18.03.1948
Neðri deild: 75. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

161. mál, bifreiðalög

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég flyt hér brtt. við 2. gr. þessa frv. á þskj. 546. Brtt. fer fram á það, að aldurstakmark bifreiðarstjóra verði miðað við 17 ára aldur í stað 3 mánaða neðan við 18 ára aldur. Ég hef tekið eftir því, eftir að jepparnir fóru að verða algengari, að 16–18 ára drengjum, sem er mjög auðvelt að stjórna bílum, er það bannað. Þess vegna legg ég til, að aldurstakmarkið sé ekki hærra en 17 ára. Menn á þeim aldri eru vel færir til þess að aka bifreiðum. Þeir menn í mínu héraði, sem prófa menn í þessu, þeir Bergur Arnbjarnarson og Geir Bachmann, álíta, að óþarfi væri að hafa takmarkið hærra en 17 ár. Sumir telja minni áhættu í sveitum en í kaupstöðum og því hægt að hafa aldurstakmarkið þar lægra, en ekki er hægt að gera þar upp á milli. Ég vona, að n. athugi brtt. og taki henni vel, og kemur hún ekki til atkv. fyrr en við 2. umr.