15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

187. mál, síldarvinnslutæki o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Með því að það er óskað eftir, að þetta mál fari til fjhn., þótt hins vegar flest þau frv., sem snerta síldarverksmiðjur, hafi farið til sjútvn. (Fjmrh.) Það getur vel verið, að þetta sé bara rangt athugað hjá mér. Ég hélt, af því að um lántöku er að ræða, að réttast væri, að málið færi til hv. fjhn.) — Ég geri þetta ekki að neinum ágreiningi. En ég ætlaði að segja hér nokkur orð um þetta mál. En það upplýsist þá betur, þegar ég fæ svar við nokkrum spurningum, sem é.g ætla að leggja fyrir hæstv. ráðh., hvort málið á heima í fjhn. eða ekki, því að ef málið er eingöngu fjárhagsmál þannig, að það eigi að kaupa tæki til síldarvinnslu fyrir fé úr ríkissjóði, þá á málið eðli sínu samkvæmt að fara til sjútvn., eins og önnur mál hafa farið, sem verið hafa um byggingu síldarverksmiðja fyrir ríkið. — Ég vildi spyrja um það, hve mikið af þessu lánsfé hugsað er, að ríkið noti til sinna eigin þarfa í sambandi við þennan rekstur síldarvinnslutækja. Er það hugsað þannig, að þetta sé hluti ríkissjóðs í hinu nýja síldarbræðsluskipi, eða aðeins, að ríkissjóður sé að taka þetta fé að láni til þess að geta yfirfært eða útvegað gjaldeyri til hinna annarra aðila, sem ætla sér kannske að eiga þessi tæki? Ég sé, að í grg. fyrir frv. er tekið fram, að í þessu augnamiði sé stofnað hlutafélag, sem ætli sér að kaupa síldarbræðsluskip. Mér skilst þá, að það sé ekki ríkissjóður, sem ætli sér að kaupa þetta síldarbræðsluskip, heldur sé það hlutafélag, sem ætli að kaupa það. Og þá vil ég vita, hvort ríkissjóður á þar í nokkurn hlut, og þá hve stóran. Ég minnist þess nefnilega ekki, að í öðrum l.ríkisstj. heimilað að leggja fram fé til slíkrar starfsemi. Og hygg ég þá vafasamt, hvort ekki þurfi að leita eftir nýrri lagaheimild, ef ætlunin er, að ríkissjóður eigi eitthvað í þessu fyrirtæki. Hér er líka sagt í aths. við frv., að það sé hafinn undirbúningur að stækkun fiskimjöls- og síldarverksmiðjanna á Akranesi, Hafnarfirði og Keflavík, svo og byggingu síldarverksmiðju hér í Reykjavík. Mér skilst af aths., að það eigi einmitt að nota þennan gjaldeyri, sem fengist með þessu láni, til þess að aðstoða þá aðila, sem ætla sér að framkvæma þessi verk. Og vildi ég þá einnig fá upplýst, hvort ætlað er, að ríkissjóður hafi nokkra þátttöku í stækkun þeirra iðjuvera eða byggingu þeirra iðjuvera, sem hér um ræðir. Vildi ég gjarnan fá upplýst hjá hæstv. ráðh., hvort búið sé að festa kaup á hinu fyrirhugaða síldarbræðsluskipi, og hvort það séu sannar frásagnir í Vísi, að gerð hafi verið kaup á skipi í þessu augnamiði, sem sé 46 eða 47 ára gamalt. Mér þykir það vera mjög mikils virði fyrir alþm. að fá upplýst, hvort búið sé að kaupa eða hvort hugsað sé að festa kaup á þessu skipi, sem gæti verið, ef ekki móðir, þá a.m.k. systir „Súðarinnar“. Og ef svo væri, þá væri gott að fá upplýst, hve mikið af dollurum ætti að láta fyrir slíka gersemi. — Hér talaði hæstv. ráðh. um það, að hugsað væri að láta í þetta síldarbræðsluskip vélar Óskars Halldórssonar. Nú hef ég séð á öðru þskj., sem hæstv. fjmrh. stendur að sem þm. Vestm., að þar er gerð mjög ýtarleg grein fyrir þessu. Vildi ég gjarnan fá upplýst, hvort þetta skip skuli vera nokkurn veginn líkt út búið eins og skip það, sem gert er ráð fyrir á þskj. nr. 239. Það er af kunnugum mönnum talinn mjög mikill vafi á því, að vélar þær, sem Óskar Halldórsson á, geti afkastað því, sem gert er ráð fyrir, 5 þús. mála vinnslu á sólarhring. — Þá vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. um — því að ég geri ráð fyrir, að hann hafi staðið í sambandi við þá vísu menn, sem hafa undirbúið þetta hvernig hugsað sé að taka þetta skip í þurrkví, því að ekki mun vera unnt að láta það ganga meira en sex til sjö mánuði án þess að hreinsa það, því að það mun þurfa að hreinsa það einu sinni eða tvisvar á ári, úr því að valið hefur verið stálskip, eða hvort á að sigla því skipi einu sinni eða tvisvar á ári yfir hafið til hreinsunaraðgerðar. — Þá vildi ég gjarnan fá að vita, hvort hæstv. fjmrh. gæti upplýst um það, hve mikið tap muni hafa verið á síldarvinnslunni í ár, þ.e. Hvalfjarðarsíldinni. Mér skilst, að hann hafi hugmynd um, að þetta tap sé nokkuð mikið, og að það sé ein ástæðan fyrir því, að það sé farið út í þetta fyrirtæki, sem frv. miðar að, til þess að reyna að fyrirbyggja, að slíkt þurfi að koma fyrir aftur. Og svo vildi ég fá upplýst, hve mikið muni vera búið að greiða fyrir síldarflutningana í erlendum gjaldeyri alls.

Ég skal að öðru leyti ekki fara lengra út í þetta mál, fyrr en ég fæ einhver svör við því, sem ég hef spurt hér um.