09.03.1948
Efri deild: 77. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

161. mál, bifreiðalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég þakka n. undirtektir hennar við þetta frv. Það er ekki nema eðlilegt, að aths. komi fram, en ég vona, að málið nái fram að ganga, áður en þingi lýkur, því að hvað sem segja má um frekari breytingar, þá verður ekki um það deilt, að nauðsynlegt er að fá samþykktar þær breyt., sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég vil auðvitað ekki taka afstöðu til annarra brtt. en þeirra, sem þegar liggja fyrir, og tel, að ekki ætti að blanda inn í umræður öðrum atriðum.

Hv. frsm. ræddi um ökuhraðann og skýrði réttilega frá því, að hann var áður ákveðinn 30 km í bæjum og 60 km úti um sveitir, en dómsmrh. getur ákveðið með reglugerð lægri ökuhraða í lögreglusamþykktum. 17. febr. 1943 var sett reglugerð um 45 km ökuhraða á klst. í sveitum, en afnumin aftur 23. júní 1947 með auglýsingu. Þegar ég tók ákvörðun um afnám þeirrar reglugerðar, vakti það fyrir mér, að lögum yrði þá einnig framfylgt betur en áður í þessu efni, t.d. betra eftirlit með allri umferð á vegum úti, og var það gert í sumar með setningu hins svonefnda umferðardómsfóls, sem hefur borið nokkurn árangur. En mér og ráðunautum mínum virtist þýðingarlaust að setja strangar reglur, ef haldíð væri við 45 km ökuhraða, því að eins og hv. frsm. tók fram, þá aka nærri allir bílar hraðar en þetta, og á meðan góðir bílar eru í notkun á batnandi vegum, á 60 km hraði ekki að vera of mikill. Auðvitað fer þetta þó eftir atvikum, og getur engin allsherjar regla um það gilt, því að ef vegur er hættulegur, ber að aka hægar o.s.frv.

Í bæjum horfir þetta öðruvísi við. Þar er heimilt að ákveða löglegan ökuhraða með lögreglusamþykkt, og tel ég mér ekki heimilt að breyta því. Mér sýnist, að það sé á valdi bæjanna að kveða á um ökuhraðann og dómsmrn. geti ekki haggað því. Ég get því ekki lofað, að þessu verði breytt með reglugerð, og yrði þá heldur að flytja um það sérstakt frv. í haust.

Mér sýnist þetta þurfa athugunar við, áður en breytingar eigi sér stað. Það er rétt að vísu, að í bæjunum er oft ekið hraðar en ákveðið er, en sá mikli fjöldi slysa, sem nú verða æ tíðari, orsakast líka í flestum tilfellum af of hröðum akstri, og þau hefði ekki borið að höndum, ef hægar hefði verið ekið. Ég vildi því ekki taka á mig þá ábyrgð að auka löglegan ökuhraða án þess að rannsaka mál þetta betur.

Þetta horfir öðruvísi við á vegum úti. Ef um góðan veg í dreifðri byggð er að ræða, er 60 km hraði engan veginn óhæfilegur. En í bæjunum, þar sem lítil börn geta á hverri sekúndu hlaupið fyrir bílana, eru hraðaákvæði háð öðrum sjónarmiðum. Þar er miklu þýðingarmeira, að aldrei sé ekið hraðar en svo, að hægt sé að stöðva bifreiðar á einu andartaki. Hvort 25 km hraði er alveg sá rétti, skal ég ekki segja, og vil heyra um það álit fagmanna, áður en ég mynda mér fasta skoðun á því og beiti mér þar fyrir breytingum.

Það er mikil nauðsyn á því, að dregið sé úr slysahættunni, og aukning löglegs ökuhraða fer þar í gagnstæða átt. Gegn því má auðvitað segja, að ekki þýði að hafa svo strangar reglur, að þær séu brotnar af flestum, og kunni það að verka öfugt við það, sem ætlazt er til. En aðra yfirlýsingu get ég ekki gefið um þetta en þá, að ég lofa að taka þetta til frekari athugunar — fyrst og fremst þetta atriði og þá einnig fleiri ákvæði í bifreiðalögunum, sem betur kynnu að mega fara.

Varðandi áfengissöluna er það vitanlegt, að hún er fullkomið hneykslismál. Fjöldi bifreiðarstjóra hefur það að fastri atvinnu að selja áfengi, að því er talið er. En það mun reynast erfitt að hafa hendur í hári þessara manna og draga þá fyrir lög og dóm, enda þótt fullyrt sé, að þegar bifreiðarstjórar vilji ekki aka á síðkvöldum, þá sé þó mikill fjöldi bifreiðarstjóra, sem hægt sé að snúa sér til og fá þar áfengi keypt. Enda þótt fregnir af þessu séu ekki óyggjandi, er þetta þó mál, sem bílstjórar verða sóma síns vegna að taka föstum tökum.

Ég minnist þess, að þegar bifreiðastöðin Hreyfill var stofnuð og fékk fyrir atbeina minn og fleiri manna ágæta aðstöðu í bænum og land í túnfætinum við Arnarhól, þá tjáði forstöðumaður hennar mér, að félagið mundi beita sér fyrir því, að áfengissala ætti sér ekki stað þar. Ég skal nú ekki segja um, hvernig það hefur tekizt, en mér finnst ástæða til að rifja upp þessi ummæli, því að það verður að viðurkenna, að mál þetta er nú svo alvarlegt, að það er ekki aðeins blettur á bifreiðarstjórastéttinni, heldur þjóðfélagsmein, sem þarf að lækna.

Hv. frsm. talaði um, að n. hefði e.t.v. í huga að koma með brtt. við frv. til þess að ráða bót á þessu. Sannleikurinn er nú sá, að alþm. hafa varla slík ráð við höndina, að bætt verði úr þessu með lagasetningu. Ef um það væri að tala, mundi ég ekki beita mér á móti því, að slík lög yrðu sett. En ég efast um, að slík ráð séu jafntiltæk og ætla mætti af orðum hv. frsm. Þetta er ólöglegt athæfi. Það vita allir. En erfiðleikarnir eru að sanna brotin á sökudólgana. Leiðin væri e.t.v. sú að ákveða refsinguna nógu þunga. En ef slík ráð væru til, mundi ég kunna betur við, að þau væru sett inn í áfengislöggjöfina, en ekki blandað inn í þetta frv., þótt ég hins vegar mundi ekki beita mér á móti því, að svo væri gert, svo mikilsvert sem það væri, ef slík ráð væru fyrir hendi.

Einn góður og gegn borgari hefur komið fram með þá uppástungu, hvort ekki væri rétt, ef bifreiðarstjóri yrði uppvís að vínsölu í bíl sínum, að bíllinn væri þá gerður upptækur í ríkissjóð. Þetta mundi að líkindum verða mjög áhrifamikið, en mörgum mundi finnast þetta nokkuð geipileg hegning fyrir ekki meira afbrot. En það má minna á, að svipað ákvæði gildir um skip, sem flytja vín til landsins með ólöglegu móti. Hægt er að gera slík skip upptæk, og frá sama sjónarmiði væri ekki óeðlilegt, að bifreiðarstjórar, sem selja vin í bifreiðum sínum, ættu á hættu, að þær væru gerðar upptækar.

Ég vil þó ekki á þessu stigi málsins gera þetta að till. minni, en ég taldi rétt að skýra d. frá henni, þar sem þetta er ein þeirra fáu till., sem ég hef heyrt, sem vænta mætti, að hræddi menn frá þessum verknaði, og yrði því áhrifaríkt ákvæði, þótt það hins vegar mundi þykja ærið harkalegt.

Ég hef nokkuð hugsað þetta mál og mun gera það, sem í mínu valdi stendur til þess að laga þetta þjóðarmein, sem vínsalan er.