22.03.1948
Neðri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

161. mál, bifreiðalög

Frsm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir hans undirtektir. Og ég vil leggja sérstaka áherzlu á, að ekkí verði látið undan fallast að taka upp þá skýrslugerð um umferðarslys, sem ég nefndi áðan, því að áreiðanlega er hin mesta nauðsyn á þeirri skýrslugerð til þess að geta vitað, hvernig slík slys vilja til, til þess svo að geta vitað, hvernig á að afstýra þeim. Jafnvel þó að þetta kostaði ríkissjóð eins manns laun a.m.k. part úr ári, tel ég, að þetta sé hlutur, sem ekki megi undan fallast, eins mikill skaði og manntjón og nú er orðið af völdum bifreiðaslysa hér á landi.

Þá vil ég og leggja áherzlu á það, þó að það kosti fé, að bifreiðaeftirlitsmönnum verði gert kleift að hafa starfaskipti við starfsbræður sína annars staðar á Norðurlöndum, þannig að a.m.k. tveimur eða þremur bifreiðaeftirlitsmönnum gæfist kostur á að kynna sér bifreiðaeftirlitsstarf annarra landa, ekki mun af því veita, því að í allri umferðarmenningu stöndum við langt að baki flestum öðrum þjóðum, sem eðlilegt er, vegna þess, hve okkar bifreiðaumferð er ung, samanborið við það, sem hjá öðrum þjóðum gerist.

Út af brtt. hv. þm. A-Húnv. um að færa aldurstakmarkið niður um 9 mánuði, sem sé lágmark þess aldurs, er menn verða að hafa, til þess að þeir megi æfa sig í bifreiðaakstri, þá hafði ég borið mig saman við formann bifreiðaeftirlitsmannafélagsins hér og hann hafði talið, að af þessu mundi ekki stafa nein hætta. Það er nú hér ekki um meira að gera en 9 mánuði, og er mjög algengt, eins og nú standa sakir, að menn byrji bifreiðaakstur mjög ungir, og sýnist ekki, að neitt sérstakt tjón hafi orðið af því. Miklu fremur mundi vera tjón af því, að menn væru við bifreiðaakstur of gamlir heldur en of ungir. Ég held, að það geti ekki valdið neinu tjóni, þó að aldurstakmarkið verði fært niður um þessa 9 mánuði.