15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

187. mál, síldarvinnslutæki o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hv. ]un. Barð. hefur spurt um margt, sem ég ætlaði að spyrja um. Ég vildi bæta þar tvennu við. Annað er, að mér hefur skilizt, að í seinni tíð væru að koma upp ný atriði viðvíkjandi vinnslu lýsis og síldarmjöls, sem gerðu bæði vinnsluna ódýrari og nýtingu hráefnisins miklu betri. Ég er ekki svo fróður, að ég viti, hvort þessi nýju tæki er hugsað að kaupa í þetta nýja síldarbræðsluskip eða ekki. En mér skilst, að það geti haft þó nokkuð að segja í framtíðinni, hvort þær verksmiðjur, sem þetta lántökumál snertir, samkv. aths. við frv., hvort sem þær eru á landi eða í skipum, og þær verksmiðjur yfirleitt, sem ætlað er að vinna lýsi úr síldinni, geti náð lýsinu svo til öllu úr síldinni eða hvort þær þurfa að láta verða eftir í mjölinu allt upp í kringum 11%, eins og á sér stað um þær nýju verksmiðjur, sem settar hafa verið upp hér á síðustu árum á Skagaströnd og á Siglufirði, þannig að mjölið er illnotandi til skepnufóðurs vegna fitunnar fyrir utan það, sem verðmæti tapast með lýsismissinum. — Ég vildi vita, hvernig þessu á að vera fyrir komið í þessari fljótandi verksmiðju.

Í öðru lagi, fyrst hér á að veita heimild til lántöku handa ríkinu, sem mér skilst, að ríkið eigi að lána aftur út af lánsfénu til verksmiðjanna, sem hv. þm. Barð. minntist á, þá vildi ég spyrja um, hvort ekki væri rétt að hafa þetta lán miklu stærra. Það er öllum landsmönnum vitanlegt, að það er verið að undirbúa að samþ. heimildarlög um að reisa sementsverksmiðju, og á það frv. eftir að fara í gegnum þessa hv. d. Og það er talað um lántöku þar í því frv. Það er líka vitanlegt, að Skipaútgerð ríkisins er að láta smíða skip erlendis. Og við getum ekki borgað þau skip nema með lántöku, og þess vegna þurfum við að taka lán í því augnamiði. Og Eimskipafélag Íslands er að láta byggja skip, sem þarf að taka lán til að borga. Hvers vegna ætti þá ekki að leita fyrir sér um stærra lán, sem geti skipzt til þeirra aðila, sem eru að framkvæma sitt hvað, sem ég hef nefnt, sem þarf að taka erlent lán til, í staðinn fyrir að taka lán í mörgum stöðum, og þá með verri kjörum? Væri ekki réttara að taka stærra lán til þess að skipta á milli þeirra aðila, sem ég hef nefnt, til þess að þeir geti haldið áfram þessum framkvæmdum? Á þetta vil ég benda hæstv. fjmrh. og þeirri hv. n., sem fær málið til athugunar. Í sambandi við þetta má geta þess, að Eimskipafélag Íslands er í allmiklum tengslum við ríkið hvort sem er.

Ég vildi fá upplýst, hvort þetta fyrirhugaða síldarbræðsluskip á að vera svo útbúið, að það geti rækt sitt hlutverk vel, eða hvort það á að vera eins og þessar nýju síldarverksmiðjur, að afköstin eru fyrir neðan allar hellur.