09.03.1948
Efri deild: 77. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

178. mál, fiskmat o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin, svo langt sem þau náðu, en þau eru mér ekki fullnægjandi. Ég er hæstv. ráðh. sammála um, að það eigi að fækka starfsmönnum til að ná sparnaði. En það, sem fyrir mér vakir, er: næst þessi fækkun nema að nokkru leyti? Ég hygg, að það sé í 2–3 eða fleiri tilfellum, þar sem hæstiréttur hefur dæmt mönnum, sem sagt var upp af ríkinu og orðið hafa utan gátta vegna lagabreyt., full laun, og þess vegna vafasamt frá mínu sjónarmiði, hvort þetta vinnst. Það, sem mig langaði til að fá upplýsingar um, er hæstv. ráðh. ekki ljóst heldur, þess vegna er hann í svipuðum vafa eins og ég um það, hvort þessi sparnaður næst. Ég tel sjálfsagt að reyna að ná sparnaði, en af því að ég þykist sjá fram á, að hann liggi fyrir á mörgum fleiri sviðum, þá langar mig til að vekja athygli á því, hvort á þennan hátt geti náðst þessi spárnaður, sem í framkvæmdinni er ætlazt til. Ég vænti, að hv. n. athugi það.