18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

187. mál, síldarvinnslutæki o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjhn. fyrir afgreiðslu þessa máls og víkja að því, sem hv. frsm. gerði nokkuð að umtalsefni, sem sé að mér finnst eftir atvikum, að þetta fé, ef það fæst, sé svo rígskorðað við þau tæki, sem nefnd eru í frv., að óheimilt megi teljast að verja því til nokkurs annars. Fjárhagsráð eða aðrir, sem ráðstafa gjaldeyri, mundu ekki að lögunum óbreyttum telja sig hafa leyfi til að verja þótt ekki væri nema litlum hluta af fénu til annarra framkvæmda. Það er þó margt, sem knýr á og krefst gjaldeyris, eins og öllum er kunnugt, og verður að aka nokkuð seglum eftir vindi með þau tæki. Það er því ekki heppilegt, að með lögunum e,é alveg loku fyrir það skotið, að gjaldeyrisyfirvöldin geti varið nokkru til annarra framkvæmda, þó að fénu verði vitaskuld aðallega varið til síldarvinnslutækja, en með því að bæta við orðunum „og fleira“ er opnuð leið til lítils háttar fyrirgreiðslu á öðrum sviðum, ef fé er fyrir hendi. Ég vil því bera fram hér skrifl. brtt. um, að þessum orðum verði bætt aftan við 1. gr., og breytist fyrirsögn frv. þá samkv. því, og leyfi ég mér síðan að afhenda hæstv. forseta þessa till.