12.03.1948
Sameinað þing: 53. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

129. mál, fjárlög 1948

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram á þskj. nr. 480,VHI ásamt hv. þm. S-Þ. eina litla brtt., sem er um smávægilegan styrk til Geirs Sigurðssonar fyrrv. lögregluþjóns. Þessi maður slasaðist fyrir mörgum árum, þá ungur maður. Það eru nú nær 20 ár síðan. En þegar hann slasaðist, var hann við sín skyldustörf, og hefur hann ekki fengið heilsuna síðan. Hann hefur að kalla má algerlega verið frá störfum síðan. Og ekki nóg með það, að hann hafi ekki verið vinnufær, heldur hefur hann liðið meiri og minni þrautir alla tíð, síðan hann varð fyrir þessu slysi. Reykjavíkurbær hefur veitt þessum manni nokkurn lífeyri, en allt of lítinn til þess, að hann geti ásamt fjölskyldu sinni haft lífsframfæri af því. — Þar sem þessi maður gegndi að nokkru leyti störfum í þáguríkisins, þegar hann varð fyrir þessu óhappi, er ekki nema sanngjarnt, að ríkið leggi fram fé til lífsframfæris honum á móti Reykjavíkurbæ. Á þinginu í fyrra var þessum manni veittur nokkur styrkur, og þess vegna finnst mér ekki nema sjálfsagt, að það sé ekki niður fellt nú. Það er ekki von til þess, að þessi maður geti unnið að neinu, sem hann hafi tekjur af, hér eftir. Heilsu hans er þannig farið. Sá litli framfærslueyrir, sem hann fær bæði frá Reykjavíkurbæ, og þeir fjármunir, sem hann kann að fá gegnum almannatryggingarnar, er hvort tveggja svo lítið, að engin leið er fyrir fjölskyldumann að bjargast af því. Mér finnst það vera nógu mikil raun fyrir mann, sem fyrir því verður á ungum aldri að hafa tapað möguleikunum til þess að bjarga sér og hefur síðan liðið miklar þrautir, þó að ekki bætist þar við, að hann eigi í stórkostlegum erfiðleikum með að lifa lífinu sökum efnaskorts og fátæktar og geti ekki séð sér og sínum farborða og að hann hafi það á tilfinningunni til viðbótar, að fjölskylda hans liði skort. — Ég vænti þess, að hæstv. Alþ. fallist á þessa brtt. mína. Ég held, að þetta mál sé þannig vaxið, að hæstv. Alþ. geti ekki með góðri samvizku daufheyrzt við þessari málaleitun.