22.03.1948
Neðri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

187. mál, síldarvinnslutæki o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Af því að þetta mál mun fara til n., sem ég á sæti í, vil ég beina fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um það, hvort þetta lán, sem hér er um að ræða og mun vera upp á 2 millj. dollara eða um 15 millj. ísl. kr., muni ekki, að áliti hæstv. ríkisstj., einungis verða tekið með venjulegum verzlunarlegum skilmálum, sem almennt tíðkast að taka lán með, sem sé að það séu aðeins hin venjulegu skilyrði um vexti, afborganir og tryggingar, sem muni verða um að ræða í sambandi við töku slíks láns. Ég álít, að það þurfi að fá þetta fram, vegna þess að um ýmis þau lán, sem tekin eru í Bandaríkjunum, þar sem meiningin er að tal;a þetta lán, eru gerðir ýmsir pólitískir samningar eða lánin eru veitt með sérstökum fjármálalegum skilyrðum. Og ég vildi þess vegna mega vænta þess, að hæstv. fjmrh. lýsi yfir hér, að það væri ekki meiningin í sambandi við þetta lán að fara inn á slíka samninga, heldur væri hér aðeins um lán að ræða, sem tekið væri með venjulegum verzlunarlegum skilyrðum um vexti, afborganir og tryggingar, og ekkert annað. Ég ber þessa fyrirspurn fram vegna þess, að ég á sæti í þeirri n., sem þessu frv. mun verða vísað til til athugunar. Og afstaða mín til málsins mun velta á því, hvaða svör ég fæ hjá hæstv. fjmrh. í þessu efni.