15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

161. mál, bifreiðalög

Frsm. (Páli Zóphóníasson):

Herra forseti. Nm. hafa athugað frv., og hefur sú athugun leitt til þess, að við gerum hér eina litla brtt., sem ekki breytir neinu verulega í efni, en tekur skýrt fram það, sem ekki þótti koma nógu greinilega fram áður, þ.e. að þau réttindi, sem þeir fá, sem ætla að kenna mönnum að keyra bíla, séu tímabundin. Þetta kemur að nokkru leyti fram í 2. málsgr., þar sem segir, að menn eigi að greiða gjald fyrir framlengingu, en hins vegar er hvergi talað um, til hvað langs tíma skírteini er gefið. Þessi brtt. á þskj. 460 útskýrir sig því sjálf, og þarf ekki meira um hana að segja.

Hitt atriðið, sem rætt var um við 2. umr., hve mikil nauðsyn væri að taka til athugunar, á hvern hátt verði útilokað, að vínnautn sé eins mikil í sambandi við bílaakstur eins og nú er, lætur n. í þetta skipti eiga sig, þar sem hún hefur vilyrði hæstv. ráðh. fyrir því, að þessi mál verði tekin til athugunar fyrir þingið í haust og þá gerðar um það till., sem þá væntanlega koma frá ríkisstj.

N. leggur til, að frv. verði samþ. með þessari litlu breyt.