11.03.1948
Sameinað þing: 52. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

129. mál, fjárlög 1948

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að rekja málið í heild, en vildi aðeins drepa á einstök atriði. Ég vildi biðja hv. n. að athuga, að það mun vera prentvilla á bls. 4 í brtt. hennar, þar stendur Vallanesvegur. það mun eiga að vera Vattarnesvegur. Þá vildi ég minnast á þá till. n. um að lækka framlagið til íþróttasjóðs. Undanfarin tvö ár hefur sjóðurinn notið einnar millj. kr. framlags árlega, en á frv. nú er gert ráð fyrir að lækka það niður í 700000 kr., eða um 30%, og er þessi lækkun svo mikil, að mér finnst ekki gerlegt að klípa meira af þessu, og hygg ég, að svo muni vera afstaða ríkisstj. í heild. Þetta vildi ég biðja n. að athuga, og hvort hún vildi ekki taka þessa brtt. aftur til 3. umr., ef samkomulag gæti náðst um þetta. Þá vil ég benda á, að það mun vera misskilningur, að samkomulag hafi orðið um það milli n. og ríkisstj. að lækka framlagið til byggingar Þjóðminjasafnsins um eina milljón eða niður í 500 þús. kr., heldur féllst ríkisstj. á að lækka það um 500 þús. kr., niður í eina milljón.

Í 15. gr. eru tvö atriði, sem ég vildi minnast á. Brtt. n. nr. 33 er þess efnis, að í stað þess að veita 60 þús. kr. til lesstofa verði sú upphæð veitt til bókasafna. Fjmrh. tók þennan lið inn á frv. eftir ósk menntmrn., og var hugmyndin sú að verja fénu til þess að stuðla að því að koma upp lesstofum fyrir sjómenn í verstöðvum. Þess vegna er orðið „lesstofa“ notað. Þótt upphæðin sé ekki mikil, þá mætti þetta þó verða til að bæta nokkuð úr því ófremdarástandi, sem ríkir í verbúðunum, þar sem menn eru langdvölum án þess að eiga þess kost að geta stundað bóklestur. Nú hefur n. viljað breyta þessu þannig, að styrkurinn renni til bókasafna, og er þá ekki hægt að nota hann til þess, sem upphaflega var ætlazt til, og vildi ég biðja n. að athuga, hvort hún haldi fast við þetta og hvort ekki muni hægt að ná samkomulagi við hana um að breyta þessu, svo að upphæðin renni til þess, sem ætlað var. þá er það brtt. varðandi leikskóla Lárusar Pálssonar, að liðurinn orðist svo: „Til leikskóla samkvæmt úthlutun menntamálaráðherra“, og sagði hv. form. n., að þetta væri svo í brtt. n. vegna einnar nýrrar umsóknar um styrk til leikskóla, og vill n. láta ráðherra skipta upphæðinni. Ég vil því lýsa því yfir, að ef þessi brtt. verður samþ., þá skoða ég það sem það sé till. um, að þeir sömu skólar og áður fái styrk, en aðrir ekki. Ef n. vill styðja það, að fleiri skólar fái styrk, þá verður það að koma skýrt fram í frv., og ef hún vill lækka framlagið til þeirra, sem áður hafa notið styrks, með því að veita nokkuð af upphæðinni til nýrra skóla, þá þarf það og að koma skýrt fram. Annars mun ég skoða þessa brtt. eins og ég hef lýst og mun haga mér samkvæmt því, ef hún verður samþ. Sé ég svo ekki ástæðu til að taka fleira fram varðandi till. n. og skal ekki tefja tímann, en vil taka undir orð hv. form. fjvn. varðandi skólabyggingar, að það er mikið vandaverk að stýra úthlutun á því fé, sem til þeirra er ætlað, þegar svo mikið er um skólabyggingar sem raun ber vitni. Þetta er í raun og veru ekki lág fjárveiting í heild sinni, en miðað við þörfina og það, hve mikið er færzt í fang með skólabyggingar, þá er þetta æði litið, en ég mun ekki gera tilraun til að rjúfa gert samkomulag um þetta atriði og skal reyna að komast af með þetta. Þá bið ég að lokum n. að athuga eitt atriði til 3. umr. Það er þannig, að hér í bænum er félagsskapur enskumælandi manna, Anglia, og hefur félagið fengið þá hugmynd að bjóða hingað enskum háskólaprófessorum til þess að þeir gætu kynnzt landi og þjóð. Ég tel þetta mjög aðlaðandi hugmynd, sem gæti haft mikla þýðingu sem landkynning, en félagið hefur tjáð mér, að það sé reiðubúið til að standa straum af ferðum hinna ensku prófessora hér svo og uppihaldi, en telur sig ekki geta greitt allan kostnað af förinni. Legg ég því til við hv. fjvn., að hún geri það að till. sinni, að lagðar verði fram 10–12 þús. kr. í þessu skyni, því að þetta er einhver sú bezta landkynning, sem ég get hugsað mér.