02.02.1948
Sameinað þing: 40. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

129. mál, fjárlög 1948

Finnur Jónsson:

Það er gott til þess að vita, að ef marka má ræðu hv. 6. landsk., Steingríms Aðalsteinssonar, bíður flokkur hans með eftirvæntingu væntanlegra áætlana frá fjárhagsráði. Þær hafa af eðlilegum ástæðum orðið nokkuð síðbúnar. Þetta er í fyrsta sinn, sem slíkar áætlanir eru samdar eða tilraun hefur verið gerð til þess að semja þær. Engar skýrslur hafa verið til um byggingarframkvæmdir í landinu eða önnur þau atriði, sem áætlanir þessar eiga að byggjast á. Þessum skýrslum hefur nú verið safnað í fyrsta sinn í sögu landsins. Áætlanir verða gerðar samkvæmt þeim. Og svo sem fram kom af skýrslum fjárhagsráðs á s.l. ári, mun fjárhagsráð einnig á þessu ári með ráðstöfunum sínum eftir mætti tryggja það, að byggingarefni og gjaldeyrir verði fyrst og fremst notað til þess að koma áfram íbúðabyggingum af hæfilegri stærð og framleiðslufyrirtækjum, er spara gjaldeyri eða nauðsynleg eru vegna útflutningsframleiðslunnar.

Ég er hv. 6. landsk., Steingrími Aðalsteinssyni, sammála um, að ýmis efni standa til, að þetta ár geti orðið eitthvert mesta veltiár í sögu landsins. Aldrei fyrr hafa landsmenn verið búnir jafngóðum atvinnutækjum. Ríkisstj. hefur gert sérstakar ráðstafanir til þess, að öll þessi tæki verði starfrækt, og hennar ætlan er, að hér verði atvinna handa öllum.

En hvaða fyrirætlanir hafa Steingrímur Aðalsteinsson og aðrir leiðtogar kommúnista? Þeir berjast gegn því, að atvinnutækin verði starfrækt. Þeir berjast fyrir hækkun dýrtíðarinnar og fyrir vinnudeilum, sem mundu stöðva atvinnuvegina. Á þennan hátt eru þeir að svíkja nýsköpunina, sem þeir sjálfir áttu sinn þátt í að skapa.

Kommúnistaleiðtogarnir hafa ákveðið að fórna bæði hagsmunum verkamanna og nýsköpuninni til þess að þóknast hinum erlendu húsbændum sínum. Afkoma þessa árs fer þess vegna eftir því, hvort þeim verður eitthvað ágengt eða hvort verkamenn hrinda áhrifum þeirra.

Fjárlagafrv. það, sem hér er til umræðu, er að því leyti raunsærra heldur en áður hefur tíðkazt, að inn í það eru teknar þær upphæðir sem ætla má, að ríkið þurfi að greiða á árinu til dýrtíðarráðstafana, þ.e.a.s. til niðurborgunar dýrtíðarinnar og til greiðslu á ábyrgðarskuldbindingu þeirri, sem ríkið hefur tekið að sér í því skyni að koma fiskveiðunum á stað nú á vertíðinni. Upphæðir þær, sem ríkið greiðir í þessu skyni, samanlagðar, nema 551/2 milljón króna. En þó að svo sé, að þessar upphæðir standi nú á fjárlagafrv., tel ég, að einnig hefði þurft að taka inn á frv. verulega upphæð til afborgunar á væntanlegu 20 millj. kr. láni, sem ríkið þarf óhjákvæmilega að taka vegna fiskábyrgðar þeirrar, er Alþ. tókst á hendur fyrir vertíð 1947, því að tæplega getur verið rétt að láta þessa skuld standa til margra ára.

Ýmsir hafa talað um hinn ágæta fjárhag ríkissjóðs og sagt í því sambandi, að ríkinu væru allir vegir færir, — fjárhagur ríkissjóðs hefði aldrei verið betri en nú og að sjálfsagt væri að krefjast þess af ríkinu, að það legði fram mjög mikið fé til ýmiss konar verklegra framkvæmda. Ég verð að telja, að sú mikla skuldasöfnun, sem ríkið hefur orðið fyrir, beri vott um hið gagnstæða. Enn þá er mjög mikið fé í umferð í landinn, og yfirleitt má segja, að allur atvinnurekstur, annar en sjávarútvegur, hafi gengið mjög vel fram á þennan dag. Hagur flestra sveitar- og bæjarfélaga mun vera mjög góður, að örfáum undanteknum. Það er þess vegna mjög óeðlilegt, svo að ekki sé meira sagt, að ríkið fyrst allra stofnana í landinu lendi í stórkostlegri skuldasöfnun, áður en nokkuð kreppir að hjá almenningi eða einstökum fyrirtækjum. Ástæðurnar fyrir þessari óeðlilegu skuldasöfnun ríkissjóðs eru raunar auðsæjar og stafa af því, að ríkið hefur þurft að greiða stórfé til þess að halda niðri dýrtíðinni í landinu og enn fremur tekið á sig þungar byrðar, vegna þess að dýrtíðin hefur lamað sjávarútveginn, sem er aðalútflutningsatvinnuvegur landsmanna.

Ég vil geta þess, að því fer mjög fjarri, að rétt sé að saka núverandi ríkisstj. um það, hvernig málum er komið í þessu efni. Alþ. hefur sjálft látið undan almennum kröfum landsmanna um aukið framlag til opinberra þarfa, raunar umfram getu ríkissjóðs. Þá hefur Alþ. enn fremur dregið úr hófi fram að gera raunhæfar ráðstafanir til þess að hefta og lækka dýrtíðina, þangað til núverandi ríkisstj. fékk samþykkt dýrtíðarlög sín. Verulegur hluti af þessum vandræðum hlauzt af því, þegar kommúnistar sviku nýsköpunina með því að hlaupast brott úr fyrrv. ríkisstj.

Í sambandi við það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, hefur talsmaður kommúnista, hv. 6. landsk., veitzt að ríkisstj. fyrir það, að ekki er meira ætlað til verklegra framkvæmda á frv. Þetta er gersamlega ástæðulaust vegna þess, að ef ríkið ætlar nú mjög mikið til verklegra framkvæmda, orsakar það óhæfilega samkeppni um vinnuaflið við aðalútflutningsatvinnuveginn, sjávarútveginn, en slíkt má ekki verða.

Hrunsöngur hv. 6. landsk. og annarra kommúnista og spádómar um atvinnuleysi, þó að verulega væri dregið úr verklegum framkvæmdum ríkisins, eru hin mesta fjarstæða, svo sem hér mun sýnt verða. Allir vita, að ástandið er nú þannig í mörgum verstöðvum, að fjöldi skipa liggur í höfn og kemst ekki á flot vegna mannleysis. Stækkun skipastólsins og hraðfrystihúsanna hefur gengið örar heldur en gert var ráð fyrir, og enn fremur hafa ýmiss konar atvinnuvegir verið efldir svo mjög í landinn, að ástæðulaust er fyrir ríkið að leggja á þessu ári mikið fé til verklegra framkvæmda, annarra en þeirra, sem greiða fyrir útflutningsframleiðslunni. Tel ég, að í því sambandi þyrfti að athuga tilfærslur á frv., þannig að meira fé yrði lagt til hafnarframkvæmda en minna til bygginga, sem ekki standa í sambandi við framleiðsluna. Atvinnumöguleikar landsmanna vegna þessarar miklu aukningar atvinnufyrirtækjanna, sem til eru nú í landinu, hafa aldrei nokkurn tíma verið eins miklir og þeir eru nú. Þessa miklu atvinnumöguleika vill hæstv. ríkisstj. og þeir, sem hana styðja, nota til þess ýtrasta, en kommúnistar vilja spilla þeim eftir mætti í samræmi við „dagskipun M“ frá höfuðstöðvunum í austri. Ég vil nú nefna nokkur skýr dæmi um hina öru aukningu atvinnumöguleikanna.

Í skýrslu, sem nýbyggingarráð gaf út og dags. er í desember 1946, eru settar fram 5 áætlanir um stækkun fiskiflotans, og er þar yfirlit yfir eflingu sjávarútvegsins á tímabilinu 1946 til 1951. Nýbyggingarráð kemst þar að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að binda starfsemina í framtíðinni við flota þann, sem nefndur er í áætlun þess II, en þar er gert ráð fyrir, að hæfilegur fiskifloti landsmanna á árinu 1951 sé 795 skip, samtals 52 025 rúmlestir. Áætlar nýbyggingarráð, að á þennan fiskiflota þurfi 7–8 þúsund menn. Samkvæmt síðustu skipaskoðun telur fiskimálastjóri, að til muni vera í landinu 688 fiskiskip, rúmlestatala þeirra er 44170. Í lauslegri áætlun, sem hann hefur gert, telur hann, að ef öll þessi skip færu nú á vertíð á þær fiskveiðar, sem hverju skipi hæfði, mundi þurfa á þau 7150 sjómenn. Nú þegar eru komnir 4 togarar til viðbótar, samtals 2770 rúmlestir, og á þessu ári koma til landsins flestir þeir togarar, sem þegar er búið að semja um kaup á í Bretlandi; enn fremur bætast við nokkur vélskip, þannig að sennilegt er, að á árinu 1948 verði tala fiskiskipanna orðin 718 og rúmlestatala þeirra 56 000, eða 4000 rúmlestum hærri heldur en nýbyggingarráð taldi hæfilegt markmið á árinu 1951. Eflaust gengur eitthvað úr af skipum á árinu, en þó aldrei meira en svo, að rúmlestatala fiskiskipanna verður í árslok 1948 svipuð eða hærri en nýbyggingarráð gerði ráð fyrir, að hún þyrfti að vera árið 1951 til þess að fullnota veiðimöguleika landsmanna hér við strendurnar, án þess að gengið væri á fiskistofninn. Þessi öri vöxtur fiskiflotans hefur þegar orðið til þess, að mikil vöntun er nú á sjómönnum og það svo, að til vandræða horfir.

Samhliða þessu hefur farskipaflotinn verið mjög mikið aukinn. Farþega- og flutningaskip voru í árslok 1945 10, rúmlestatala 9500, en í árslok 1947 17 skip, um 14500 rúml. Á þessu ári eru væntanleg 2 af skipum þeim, sem Eimskipafélag Íslands er að láta byggja í Danmörku, og hið mikla skip „Tröllafoss“, sem skipshöfn er farin til Ameríku til að sækja. Enn fremur koma 2 ný strandferðaskip ríkisins. Alls verða þetta um 13 þús. rúmlestir. Verður þá þessi floti á árinu 1948 orðinn um 28 þús. rúmlestir og hefur þá náð þeirri stærð, er nýbyggingarráð hafði gert ráð fyrir í áætlun sinni. Þessi mikla aukning farskipaflotans eykur enn eftirspurn eftir sjómönnum, og væri vissulega illt til þess að vita, ef mikill hluti hans eða fiskiskipanna þyrfti að liggja hér við landfestar vegna mannleysis, er stafaði af því, að Alþ. veitti svo mikið fé til verklegra framkvæmda, t.d. vegagerða og bygginga, að menn fengjust ekki til þess að sækja sjóinn.

Þá má og geta þess, að hraðfrystihúsum hefur fjölgað mjög ört. Samkvæmt skýrslu fiskimálanefndar voru til hér á landi hinn 1. apríl 1946 71 frystihús, er höfðu geymslurúm fyrir samtals 35 þúsund tonn af fiskiflökum, frystu kjöti og frystri síld, en í ársbyrjun 1948 er tala þessara húsa orðin 86, og hús þau, sem eru í samtökum sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, eru talin geta afkastað 680 tonnum af flökum á dag miðað við 16 tíma vinnu. Utan þessara samtaka eru önnur frystihús, sem sennilega gætu unnið um 100 tonn á dag. Viðbætur hraðfrystihúsanna hafa þannig orðið mjög örar, og enn eru mörg hraðfrystihús í byggingu. Ef hraðfrystihús þessi fá þann fisk, sem þau þurfa til þess að vinna með sæmilegum afköstum, verður að gera ráð fyrir, að þau þurfi 3800 manns til vinnunnar. Er þó aðeins gert ráð fyrir þeim húsum, sem nú eru starfrækt, en ekki þeirri viðbót, sem fyrirhuguð er. Þetta er 800 manns fleira heldur en nýbyggingarráð gerði ráð fyrir, að þyrfti til þess að anna allri vinnu í hraðfrystihúsunum, sem voru starfandi á árinn 1946.

Ýmsar niðursuðuverksmiðjur hafa verið reistar, sem þurfa mjög aukinn vinnukraft, en þar sem óvissa ríkir um starfrækslu þeirra og afköst, verða þær ekki hér með taldar. — Hins vegar verða afköst síldarverksmiðja hér við Faxaflóa aukin mjög fyrir næsta haust, og þarf þar enn aukinn vinnukraft til útflutningsframleiðslunnar.

Í ráði er að koma á fót 10000 mála síldarbræðslu um borð í skipi, er væri færanlegt meðfram ströndum landsins. Enn fremur er í ráði að auka afköst ýmissa verksmiðja hér við Faxaflóa, þannig að þær geti unnið úr 12000–15000 málum á sólarhring. Og hefur fjárhagsráð þegar lýst yfir stuðningi og fyrirgreiðslu til ýmislegra framkvæmda í þessu skyni.

Að öllu þessu athuguðu er augljóst, að þær ráðstafanir, sem þegar er búið að gera vegna framleiðslutækja sjávarútvegsins, verða þess valdandi, að mjög mikil aukning þarf að vera á vinnuaflinu við þau, til þess að tækin notist, sem búið er að kaupa til landsins. — Það er þess vegna alger óþarfi vegna atvinnu landsmanna að leggja stórfé frá ríkinu til verklegra framkvæmda á þessu ári, og gelur reyndar verið hættulegt bæði fyrir afkomu landsins í heild og einstaka atvinnuvegi, því að eins og gjaldeyrismálum okkar er nú komið, verður að leggja alla stund á útflutningsframleiðsluna umfram aðra atvinnuvegi.

Þjóðin er full framfaraáhuga, en þeim framförum þarf að beina inn á þær brautir, að fyrst séu leyst þau verkefni, sem eru mest aðkallandi. Enginn trúir á hrun það og atvinnuleysi, sem kommúnistar segja, að núverandi ríkisstj. vilji leiða yfir landsmenn, og ber hinn mikli áhugi einstakra manna fyrir auknum framkvæmdum og þeirra, sem ráða fyrir opinberum framkvæmdum í byggingarmálum, þessa ljósan vott. Fjárhagsráði hafa borizt umsóknir, sem bráðabirgðayfirlit hefur nú verið samið um, og er það svo sem hér segir:

Kostn.

Kostn.

Kostn.

Heild.

Íbúðir

31/12'47

1948

1949

millj.

Íbúðarhús

1301

2263

50.8

179.5

230.0

Bilskúrar og útihús

292

1.0

8.2

9.2

Verzlunarhús og þ. u. l.

100

12

9.6

40.7

1.4

51.7

Iðnaðarfyrirtæki

66

4

2,9

8.2

0.8

11.9

Framleiðslufyrirtæki .

56

8.9

33.8

8.1

50.8

1815

2279

73,2

270.4

10.3

353.6

Opinberar byggingar

172

29.3

64.7

26.8

120.9

— verklegar framkv.

107

64.2

86.8

98.0

249.1

279

93.5

151.5

124.8

370.0

Má af þessu yfirliti ráða, að mikill hugur er í mönnum um byggingar og um opinberar framkvæmdir. Verður vafalaust ákveðið innan skamms af fjárhagsráði, í hverjar byggingar skuli ráðizt á þessu ári. Byggingarstarfseminni þarf að einbeita að því að byggja íbúðir við almenningshæfi og byggingar nauðsynlegar framleiðslunni, en af því, sem ég hef áður sagt um útflutningsframleiðsluna og fólksþörfina þar, er augljóst, að sama gegnir um byggingarstarfsemi bæði einstaklinga og þess opinbera, að gæta þarf nokkurrar varhygðar í því að draga ekki fólkið til þeirrar starfsemi um of, á kostnað útflutningsframleiðslunnar, því að vitanlegt er, að ef ekki fæst gjaldeyrir, verður ekki heldur hægt að byggja.

Um iðnaðinn gildir hið sama og um sjávarútveginn, byggingarstarfsemina og opinberar framkvæmdir, að þar er fyrirhuguð mjög mikil aukning. Fjárhagsráð hefur safnað skýrslum um iðnaðinn. Eru þær eigi fullkomnar, en munu þó vera hið næsta, er komizt verður. Samkvæmt þeim nam verðmæti iðnaðarins 236.8 millj. á árinu 1946, en á árinu 1947 til 1. okt. 188.6 millj., og ef gert er ráð fyrir sömu framleiðslu á síðasta ársfjórðungi, nemur hún alls 235.6 millj. eða svipaðri upphæð og á árinu 1946. Hins vegar er áætlun iðnaðarframleiðslunnar árið 1948 371 millj. kr. eða um þriðjungs aukning. Hráefnanotkun iðnaðarins var 1946 86.6 millj., en á árinu 1947 til 1. okt. 75 millj., og áætluð fyrir síðasta ársfjórðung þess árs 18 millj., eða alls 93 millj. Á árinu 1948 áætla iðnaðarframleiðendur, að þeir þurfi hráefni fyrir 1481/2 millj. kr. Tala manna þeirra, er við iðnaðinn vinna, var árið 1946 5421, árið 1947 5130 og áætluð á árinu 1948 vegna þeirrar aukningar, sem orðið hefur á vélakosti, 6738.

Einnig hér er ráðgerð mikil útfærsla, og menn spyrja: Hvað verður hægt að útvega af hráetnum til iðnaðar? — Hvað verður hægt að byggja? — Hvað verður hægt að vinna að opinberum framkvæmdum? Og svarið hlýtur að vera hið sama við öllum þessum spurningum: Það fer eftir gjaldeyrisástandinu og ettir mannaflinu og fjármagni því, sem landsmenn hafa til umráða innanlands. En það er eins og ýmsir reikni alls ekki með þeirri staðreynd. Vegna hinna mjög öru framkvæmda á öllum sviðum hefur þegar verið fest geysimikið fjármagn einstaklinga til margra ára. Auk þess hafa ríkinu verið bundnir ótrúlega stórir baggar bæði með fjárframlög og ábyrgðir. T.d. hafði Landsbankinn s.l. sumar skrá yfir lánbeiðnir ríkisins og lánbeiðnir með ríkisábyrgð upp á 180 milljónir króna. Þó er gjaldeyrisástandið svo, að fjármagnið er orðið mjög bundið. Samkv. skýrslum fjárhagsráðs var gjaldeyrisforðinn í árslok 1946 223 millj. kr. Þar af hafði verið ráðstafað á nýbyggingarreikning 131 millj. kr. Auk þess komu svo ábyrgðir bankanna 60 millj. kr., eða alls var eftir til annarra ráðstafana en nýbygginga og ábyrgða 42 millj. kr. Nú er ástandið orðið allt annað. Gjaldeyriseign bankanna var í árslok 1947 48.4 millj. kr., en ábyrgðir 46.4 millj. kr., eftir voru því til ráðstöfunar umfram ábyrgðir aðeins 2 millj. kr., og er það þó ekki hin rétta mynd af ástandinu, því safnazt hafa fyrir hjá bönkunum um 18 millj. kr. í innheimtum, sem voru óafgreiddar um áramótin, vegna þess að ekki var hægt að yfirfæra þær sökum gjaldeyrisskorts. Nokkuð af vörum þessum hafði þó verið flutt til landsins án leyfa. Auk þess hafa á árinu safnazt stórar skuldir í útlöndum, bæði hjá einstökum fyrirtækjum og enn fremur hjá opinberum aðilum, sem eru í miklum vanskilum, einnig vegna vöntunar á gjaldeyri. Nema upphæðir þessar samtals mörgum tugum milljóna kr., þannig að í staðinn fyrir 42 milljóna króna inneign bankanna umfram bankaábyrgðir í árslok 1946 er komin stór gjaldeyrisskuld. Þetta hefur orðið þrátt fyrir það að fjárhagsráð og viðskiptanefnd hafa með ráðstöfunum sínum á árinn dregið mjög mikið úr öllum innflutningi til landsins og sérstaklega skorið niður allan óþarfainnflutning. Fjárhagsráð hafði sagt fyrir um þetta í tveim skýrslum, er það hefur birt um gjaldeyrisástandið. Gjaldeyrisskortur kreppir nú mjög að öllum, sem viðskipti eiga við útlönd, og væri þó ástandið enn verra, hefði Faxasíldin eigi komið til sögunnar.

Í l. um fjárhagsráð er svo ákveðið, að fjárhagsráð skuli semja innflutningsáætlun fyrir ár hvert. Að þessu sinni hefur fjárhagsráð haft mikinn vanda á höndum um samning slíkrar áætlunar. Gjaldeyrisforðinn er horfinn og tugmilljóna skuldir komnar í staðinn við önnur lönd. Eftir er að greiða stórfé til að ljúka ýmsum mikilsverðum framkvæmdum, sem þegar eru hafnar, og þau nýju framleiðslutæki og vélar, sem flutt hafa verið inn til landsins, þurfa mjög aukinn rekstrarkostnað, þau auka að sjálfsögðu mjög mikið afköst landsmanna, en vitanlega þó því aðeins, að þau séu í gangi.

Fjárhagsráð hefur eigi enn að fullu gengið frá innflutningsáætlun sinni, en þó virðist nú mega fullyrða, að þrátt fyrir ýtrustu varfærni geti innflutnings- og gjaldeyrisáætlunin aldrei numið minna en um 310 millj. kr. með fobverði.

Auk þess koma svo hinar svonefndu duldu greiðslur, flutningsgjöld, námskostnaður, sendiráðakostnaður o.s.frv., sem aldrei getur numið minna en um 80 millj. kr., og það þó að gætt sé ýtrustu varfærni á öllum sviðum.

Lágmarksþarfir landsmanna eru samkv. þessu um 400 millj. kr., og er þá skorinn niður allur óþarfainnflutningur og nauðsynjavörur, svo sem frekast hefur þótt fært.

Innflutnings- og gjaldeyrisáætlunin skiptist sem næst til þriðjunga, þannig að neyzluvörur nema um 103 millj. kr., rekstrarvörur til lands og sjávar nema 103 millj. kr., en byggingarefni (annað en til viðhalds) og nýbyggingarvörur nema um 103 millj. kr.

Til samanburðar vil ég geta þess, að ég hef gert tilraun til að sundurliða innflutning ársins 1945 eftir skýrslu Hagtíðinda, og telst mér svo til, að neyzla þess árs nemi 145 millj. króna, en rekstrarvörur og nýbyggingar kr. 174 millj. Virðist hafa orðið mikil breyting á þessu, og sýnir hún, hve gersamlega tilefnislaust stjórnarandstaðan sakar núverandi ríkisstj. og fjárhagsráð um að reka erindi heildsala eða kaupmanna.

Á árinu, sem leið, hefur útflutningur landsmanna verið hærri en nokkru sinni fyrr, eða um 300 millj. króna. Til þess að útflutningur nægi fyrir brýnustu þörfum þessa árs, þarf hann að hækka um þriðjung eða í 400 milljónir, og virðist ekki varlegt að gera ráð fyrir öllu hærri upphæð.

Á þessu ári eru gjaldeyris- og innflutningsyfirvöldin mjög bundin við það, sem áður hefur verið gert. Til viðskiptanefndar og fjárhagsráðs hafa komið mjög margar beiðnir um framlengingar á eldri leyfum, og geta þessar framlengingar varla numið minna en 100 til 120 millj. kr., sem þá verða að koma upp í innflutningsáætlun þessa árs. Hafa fjárhagsráði borizt beiðnir um framlengingu nýbyggingarleyfa, er nema um 30 millj. kr.

Af þessu, sem hér hefur sagt verið um aukning atvinnuveganna, er augljóst, að atvinnumöguleikar landsmanna eru meiri heldur en þeir hafa nokkurn tíma verið áður. Þannig er nú þegar í ársbyrjun 1948 ýmislegt það komið til fullra framkvæmda, sem nýbyggingarráð taldi, að ljúkast þyrfti á árinu 1951. Enn fremur er augljóst, að brýna nauðsyn ber til að beina vinnuaflinu og fjármagninu að framleiðslu sjávarafurða, því að öll önnur afkoma landsmanna er undir því komin, að svo verði gert.

Það er á valdi landsmanna sjálfra, hvernig þeir fara með þessa möguleika, og ef við verðum samkeppnisfærir um að selja vörur okkar á erlendum markaði og notum okkur framleiðslutækin, þurfum við engu að kvíða um framtíðina. En að þessu hefur verið lagður grundvöllur með þeim dýrtíðarráðstöfunum, sem ríkisstj. hefur gert með dýrtíðarlögum sínum.

Getum við haldið vinnufriði í landinu, getum við haldið áfram að færa niður dýrtíðina og séð um, að öll okkar framleiðslutæki séu í notkun, má telja, að bjart sé fram undan meðan vörur okkar falla ekki á erlendum markaði. Verði hins vegar gerðar ráðstafanir til þess að hindra það, að við getum orðið samkeppnisfærir um sölu á afurðum okkar, eða verði atvinnuvegirnir stöðvaðir með óhyggilegum ráðstöfunum, mun illa fara.

Þessar staðreyndir verða öllum Íslendingum æ ljósari með degi hverjum. Tilraunir, sem kommúnistaleiðtogarnir hafa gert samkvæmt erlendum fyrirskipunum til þess að æsa til verkfalla gegn dýrtíðarráðstöfunum ríkisstj., hafa engan árangur borið. Kommúnistar hafa orðið fyrir sárum vonbrigðum. Þeir töldu sig geta unnið mikið fylgi í verkalýðsfélögunum á kostnað Alþýðuflokksins vegna dýrtíðarlaganna. — Reynslan hefur orðið allt önnur. Hvarvetna þaðan, sem til fréttist, hefur fylgi kommúnista í verkalýðsfélögunum minnkað. Í fjórum verkalýðsfélögum: í Sandgerði, á Hellissandi, í Borgarnesi og á Hvammstanga, hafa kommúnistar misst formennsku. Ýmis önnur félög hafa hrundið þeim úr trúnaðarstöðum, og víða hefur fylgi þeirra hrunið niður, eins og t.d. í Vestmannaeyjum. Í sumum félögum, t.d. bifreiðastjórafélaginu Hreyfli, þorðu þeir ekki að stilla upp í stjórn vegna fylgisleysis. Í Dagsbrún vann Alþýðuflokkurinn stórlega á, þrátt fyrir austrænar kosningaaðferðir kommúnista, og sama sagan heyrist alls staðar að af landinu. Í örfáum sterkustu félögum sínum hafa kommúnistar marið í gegn mótmæli gegn dýrtíðarlögunum með örlitlum atkvæðamun, en önnur félög hafa beinlínis mælt með lögunum. Þetta er allur árangurinn, sem kommúnistaleiðtogarnir hafa náð með hinni stórkostlegu, skipulögðu áróðursog rógsherferð sinni og öllum þeim fjölda erindreka og starfsmanna, sem flokkurinn hefur á launum, hvaðan sem þau svo koma.

Engin skipulögð andstaða er rekin gegn kommúnistum í verkalýðsfélögunum. Verkamennirnir hafa sjálfir fundið hvöt hjá sér til þess að losa sig við þá. Ef andstæðingar kommúnista rækju svipaðan áróður og kommúnistar gera, yrðu áhrif kommúnista þurrkuð út á skömmum tíma. En þó að fyrsta árás kommúnistaleiðtoganna gegn atvinnulífi landsmanna hafi þannig sem heild mistekizt, sitja þeir sig aldrei úr færi með að gera það tjón, sem þeir geta. Þeim þykir veiði Faxaflóasíldarinnar vera orðin ískyggilega mikil. Þeir létu því Dagsbrúnarstjórnina banna síldarlosun í Reykjavík að nóttu til. Sjómenn, sem biða hér dögum saman eftir losun, tóku þá til sinna ráða. Þeir neituðu að afhenda nokkra síld, nema Dagsbrún aflétti banninu. Alger stöðvun var of áberandi á ábyrgð kommúnistaleiðtoganna. Þeir létu því undan í þetta skipti, þökk sé hinni einörðu afstöðu sjómanna. Vilji kommúnistaleiðtoganna til þess að framkvæma hina fyrirskipuðu skemmdarstarfsemi er augljós. En hver atvinnustöðvun, sem framkvæmd er, kemur illa við þá, sem vinnuna missa.

Verkföll framin eftir erlendum fyrirskipunum mæta andúð fjölda verkamanna, sem áður hafa fylgt kommúnistum að málum. Þess vegna hrynur fylgið alls staðar af þeim.

Ég hef hér að framan sýnt fram á hina geysimiklu atvinnumöguleika, sem til eru nú í landinn. Ég hef einnig í stórum dráttum rakið gjaldeyrisástandið. Hvort tveggja hlýtur þetta að ræðast í sambandi við frv. það til fjárlaga, sem hér er á dagskrá.

Stefna núverandi ríkisstjórnar er sú, að hér verði atvinna handa öllum. Að þessu miða dýrtíðarlögin og þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til þess að reyna að tryggja gjaldeyri til atvinnuframkvæmda, fyrst og fremst fyrir þá, sem harðast verða úti í atvinnuleysi eða vinnustöðvunum, verkamenn og sjómenn. En leiðtogar kommúnista nota samtök þeirra til þess að fremja skemmdarstarfsemi sína.

Andstaða verkamanna og sjómanna gegn hinum sviksamlegu aðförum kommúnista hlýtur því að magnast eftir því, sem svik kommúnista verða augljósari, svo sem í ljós kom við hirtingu þá, er sjómenn nýlega gáfu stjórn Dagsbrúnar. Ég vil ítreka það, að atvinnumöguleikar landsmanna, hvað sem liður framlögum ríkisins til opinberra framkvæmda á þessu ári, hafa aldrei verið eins miklir og nú, ef atvinnufyrirtækin geta verið í starfrækslu sökum dýrtíðar og ef verkamenn og sjómenn fá að vera í friði við vinnu sína fyrir kommúnistaleiðtogunum.

Það er á valdi verkamanna og sjómanna sjálfra að láta ekki trufla vinnufriðinn, en til þess að svo verði, þurfa þeir að hrinda af sér áhrifavaldi kommúnista í félagsskap sínum. Takist það, mun atvinna handa öllum haldast áfram og hagur almennings halda áfram að batna til blessunar fyrir okkar litla þjóðfélag.