09.03.1948
Efri deild: 77. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

161. mál, bifreiðalög

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir undirtektir hans viðvíkjandi þeim tveimur atriðum, sem ég drap á í minni fyrri ræðu og hann hefur lofað að athuga, á hvern hátt bezt væri að lagfæra með löggjöf. Væntanlega fær maður að sjá árangurinn af þeim athugunum fyrir næsta haust. Hins vegar taldi hann öll tormerki á því að breyta reglugerðinni um bifreiðaakstur. Það held ég hann ætti þó að gera. Ég skal taka dæmi og það af sjálfum mér, af því að það er nærtækast. Ég var kallaður á lögreglustöðina í sumar, af því að ég hafði skilið bílinn R-4600 eftir í óleyfilegri stöðu hér á gangstéttinni við þinghúsið, hjólin öðrum megin undir bílnum voru uppi á gangstéttinni. Ég borgaði auðvitað mína sekt, og er ekkert meira með það. En nú er það bara svo, að margir bílar eru skildir eftir hér í miðbænum á degi hverjum og nákvæmlega eins gengið frá þeim og ég gekk frá mínum bíl, og ég sé, að lögregluþjónar ganga fram hjá annað slagið. Það getur verið, að allir þessir bílar séu kallaðir fyrir á hverjum degi, ég veit það ekki, en svona er þetta þá með ólöglegu stæðin eftir sem áður, það er víst. Ég þekki t.d. annað dæmi ofan af Laugavegi, sem er nákvæmlega eins og tilfeilið með minn bíl, og á þeim stað á það sama sér stöðugt stað. Þá er það svo oft fyrir sunnan Hótel Borg, að ég hef orðið að ganga úti á akbrautinni, ef ég hef þurft að fara þar um, sökum þess að bílar eru fyrir á gangstéttinni, ekki með eitt eða tvö hjól uppi á henni, heldur er gangstéttin alsett bílum. Það er því mín skoðun, að endurskoða þurfi reglugerðina og breyta henni þá, ef ekki reynist unnt að framkvæma hana eins og hún er.

Hæstv. dómsmrh. sagði eitthvað á þá leið, að bílslysin bentu á, að of miklum ökuhraða væri um að kenna, og væri því e.t.v. ástæða til að lækka hraðahámarkið. Of mikill ökuhraði er oft orsök slysa, það er alveg rétt. En ég hygg, að ef farið væri í gegnum rannsóknir bílslysa, þá mundi koma í ljós, að þau verða langoftast á gatnamótum, af því að sú regla er brotin að stoppa við aðalbrautir, þar sem þeim er til að dreifa, eða réttur þess bíls, sem réttinn á, er ekki virtur á gatnamótum. Þetta hygg ég að valdi langflestum slysum, en ekki of hraður akstur eingöngu, þó að honum sé einnig mikið til að dreifa. Ég vænti því, að hæstv. ráðh. taki rækilega til athugunar í fyrsta lagi, hvort ekki sé hægt að framfylgja reglugerðinni betur en gert er, en ef hann við þá athugun kemst að raun um, að það sé ekki hægt, þá athugi hann, hvort hann vill beita sér fyrir breytingum á henni, og þetta vona ég að hann geri.