22.03.1948
Neðri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

161. mál, bifreiðalög

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki fara inn á að ræða þetta mál almennt. Þess gerist ekki þörf. En ég vil þakka hv. frsm. fyrir það að hafa tekið vinsamlega í mína brtt. á þskj. 546 um að færa aldurstakmarkið fyrir bifreiðaakstursnemendur niður um 9 mánuði. Ég gerði grein fyrir brtt. við 1. umr. málsins og tók þá fram, að brtt. væri flutt m.a. vegna meðmæla þeirra manna, sem hafa með bifreiðaeftirlit og bifreiðaaksturspróf að gera í mínu héraði og mörgum öðrum, svo sem Akranesi og Borgarnesi. Og það, sem kemur mér sérstaklega til þess að flytja þessa brtt., er það, að það veldur talsverðum óþægindum, þar sem jeppar eru í sveitum landsins, að unglingum á þessum aldri, frá 17 ára og til þess takmarks, sem nú gildir, sé bannað að læra að fara með bifreið, því að víða er það svo á sveitaheimilum, að unglingar einmitt á þessum aldri eru einu mennirnir, sem hægt er að hafa til að nota þetta heimilistæki. Þeir bifreiðaeftirlitsmenn, sem ég hef talað við, hafa tjáð mér, að það væri þeirra skoðun, að það hefði ekki komið í ljós, að það hafi valdið erfiðleikum og því siður slysum, að menn hafi of ungir lært bifreiðarstjórn. — En ég hafði látið mér delta í hug, að það ætti að setja aldurstakmark ofan frá, þannig að menn hefðu ekki leyfi til að læra að aka bifreið, eftir að þeir eru komnir yfir einhvern vissan aldur, því að það er áreiðanlega hættulegra, að gamlir menn læri að aka bifreið, heldur en menn á þessum unga aldri. — Atkv. skera úr um þetta atriði, eins og annað.