11.03.1948
Sameinað þing: 52. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

129. mál, fjárlög 1948

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða um fjárl. í heild eða brtt. meiri hl. fjvn., en ég flyt nokkrar brtt., sem ég vildi segja nokkur orð um.

Í fjárlfrv. fyrir 1948 hefur hæstv. fjmrh. séð sig tilknúinn til að lækka þann styrk, sem verja á til íþróttaiðju í landinu, — lækka styrkinn til íþróttasjóðs. Mér fannst þetta furðuleg og einkennileg ráðstöfun, þegar athugað er, hve þörfin er brýn, að sú fjárveiting, sem verið hefur, standi óhögguð, þar sem þessi lækkun á styrknum hlýtur að leiða til þess, að margir erfiðleikar verða á vegi þeirra, sem áhuga hafa á íþróttum, og þeirri menningarstarfsemi, sem þar er unnin. Hins vegar undraði það mig enn meir, þegar ég sá, að meiri hl. fjvn. lét sér ekki nægja þessa skerðing, heldur minnkaði framlag til íþróttasjóðs um 100 þús. kr., úr 700 þús. í 600 þús. Ég skil ekki þessar ráðstafanir. Ég hef heyrt, að röksemdin fyrir þessu hafi verið sú, að vegna fjárhagsráðs og þeirrar tregðu, sem þar er á byggingarleyfum, væri ekki eins mikil þörf á komandi árum til íþróttamannvirkja og verið hefur. Hafi meiri hlutinn byggt þetta á þessu, þá vil ég benda á það, að hér er um misskilning að ræða. Það er fjöldi íþróttamannvirkja í landinu, sem er á döfinni og fjármagn þarf til, og þótt ekki sé um beinar nýbyggingar að ræða, þarf nauðsynlegt fé til þess að ljúka mannvirkjum, sem eru hálfnuð, svo að styrkur sá, sem sjóðurinn átti að fá, er of lítill, Þar að auki má benda á, að þótt ekki sé um bein íþróttamannvirki að ræða, t.d. sundlaugabyggingar, þá eru ýmis önnur mannvirki, sem þurfa fjármagn, t.d. íþróttavallagerð. því að ástandið í þeim málum er ekki gott. Ég vil því alvarlega beina því til þm., að þeir samþykki ekki þá brtt., sem fram er komin frá meiri hl. fjvn., heldur brtt. þá, sem minni hl. leggur til, þ.e. að íþróttasjóður fái sömu upphæð og hann fékk 1947, eða 1 millj., eða ekki minna en fjmrh. lagði til í fjárlfrv., 100 þús. kr.

Á þskj. 479 flyt ég brtt. við 13. gr. um að hækka styrk til bókasafns verkamanna úr 4000 kr. í 10000. Ástæðan fyrir þessu er sú, að þetta bókasafn verkamanna er mjög mikill menningarauki fyrir þá verkamenn, sem þessa vinnu stunda.

Þá flyt ég brtt. við þskj. 461. Það er brtt. meiri hl. fjvn. við 13. gr. í sambandi við hafnagerðir og lendingarbætur. Brtt. er um það, að Hafnarfjörður fái 350 þús. í stað 250 þús. Það hefði að sjálfsögðu verið eðlilegra og maklegra, að upphæðin hefði verið hærri en 350 þús., en ég hef aðeins látið mér nægja að setja hér fram sömu upphæð og meiri hl. fjvn. hefur fallizt á á öðrum stað, þ.e. Akranesi.

Þá hef ég komið með brtt. við fjárl. um það, að inn komi nýr liður: Til lesstofu fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði 5000, til vara 3000. Í fjárl. er gert ráð fyrir ákveðnum fjárupphæðum til lesstofa, hliðstæðra stofnana, viða á landinu, t.d. í Rvík og á fleiri stöðum. Mér virðist eðlilegt, að það sama eigi að ganga yfir alla í þessu sambandi. Í Hafnarfirði er starfandi verkalýðshreyfing, eins og annars staðar á landinu, og hefur fulltrúaráðið komið upp vísi að bókasafni.

Þá flyt ég brtt. um, að styrkur til Leikfélags Hafnarfjarðar verði hækkaður úr 3000 kr. í 6000 kr. Ástæðan fyrir þessari brtt. er sú, að starfsemi þessa félags, sem hefur verið virt þó það af Alþ., að það hefur styrkt hana á undanförnum árum, er mjög þýðingarmikil fyrir Hafnarfjörð, og má segja, að starfsemi Leikfélags Hafnarfjarðar sé eins þýðingarmikil fyrir Hafnarfjörð og Leikfélags Akraness fyrir Akraneskaupstað, en fjvn. gerir ráð fyrir, að Leikfélag Akraness fái 6000.

Þá flyt ég á þskj. 480 brtt. ásamt hv. 8. þm. Reykv. (SG). Sú prentvilla hefur slæðzt inn, að nafn hv. 8. þm. Reykv. hefur fallið niður sem meðflm. að till. Þessi brtt. gerir ráð fyrir, að styrkur til Alþýðusambands Íslands verði hækkaður úr 10 þús. kr. í 25 þús. kr. Ég geri ekki ráð fyrir, að ég þurfi að eyða mörgum orðum að því að rökstyðja þá brtt., þar sem Alþýðusamband Íslands er ein stærstu samtökin í landinu og vinnur þarft verk. — Þá er og gert ráð fyrir, að við 15. gr. komi nýr liður, þar sem gert er ráð fyrir framlagi til Alþýðusambands Íslands til útgáfu á sögu verkalýðshreyfingarinnar og til útgáfu á söngvasafni og til söngiðkana á vegum verkalýðssamtakanna. Í fjöldamörg ár hefur verið tilfinnanlegt fyrir verkalýðshreyfinguna, vegna þess mikla hlutverks, sem hún hefur haft, að hafa ekki neina slíka útgáfu. Það hefur verið hafinn undirbúningur að þessu verki, og hefur verið skrifað ýmsum félögum á landinu og þau beðin að afla heimilda til þessarar söguútgáfu. Ég man í sambandi við þessa brtt., að þetta bar á góma í þinginu í fyrra og þá var því haldið fram, að sá kafli. sem gefinn hafði verið út, væri svo persónulegur og gæfi svo rangar hugmyndir um verkalýðshreyfinguna, að vitlaust væri að halda áfram slíkri útgáfu. Það var bent á þá röksemd, að ekkert hefði verið gefið út enn þá af sögu verkalýðshreyfingarinnar, svo að ekki er hægt að segja, að það sé vitlaust, sem komið sé, enda mundi að þessu verða unnið hlutdrægnislaust og sannleikanum samkvæmt.

Að því er b-lið till. snertir, um styrk til söngnáms og söngiðkana, má segja, að það sé mjög mikið menningaratriði fyrir sönginn í landinu, að alþýðan hafi söngvasafn, og þess vegna er þessi brtt. fram borin.

Ég hef hér með örfáum orðum gert grein fyrir þeim brtt., sem ég hef flutt ásamt hv. 8. þm. Reykv. (SG). Mér finnst þessar till. svo sanngjarnar, að ég trúi ekki öðru en þær finni náð fyrir augum þm. Um sumar þeirra vil ég segja það, að form. fjvn. sagði í fyrra, að hann mundi hafa þær til athugunar, ef þær kæmu til n. áður en gengið væri frá till. n. N. hefur unnið ár frá því í fyrra, og enn hafa ekki þessar till. fundið náð fyrir augum hennar til þessarar stundar. Vona ég, að hér verði um stefnubreyt. að ræða. Ég sem sé vona því, að þessar till. verði samþ.