzt þar engan samanburð um hafnarskilyrði frá náttúrunnar hendi, og Vatnsfjörð dytti engum í hug að nefna í sömu andránni.

Hv. þm. var líka að tala um sandinn sem úrslitaatriði. Viðvíkjandi því má benda á, að ef verksmiðjan yrði reist í Önundarfirði, yrði sandur einkum tekinn í Holtslandi; en Holt er ríkisjörð.

Á það hefur verið minnzt, að taka þurfi eignarnámi tvö kot, þar sem verksmiðjan eigi að standa, Hól og Garða, smájarðir og mannvirkjalitlar, en þótt svo væri, yrði þar aldrei um þá upphæð að ræða, að hún hefði teljandi áhrif á byggingarkostnað 15 millj. kr. mannvirkis. Sá kostnaður gæti aldrei numið meiru en nokkrum tugum þúsunda og væri því svo mikið aukaatriði í sambandi við þetta mál, að það tekur varla að nefna, þegar rætt er um staðsetningu verksmiðjunnar. Það, sem úrslitum ræður, eru niðurstöður vísindamanna varðandi efnisöflun til þeirrar vöru, sem framleiða á.

Eitt af því, sem hv. þm. Barð. minntist á, var það, að algerlega væri úr því skorið, að ekki yrði litið við því í framtíðinni að virkja Dynjanda. Ég hef nú átt tal við Jakob Gíslason um þetta, og taldi hann litlar horfur á, að virkjað verði á næstunni, en hann hefur engu slegið föstu um það, að svo verði ekkí í framtíðinni. Hv. þm. Barð. sagði, að Rafmagnseftirlit ríkisins benti helzt á vatnsföll í Vatnsfirði. Það hef ég aldrei heyrt. Þeir tveir staðir, sem einkum hafa verið hafðir í huga, eru Skúfnavötnin og Dynjandisárnar, og ef Vatnsfjörður hefur bætzt þar við, þá er það ekki fyrr en nú síðustu dagana. –Annars skiptir það litlu máli, eftir að raforkumál Vestfjarða hafa á annað borð verið leyst, hvar verksmiðjan verður reist, því að engin nauðsyn er á að byggja undir veggnum á rafstöðinni.

Allt, sem hv. þm. Barð. hefur fært fram í sambandi við þetta mál, er þannig hégóminn einber, því að hann hefur metið allt á vog hreppapólitíkur og hlutdrægni. Ég hefði ekki látið mér detta í hug að standa hér og halda því fram, sem hv. þm. Barð. hefur gert, þvert ofan í álit vísindamanna, en þennan málstað hefur hann nú kosið að gera að sínum. Ég tel óforsvaranlegt að ganga svo frá l., að ekki sé þar nein staðarákvörðun. En ef áframhaldandi rannsóknir skyldu leiða í ljós, að annar staður þætti heppilegri, þá treysti ég þeim ráðh., sem með þessi mál færi, til að hrapa ekki að neinu og hverfa að því ráði, sem traustast er. En fjarstæðan mesta væri sú að láta togstreitu og þrönga hreppapólitík hafa nokkur áhrif á þetta mál.