09.03.1948
Efri deild: 77. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

178. mál, fiskmat o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. L. um fiskimat frá 1931, sem eru í höfuðatriðum miðuð við saltfisksverkun, hafa ekki verið tekin til endurskoðunar nú á síðasta stríðstímabili, þó að fiskverkun hafi mjög breytzt á þessu tímabili. L. þessum var breytt og við þau aukið 1936. 1935 var sett löggjöf um fiskimatsstjóra.

Síðan þessum málum var skipað þannig, hefur skapazt alveg ný grein fiskverkunar, þar sem freðfisksverkunin er. Að vísu hefur mat á freðfiski verið framkvæmt af yfirstjórn og undirmönnum, en þó hafa engin l. verið um það mat sett, þó að það sé nú einna kostnaðarmesta matsstarf í landinu.

Þráfaldlega hefur verið um það rætt manna meðal, að nauðsynlegt væri að setja nýja löggjöf í þessu efni, en þó hefur það ávallt dregizt á langinn. Hins vegar hafa verið teknar í fjárl. upphæðir t.d. vegna freðfisksmats og líka vegna saltfisksmats, og yfir höfuð hefur allt „apparatið“ verið þarna í gangi, meira og minna verklítið á sumum sviðum, hvað saltfisksmatið áhrærir. Nú hafa þeir menn að vísu líka haft eftirlit með ísfiskinum, svo að þar hefur líka komið starf í staðinn fyrir það minnkandi starf við saltfisksmatið.

Það verður auðvitað að sjá fyrir því í framtíðinni, að til séu hæfir matsmenn á hverju sviði, en þó er rétt, að það sé haft í huga, að sameina má ýmis af þessum störfum meira en verið hefur hingað til, og við þá sameiningu virðist mega spara ríkissjóði þó nokkra upphæð, án þess að matsframkvæmdin þurfi að bíða af því nokkurt tjón. Með þetta fyrir augum skipaði ríkisstj. 4. des. sérstaka n. manna til þess að endurskoða og sameina 1. og reglugerðir um mat á fiski í samræmi við þær þarfir, sem nú eru fyrir hendi. Í n. voru skipaðir Þorvarður K. Þorsteinsson stjórnarráðsfulltrúi, form., Sveinn Árnason fiskimatsstjóri, Bergsteinn Á. Bergsteinsson freðfisksmatsstjóri, Jón Auðunn Jónsson fyrrv. alþm., tilnefndur af Sölusambandi íslenzkra fiskframleiðenda, og Björn G. Björnsson forstjóri, tilnefndur af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Það þótti rétt, að sjónarmið þessara stofnana beggja kæmu fram við samningu þessara l. Enn fremur var Gísli Þorkelsson, deildarstjóri iðnaðardeildar Atvinnudeildar háskólans, skipaður í n. 17. des. með öðrum þeim, sem fyrr voru taldir, og þeim til aðstoðar. Skyldi n. þá jafnframt athuga möguleika á að sameina mat á öllum sjávarafurðum undir eina stjórn.

N. hélt marga fundi um málið og talaði yfir höfuð við alla þá aðila, sem sjálfsagt var að kveðja til ráðuneytis um þessi mál, sérstaklega þá, sem áður höfðu séð um mat á sjávarafurðum. Það þótti ekki henta að sameina matið á öllum sjávarafurðum undir eina stjórn. Hins vegar mætti vel vera, að það þætti viðeigandi og hentugt síðar meir, en að þessu sinni steig n. ekki þetta spor. Hún hefur samt sem áður látið í ljós, að hún telji, að í framtíðinni beri að stefna að því að sameina allt mat á sjávarafurðum undir eina stjórn. Ef svo væri, þá yrði sennilega yfirstjórn þessara mála að vera undir iðnaðardeildinni, en það, sem liggur fyrir hér að þessu sinni, er ekki það.

Að sjálfsögðu deilist fiskimat nú í mat á saltfiski, mat á ísvörðum fiski, mat á freðfiski og mat á skreið, og það er þessi greining, sem höfð er fyrir augum í þessu frv.

Í aths. við lagafrv. þetta segir n. m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin er aftur á máti á einu máli um það, að rétt sé að sameina mat á öllum fiski, þ.e. saltfiski, ísvörðum fiski, freðfiski og harðfiski, undir eina stjórn og fela sama yfirfiskmatsmanni yfirmat og eftirlit með mati á öllum fiski. Mundi sameining núverandi saltfisk- og ísfiskmats, skreiðarmats og freðfiskmats hafa í för með sér verulegan sparnað fyrir hið opinbera, sem má áætla, borið saman við útgjöld við fiskmatið árið 1947, um 165 000.00 kr. á ári. Telur nefndin, að af þessari sameiningu matsins þurfi ekki að leiða lakara eftirlit með framleiðslunni eða lakari vöruvöndun, en forðast ber allt, sem gæti leitt til þess, að íslenzki fiskurinn missti það álit, sem hann hefur unnið sér á erlendum mörkuðum. Hefur nefndin orðið sammála um að leggja til, að tekin verði upp sú skipan á stjórn og framkvæmd fiskmatsins, sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi“.

Þá er lagt til, að nokkur breyt. verði gerð á umdæmunum, þannig að þau verði ekki bundin við ákveðin takmörk. Beykjavíkurumdæmið nær nú t.d. frá Þjórsá til Öndverðaness. Í þessu frv. eru umdæmin ekki bundin við föst takmörk. Þykir hentugra að hafa takmörkin ekki föst, svo að hægt sé að færa til umdæmaskilin, ef störf hlaðast mjög á eitt umdæmi.

Enn er það, sem n. hefur tekið upp í sambandi við samningu þessa frv., en það er að tala ekki um fiskimat, heldur fiskmat. Orðið fiskmat er myndað hliðstætt og fiskveiðar, fiskverkun o.s.frv. Virðist réttara að kenna matið við fisk, en ekki fiski, sem þýðir afli eða veiði, eins og kunnugt er.

N. bendir á það, að í upphafi 12. gr. segi, að einn fiskmatsmaður skuli vera við hverja fiskverkunar- eða vinnslustöð og eigi þetta einkum við um hraðfrystihúsin og aðrar skyldar framleiðslustöðvar, en auk þess sé gert ráð fyrir, að á hverjum útflutningsstað fyrir nýjan fisk, saltfisk eða harðfisk séu eins margir fiskmatsmenn fyrir þessar tegundir og þörf er á.

Sveinn Árnason fiskimatsstjóri hefur gert sérstaka aths. við 15. gr., eins og aths. frv. bera með sér. Er það til athugunar fyrir þá n., sem þetta mál fær til meðferðar.

Ég geri ekki ráð fyrir, að ég þurfi að fylgja þessu frv. úr hlaði með öllu lengri formála. Ég vil þó geta þess, að fyrir utan þessa ágætu menn, sem unnu að samningu frv., og þeirra hjálparmenn og þá, er þeir kvöddu sér til ráðuneytis, þá var málið að lokum, áður en það var flutt, borið undir Fiskifélag Ísland, sem hefur þráfaldlega gert samþ. um það að breyta fiskimatsl. og færa þau í réttara horf og samræma þau meira þörfinni en gert hefur verið. Er umsögn Fiskifélagsins prentuð hér með aths. frv., og er hún á þann veg, að Fiskifélagið er sammála um, að frv. gangi í rétta átt, því að það hefur lengi þótt hlálegt og er auðvitað afleitt að hafa stórar greinar fiskmatsins algerlega ólögákveðnar, eins og nú er með freðfiskmatið.

Af því að hér er um sameiningu að ræða, sem að beztu manna yfirsýn er talið hentugt og er álitið spara ríkissjóði talsvert fé, þá þætti mér gott, ef Alþingi, og þá í fyrsta lagi þessi d., gæfi unnið svo að þessu máli, að það gæti náð lögfestingu, áður en þingi lýkur, en vitaskuld er það á valdi Alþingis að gera það, en ég tel mér skylt að bera hér fram þessa ósk, og þá ekki síður sem fjmrh., vegna þess, að eins og ég hef bent á og frv. hér með sér, er hér um verulegan sparnað á útgjöldum ríkisins, hvað þetta mál snertir, að ræða. Það sýnir sig alltaf og ekki sízt við samningu fjárl., að það er erfitt að koma fram sparnaði á ýmsum gr. án breyt. á löggjöf, og oft torveldast sparnaðurinn vegna þess, að menn telja, að ekki sé hentugt að bera fram breyt. á löggjöfinni.

Því hefur verið lýst yfir af hinum kunnustu og fróðustu mönnum á sviði fiskmatsins, að fullt öryggi haldist á matinn með þeim ráðstöfunum, sem hér er lagt til að gera, og með því er sameinað í kerfi það, sem áður hefur leikið á lausu og alveg ótilhlýðilega lengi hefur verið rekið með launuðum embættum, án þess að nokkur löggjöf hafi verið um það sett, og á ég þar við freðfiskmatið. — Allt þetta gefur mér vonir um, að hv. dm. muni taka vel þessari ráðabreytni um sameiningu matsins á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í frv. Ég vil svo mælast til þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.