15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

178. mál, fiskmat o.fl.

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tala langt mál. Tvennt hefur komið hér fram sem andmæli á móti því, sem ég hélt fram. Það hefur verið sagt, að yfirmatsmaðurinn í Vestmannaeyjum geti jafnframt gegnt störfum á Stokkseyri og Eyrarbakka. Það sama má nú segja um þá yfirmatsmenn, sem búsettir eru í Reykjavík, að þeir eiga greiðan aðgang austur, og sé ég ekki stigmun á því. En hitt er vitanlegt, að þetta fer fram á þeim tíma, sem mestar annir eru í Vestmannaeyjum og sömuleiðis á Eyrarbakka og Stokkseyri. Ég skal annars ekki þrátta um þetta, en vil beygja mig undir skoðun mþn. með allri þeirri þekkingu, sem hún hefur aflað sér á málinu.

Þá hefur því verið haldið fram, að óþarft væri að skilja Breiðafjörð og Vestfirðina. En mér er kunnugt um, að það hefur verið gert af hagkvæmum ástæðum, því að það eru greiðari samgöngur milli Reykjavíkur og Breiðafjarðar en að vestan og þangað og þægilegra fyrir mann héðan að gegna störfum þar heldur en fyrir yfirfiskmatsmanninn á Vestfjörðum, enda nógu erfitt umdæmi samt, sem hann hefur. Maður héðan að sunnan annast t.d. skipaeftirlitið þar, og er það talið hagkvæmara í alla staði, bæði vegna ferða og kostnaðar.

Hv. þm. Barð. vildi láta í það skina, að ekki væri neitt upp úr því leggjandi, sem freðfisksmatsstjóri legði til. Ég kann ekki við þann tón, að menn séu settir á dómarabekk og gefið í skyn, að þeim gangi ekki annað til en óhreinar hvatir. Freðfisksmatsstjóra gengur ábyggilega ekki annað til en umhyggja fyrir matinu, og ég tel óviðeigandi, að honum séu gerðar slíkar getsakir. Má vera, að hann hafi eytt miklu fé í matið með ónógum heimildum, en það hefur þó verið viðurkennt af þeirri ríkisstj., sem hann starfaði undir. Og hinu er ekki hægt að neita, að hér er um svo nýja iðngrein að ræða — freðfisksmatið, sem tekið hefur örum breytingum, að ekki er nema eðlilegt, að þurft hafi til þess allmikið fé að halda því í góðu lagi. Ég skal annars ekki vera að rökræða það, hvort e.t.v. hefði mátt spara þarna fé, en tel, að ekki veiti af því, að allt eftirlit sé þarna sem nákvæmast og í sem beztu lagi. En ég vil endurtaka það, að með allri virðingu fyrir þekkingu okkar í þessu efni vil ég beygja mig undir dóm sérfræðinga, og þeir telja það hreint lágmark, að yfirfiskmatsmennirnir séu 7, og á Suðvesturlandinu eru um 60% framleiðslunnar, og þarf þar náið eftirlit, því að þessir menn gera meira en að kenna öðrum, svo að það er ekki neitt óeðlilegt, þótt það sé ofætlun tveimur mönnum að komast yfir það.

Um verkstjórana get ég tekið undir það, að óviðkunnanlegt er, að þeir séu matsmenn, og gott, að þeir séu óháðir gagnvart framleiðendum. En mér er kunnugt um, að í nokkrum húsum vinna menn við matið, sem ekki eru verkstjórar. Hins vegar er þeim tryggð önnur atvinna í húsunum. Það gefur auga leið, að þeir, sem eiga að framkvæma mat, þurfa að þekkja vöruna, og þeirrar þekkingar afla þeir með því að vinna við framleiðsluna. En auðvitað er rétt, að óvilhallir menn dæmi, en þeir verða líka að kunna starf sitt.

Hvað snertir form. sjútvn. Nd., býst ég við, að hann eins og aðrir verði að beygja sig fyrir rökum, eins og mér hefur skilizt, að hæstv. sjútvmrh. hafi gert um þetta atriði, þótt mér sé ekki að fullu kunnug afstaða hans.