11.03.1948
Sameinað þing: 52. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

129. mál, fjárlög 1948

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það hefur komið fram í umr. og er rétt, að mörg undanfarin ár hafa allar tölur fjárl. hækkað, sérstaklega framlögin til verklegra framkvæmda. Það mátti búast við því, að svo héldi ekki áfram. Nú er svo komið, að framlögin til verklegra framkvæmda eru nokkru lægri en í fjárl. 1947. Ég skal strax taka það fram, að ég er þeirrar skoðunar, að það sé rétt stefna, að hvenær sem atvinnulífið þarf mjög á vinnuafli að halda, þá verði atvinnuvegirnir að fá vinnuaflið í sína þjónustu. Með þessu viðurkenni ég, að það sé rétt stefna og ekkert við því að segja, þótt hið opinbera dragi úr kröfum sínum til vinnuafls, er atvinnulífinu vegnar vel. Ég skal því ekki áfellast fjvn., þótt upphæðin til verklegra framkvæmda sé lægri nú en verið hefur. Ég tel, að atvinnulífinu sé þannig háttað nú, að atvinnuvegirnir hafi fulla þörf á vinnuaflinu. Það er því ekki rétt, að hið opinbera sé í samkeppni um vinnuaflið.

En það er annað atriði, sem ég er ekki eins ánægður með, og það er það, hvernig n. leggur til, að skipt sé fjárupphæðinni til verklegra framkvæmda. Ég held, að þegar n. tekur að sér þann vanda að skipta, verði hún að gera sér far um að vanda skiptinguna og gæta fyllsta réttlætis. Ég hefði talið, að ef draga á úr framlögum til vegamála, þá bæri fyrst og fremst að athuga, hvar helzt er réttlætanlegt að draga úr, t.d. hvort það skuli gert í þeim landshlutum, er snauðir eru hvað vegakerfi snertir, eða þeim, sem hafa þéttriðið akvegakerfi. Ég hefði haldið, að þetta hefði fyrst og fremst átt að gera í Sunnlendingafjórðungi, þar sem til eru akvegir til hvaða staðar, sem í hug manns kemur. Sama gildir um Borgarfjörð. Þeir ættu að reyna það, hv. þm. Árn. og hv. þm. Rang., að taka sér ferð á hendur um Vestfirði eða Austfirði og sjá, hvort eitthvað yrði ekki fyrir hjólunum, er torveldaði förina. Það væri rétt að bjóða þessum hv. þm. til Austfjarða og Vestfjarða, svo að þeir geti séð út fyrir asklok sinna eigin héraða. Þessa ályktun dreg ég tvímælalaust af fjárlögunum 1947 og 1948, og sama hefur verið langa tíð. Vegleysurnar á Vestfjörðum og Austfjörðum og þéttriðið vegakerfi í Sunnlendingafjórðungi og norðanlands eru sönnunin. Á móti framlögum til Vestfjarða, sem talin hafa verið í hundruðum þúsunda, hafa framlögin til Suðurlands og Norðurlands numið milljónum þrátt fyrir vegleysurnar á Vestfjörðum.

Ég get ekki séð annað en að það hefði mátt bíða, að vegir yrðu hækkaðir og breikkaðir í Sunnlendingafjórðungi og að meira liggi á því að leggja nýja vegi um veglaus héruð. Ég held, að enn sem fyrr séu veglausir landshlutar út undan, en hinir sólarmegin í lífinu, eins og verið hefur í áratugi. Tölurnar sanna þetta.

En það verður líka að gera þá kröfu til fjvn., er hún skiptir upphæðum til verklegra framkvæmda, að hún skipti þeim ekki bara réttlátlega milli landshluta, heldur líka á milli kjördæma. Því miður er það svo, að þar er ranglætið enn meira. Ég skal taka sem dæmi fjárveitingar til tveggja kjördæma á Vestfjörðum, Barðastrandarsýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu, sem bæði eru veglaus. Samkv. fjárl. 1947 var Barðastrandarsýslu veitt á 6. hundrað þús. til vegamála, og núna er það einnig lagt til í brtt. n., að sýslunni sé enn ætlað á 6. hundrað þús. kr., 525 þús. kr. til tíu vega. (HelgJ: Ekki er þetta á Suðurlandsundirlendinu.) Það er rétt, en það er eins og sól Suðurlandsundirlendisins skini þarna. En jafnveglaus sýsla og Norður-Ísafjarðarsýsla hefur, bæði í fyrra og í ár, fengíð rúmar 300 þús. kr. á móti þeim 600 þús. kr., sem Barðastrandarsýsla hefur fengið. Ég held, að það verði engum fært að sýna fram á það, að þarna hafi verið réttlátt skipt á milli þessara tveggja kjördæma, jafnvel þó að þess sé minnzt, hver er form. fjvn. Hinir nm. hefðu átt að minna hann á að fullnægja einhverju réttlæti.

Ég hef ekki lagt það til, að framlögin til vegamála í Barðastrandarsýslu verði lækkuð. Ég veit, að þeirra er full þörf. En ég get ekki unað við, að Norður-Ísafjarðarsýsla fái ekki viðurkenningu fyrir sams konar þörf. Því hef ég borið fram brtt. á þskj. 479 um, að veitt verði til Ármúlavegar 75 þús. kr. í stað 40 þús. kr., eins og fjvn. hefur lagt til. Þá hef ég farið fram á það, ásamt hv. þm. N-Ísf., að fjvn. þóknaðist að veita 75 þús. kr. til akvegar í Ögurhreppi, en þar hefur ekki verið lagður þjóðvegarspotti frá landnámstíð. N. hefur fallizt á 25 þús. Í stað 25 þús. fer ég nú fram á það í brtt. á þskj. 479, að Ögurhreppur fái 40 þús. kr., og þykist þá stilla kröfunum í hóf. Það er því farið fram á það af minni hálfu, að hlutur Norður-Ísafjarðarsýslu hækki um 50 þús., og er sú fjárveiting mun lægri en ætlað er til Barðastrandarsýslu, jafnvel þótt báðar till. verði samþ.

Fjvn. hefur fallizt á að veita fé til einnar brúar í Norður-Ísafjarðarsýslu, Ósárbrúar í Bolungavík, og er það þakklætisvert, en til brúar á Selá í Nauteyrarhreppi, sem er vatnsmesta vatnsfall á Vestfjörðum, er ekki veittur einn eyrir. Hún skal vera óbrúuð. Á sama tíma eru tugir brúa á Suðurlandsundirlendinu, og 3 millj. kr. eru ætlaðar í hina nýju Þjórsárbrú. Auk þess hafa slæðzt með aðrar brýr á Suðurlandi, þótt ekkert sé veitt til brúa á Vestfjörðum, en milljónir til brúa á Suðurlandi, þar sem flest vatnsföll eru brúuð. Ég hef því borið fram till. um það á þskj. 479, að veittar séu 100 þús. kr. að þessu sinni til þess að koma því í framkvæmd, að Selá verði brúuð. Þá eru til 160 þús. kr. og von um, að hægt sé að byrja á verkinu á öðru eða þriðja ári hér frá.

Til Múlaár í Ísafirði fer ég fram á 25 þús. kr., svo að hægt sé að hilla undir, að áin fáist brúuð í náinni framtíð.

Það er rétt, að fjárveitingarvaldið hefur oft ekki séð annað fært en að greiða allháar upphæðir til brimbrjótsins í Bolungavík. Nú er farið fram á allháa upphæð, aðallega til að greiða skemmdir þær, sem urðu á fyrra hausti. Að miklu leyti eru þessar skemmdir að kenna mistökum hins opinbera, yfirstjórnenda verksins. Ofan á önnur skakkaföll við byggingu brimbrjótsins getur Hólshreppur ekki staðið undir þeirri háu upphæð, sem hér er um að ræða. Fjvn. hefur tekið upp í sínar brtt. nokkra upphæð til brimbrjótsins, 150 þús. kr. En þarna var þörf á miklu hærri upphæð, líklegast ekki undir 300–350 þús. kr., ef þetta ætti að greiðast upp af ríkinu. Og þá ætti að vera til nýrra framkvæmda, til þess að hreinsa innan við brimbrjótinn, svo að skipastóll Bolvíkinga gæti notað mannvirkið, 50 til 60 þús. kr. En það er bráðnauðsynleg aðgerð, sem Bolvíkingar gerðu sér vonir um, að gerð yrði á síðasta sumri, en varð ekki af, af því að dýpkunarskip kom þangað ekki fyrr en komið var fram á haust og brimasamt var orðið við brimbrjótinn. Þarna liggur því múrbrotahrönglið úr mannvirkinn í skipalegunni enn þá. Og í raun og veru er brimbrjóturinn búinn að vera í meira en ár litt nothæft mannvirki. Með þeirri fjárveitingu, sem brimbrjótnum er ætluð eftir till. fjvn., verður ekki hægt að greiða það, sem hvílir á Hólshreppi sem skuldir vegna endurbóta á skemmdum á brimbrjótnum á síðasta hausti, heldur hvílir sú skuld framvegis á hreppnum, og ekki er þá eftir eyrir til þess að framkvæma þessa hreinsun á skipalegunni, sem er óumdeilanleg nauðsyn fyrir atvinnulíf þorpsbúa.

Við hv. þm. N-Ísf. höfum líka farið fram á, að Hnífsdalur fengi fjárveitingu að þessu sinni, sem næmi 150 þús. kr. En hv. fjvn. ætlaði Hnífsdal 50 þús. kr. Það er til áætlun hjá vitamálastjóra um lengingu á Hnífsdalsbryggju, og búizt er við, að sú aukning mannvirkisins kosti um 600 þús. kr. Ef þetta mannvirki væri unnið á tveimur árum að lengja bryggjuna, þá kæmi í hlut hreppsins 300 þús. kr. alls, 150 þús. kr. á ári. Og hér er því farið fram á 150 þús. kr. framlag til þessa mannvirkis á þessu ári frá ríkinu, sem væri helmingurinn af því, sem unnið yrði fyrir á ári, ef þessu væri skipt á tvö ár. Þessi brtt. er VIII. brtt. á þskj. 479. Þessi fjárveiting gæti orðið til þess, að hafizt yrði handa samkvæmt teikningu vitamálaskrifstofunnar og þessu verki lokið á tveimur árum. En samkv. till. frá fjvn. yrði þessu ekki lokið á minni tíma en 6 til 7 ára tímabili.

Enn höfum við hv. þm. N-Ísf. farið fram á það, að veittar yrðu til bryggjugerðar í Vatnsfirði 20 þús. kr. á fjári. En hv. fjvn. hefur lagt til, að þetta verði 10 þús. kr. Það er vitanlega betra heldur en ekkert, en ófullnægjandi er sú fjárveiting, ef ætti að koma þessu mannvirki í Vatnsfirði það langt áleiðis, að það yrði nothæft á árinu 1948. Til þess mundi ekki duga minna en 20 þús. kr., sem við höfum borið fram beiðni um til hv. fjvn., að veittar yrðu. — Ég hef borið fram brtt. um, að þessi upphæð verði 20 þús. kr. í stað 10 þús. kr., og vildi vænta, að sú leiðrétting fengist.

Enn fremur hef ég endurtekið á þskj. 479 ósk um, að veittar yrðu sem styrkur til bryggjugerðar að Skálavík í Mjóafirði 10 þús. kr. En bóndinn þar telur sér bráðnauðsynlegt að fá bryggju þarna. Skilyrði eru þarna ágæt til þessa, og bóndinn telur sér fært að byggja bryggjuna að öðru leyti á eigin kostnað, ef hann fengi sem svaraði 10 þús. kr. styrk til mannvirkisins. En hv. fjvn. hefur ekki séð sér fært að mæla með einum eyri til þessa hlutar.

Á fjárlagafrv. í fyrra var sérstakur liður ferjuhafnir, XI. liður á 13. gr. Nú hefur hv. fjvn. sett ferjuhafnir undir 22. gr. fjárl., heimildargr., og er það að sjálfsögðu ekki nema formsatriði. Þó kann ég miður við þetta. Þetta heyrir í eðli sínu undir hafnarmál, enda var það svo sett á síðustu fjárl. Þar er nú ætlað 400 þús. kr. sem heildarupphæð til ferjuhafna og engin sundurliðun á því. Ég þykist vita, að ætlunin sé sú, að fjárhæðin til ferjuhafna fari til ferjumannvirkisins í Hvalfirði, og er í sjálfu sér ekkert við því að segja. En ég hafði þó gert mér vonir um, að það fengist 60 þús. kr. upphæð til ferjubryggju á Melgraseyri. Það hefur áður verið byggð ferjubryggja á Arngerðareyri í sambandi við Þorskafjarðarheiðarveginn. Nú er sýnt, að annar vegarendinn á þessum vegi verður utar á Langadalsströndinni og kemur til með að verða um langa framtíð endimark hans á Melgraseyri í sambandi við bátaferðir um Djúpið. Og ferjubryggja hefur gert mér vonir um, að það fengist 60 þús. þurfti til þess að greiða hana. Í mannvirkið var ráðizt með fullu samráði við vegamálastjóra og samgmrh. Og mannvirkið var að nokkru leyti byggt þannig, að nokkuð af efninu, sem upphaflega hafði verið ætlað til Arngerðareyrarbryggjunnar, notaðist þarna, án þess að gengið væri á nokkurn hátt nærri hinu mannvirkinu. Steinker voru fyrirhuguð tvö í bryggjuna á Arngerðareyri. En við nánari athugun kom í ljós, að bryggja á Arngerðareyri gat verið fullkomlega nothæf með einu steinkeri. Og því var ákveðið af vegamálastjóra og hæstv. samgmrh., að annað steinkerið yrði notað í bryggjuna á Melgraseyri. — Ég legg til á þskj. 479, að tveir nýir liðir komi inn, þar sem um ferjubryggjur er að ræða, þannig að til ferjubryggju á Melgraseyri verði lagðar fram 60 þús. kr. og til ferjubryggju að Ögri 50 þús. kr. Ég legg til, að af þessum 400 þús. kr., sem ætlaðar eru samkv. till. hv. fjvn. til ferjuhafna, fari 110 þús. kr. til ferjuhafna við Ísafjarðardjúp, hvar annað mannvirkið er þegar byggt og þarf aðeins að bera greiðslur vegna þess.

Á heimildargr. hef ég lagt til, að heimilað yrði, að greiddar yrðu 12 þús. kr. Jóni bónda Magdal í Engidal í Skutulsfirði vegna margra ára sóttkvíar, sem hann varð fyrir vegna þess, að talin var hætta á taugaveikisýkingu frá heimili hans. Hv. þm. N-Ísf. bar þessa brtt. fram á síðasta þingi. Hún fékkst þá ekki fram, enda var hún mjög seint fram borin. En það er ekki vafi á því, að þessi bóndi hefur orðið fyrir margra tuga þús. kr. tjóni vegna þeirrar breytingar á búskaparháttum sínum, sem hann varð að gera vegna þessarar löngu og ömurlegu sóttkvíar, sem hann varð fyrir.

Það er hv. þm. kunnugt, að ömurlegt ástand hefur skapazt í Sléttuhreppi og Grunnavíkurhreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu. Og því get ég varla búizt við, að menn undri, að þar er þörf á sérstökum ráðstöfunum. Það mál hefur verið vel túlkað af fulltrúa Sléttuhreppsbúa og Grunnavíkurhreppsbúa nú í vetur. Sr. Jónmundur Halldórsson hefur alirækilega túlkað mál þessara manna við hv. þm., og einnig hafði hv. fjvn. verið skrifað bréf um þessi vandamál og farið fram á aðstoð vegna þess, hvert afhroð þessir hreppar, og þá sérstaklega Sléttuhreppur, hafa orðið fyrir vegna burtflutnings vinnuhæfasta hluta íbúanna. Eftir sitja í yfirgnæfandi meiri hluta gamalmenni og það fólk, sem verst er efnum búið og verst vinnuhæft og verst fært um að bjarga sér sjálft. Og hvíla þó á því fólki ýmsar þjóðfélagslegar byrðar, sem erfitt er undir að rísa, þegar hreppsfélögin eru orðin svona fámenn eins og nú er orðið. — Þess vegna datt okkur hv. þm. N-Ísf. í hug, að heppilegt væri að rétta þarna hjálparhönd með því að heimila ákveðna fjárhæð á fjárl. til bjargráðaráðstafana í þessum sveitarfélögum og hafa þetta aðeins á heimildargr., þannig að heimilt væri að verja þessu fé til hverra þeirra hluta, sem hreppsnefndirnar í viðkomandi hreppum og sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu kæmu sér saman um, að væri ráðlegast að verja fénu til, til þess að það kæmi að sem beztum notum. Ég hef því lagt til, að heimilað verði að verja allt að 100 þús. kr. til bjargráðaráðstafana í Sléttuhreppi í samráði við sýslunefnd og hreppsnefnd, og að á sama hátt verði varið allt að 50 þús. kr. til Grunnavíkurhrepps í samráði við sýslunefnd og hreppsnefndina þar. Það er ekki víst, að þessar heimildir yrðu notaðar til fulls, og alveg er óákveðið, til hverra hluta fjárhæðirnar yrðu notaðar. En ég tel tryggilega um það búið, að farin verði heppileg leið í að verja þessu fé til bjargráða á þessum stöðum, ef fénu er ráðstafað af sýslunefndinni þarna og viðkomandi hreppsnefndum.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. En ég hef bent á það hér, að hæstar fjárhæðir, sem til vegamála eru greiddar, fara enn sem fyrr til hinna bezt veguðu héraða, og minnstar upphæðir í þessum efnum til þeirra landshluta, sem verst eru settir með akvegi og hafa verri aðstöðu til samgangna heldur en aðrir landshlutar. Og það hefur verið gert upp á milli mjög sambærilegra héraða á Vestfjörðum. Það er fjarri því, að réttlætis hafi gætt sem skyldi í afgreiðslu fjvn. á fjárlagafrv., og harma ég það mjög, að hægt sé að benda á svona áberandi misfellur eins og hafa átt sér stað ár eftir ár að því er þetta atriði snertir, og getur það alls ekki verið sök eins manns. Það er ekki hægt að skýra þessar misfellur með því, þó að hv. form. fjvn. eigi þar í hlut sem aðili fyrir hérað á Vestfjörðum. Enda er það engin réttlæting á því, þótt slíkri aðstöðu væri beitt og aðrir nm. létu það viðgangast.

Þá hef ég gert grein fyrir þeim að mínu áliti mjög hóflegu till., sem ég ber fram til þess að bæta úr þessu ósamræmi, og verð því fastlega að vænta þess, að hv. alþm. séu þeirri réttlætistilfinningu gæddir, að þeir geri á þessu einhverjar verulegar leiðréttingar.