12.03.1948
Sameinað þing: 53. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

129. mál, fjárlög 1948

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér þykir mjög leitt, að hv. þm. Ísaf. er ekki hér staddur í salnum. Ef menn vissu af honum einhvers staðar í húsinu, væri skemmtilegra, að hann væri hér, því að ég þyrfti að svara nokkrum orðum af því, sem hann var að minnast á í ræðu sinni hér áðan. Ég álít, að það væri mjög nauðsynlegt að ræða ýtarlega um áætlun fyrir þjóðarbúskapinn árið 1948. Og eins og ég hef tekið fram, þá er mjög erfitt að afgr. þessi fjárl., án þess að fyrir liggi fullkomlega samþ. af Alþ. sú fjárhagsáætlun, sem þar eigi að leggja til grundvallar. — En þegar hv. þm. Ísaf., sem sæti á í fjárhagsráði, var áðan að svara ádeilum, sem höfðu komið fram frá mér og í öðru lagi frá hæstv. fjmrh. og enn fremur frá hv. form. fjvn., þá virtist hann í raun og veru hafa mjög litlu þar til að svara. Hann byrjaði á því að segja, að viðskiptanefnd hefði farið hraðar að því að úthluta gjaldeyris- og innflutningsleyfum heldur en áætlað var og búið væri að úthluta gjaldeyrisleyfum fyrir 150 til 160 millj. kr., ef ég hef tekið rétt eftir. Ég vil nú spyrja: Ef búið er, meira að segja án þess að ríkisstj. viti af, að úthluta gjaldeyrisleyfum fyrir þetta ár fyrir 150 til 160 millj. kr., hverjir hafa fengið þessi leyfi og ettir hvaða reglum hefur þessum leyfum verið úthlutað? Það eru ákveðin fyrirmæli í sambandi við fjárhagsráðslögin um það, hvernig úthlutað skuli þessum leyfum. Og það er vitanlegt, að frá því að ríkisstj. var mynduð og fjárhagsráð sett á laggirnar hefur staðið deila innan hæstv. ríkisstj. og innan fjárhagsráðs um það, eftir hvaða reglum eigi að úthluta þessum leyfum. Nú er upplýst hér í dag af einum meðlim úr fjárhagsráði, að búið sé að úthluta leyfum fyrir fullum helmingi af því, sem eigi að flytja inn á þessu ári. Þetta er gert, að því er virðist, án þess að ríkisstj. viti um það og án þess að gefið sé upp, eftir hvaða reglum þetta sé gert. Það er vitað, að Alþ. hefur sett ákvæði þessu viðkomandi. En það virðist, að þessari úthlutun hafi verið hagað eftir reglum, sem hafa verið algerlega duldar almenningi og í engu samræmi við nokkur lög eða reglur. Og fyrst við fáum þessar upplýsingar nú um það, hve mikil leyfi er búið að veita, sem hæstv. ríkisstj. virðist ekki hafa vitað um áður, þá væri gott að fá upp gefið, eftir hvaða reglum þetta hefur verið gert. Það er leitt, að hv. þm. Ísaf. er ekki hér nú til þess að svara þessari fyrirspurn. En það fer þá að vera nokkuð einkennilegt með okkar þjóðarbúskap, ef gefnar eru upplýsingar um, að embættismenn þjóðarinnar framkvæmi þetta og þetta verk, án þess að ríkisstj. hafi vitað um og án þess að farið hafi verið eftir nokkrum lögum eða reglum, sem settar hafa verið af Alþ. og ríkisstj. Hv. þm. Ísaf. sagði, að viðskiptanefnd hefði farið hraðar að úthlutun innflutningsleyfa en ráð hefði verið fyrir gert. Mig langar til að spyrja: Hvernig var gert ráð fyrir af hálfu fjárhagsráðs, að farið yrði að um úthlutun þessara leyfa? Var gert ráð fyrir að fara eitthvað hægar í það að úthluta þeim en þetta, þannig að ekki væri búið að úthluta þetta miklum leyfum í marz, heldur í apríl eða maí, og hefur þá viðskiptanefnd þarna farið þvert á móti því, sem fjárhagsráð ætlaðist til? Hafa þessar leyfisveitingar ekki verið í samræmi við það, sem fjárhagsráð samþykkti? — Mér virðist hver einasta upplýsing hv. þm. Ísaf. um þessi efni vera á þá lund, að það sé, megnasta stjórnleysi í þessum hlutum hjá þessari undirnefnd fjárhagsráðs, viðskiptanefnd.

Þá sagði hv. þm. Ísaf., að innflutningsleyfi hefðu verið veitt utan við áætlun. Og ég gat ekki betur heyrt en að það væri upp á 50 til 60 millj. kr., sem veitt hefðu verið leyfi utan við áætlun, og mest á vörum, sem hér hafa legið. Nú langar mig til að biðja um skýringar. Er áætlunin, sem ráðgerð er um gjaldeyris- og innflutningsleyfi, eitthvað sérstakt út af fyrir sig, en svo eigi að veita fyrir utan hana svo og svo mikið af slíkum leyfum? — Ég veit ekki, hvers konar stjórnarhættir þetta eru. Ef einhverjar vörur liggja hér á hafnarbakkanum, eru þær þá rétthærri heldur en vörur, sem utanlands eru og kannske búið að kaupa? Og hvort eru þessar vörur, sem liggja á hafnarbakkanum án innflutningsleyfa, rétthærri en vörur, sem menn hafa innflutningsleyfi fyrir á þann hátt, sem er samkvæmt viðurkenndum reglum? Og ef vörur liggja á hafnarbakkanum utan við áætlun um innflutning, eiga þá eigendur þeirra vara að vera rétthærri gagnvart áætlun um innflutning en menn, sem aflað hafa vara til landsins eftir réttum lögum og reglum? Ég held, að hv. þm. Ísaf. ætti að gefa þm. dálitla skýringu á þessu háttalagi, — ef það er ekki orðið svo með embættismenn í þjóðfélaginu, sem hafa fengið fulltingi hjá ríkisstj., að þeir álíti sig standa ofar Alþ., svo að þeir þurfi ekki að svara því til saka fyrir gerðir sínar. Ég veit ekki til þess, að þær þjóðir, sem hafa áætlun um notkun síns gjaldeyris, veiti nokkuð af gjaldeyri aukalega, utan við þá áætlun.

Þá sagði hv. þm. Ísaf., að það síldarlýsi, sem reiknað hafi verið með um áramótin, að til væri, mundi að öllum líkindum hafa verið reiknað of hátt í áætlun fjárhagsráðs. En hvað er síldarlýsið reiknað hátt í áætlun fjárhagsráðs? Hann talaði einnig um,að það muni hafa verið selt til Englands samkv. þeim samningi, sem gerður hafi verið, fyrir lægra verð. Má ég spyrja: Fyrir hvaða verð var lýsið selt til Englands? Það er upplýst í Vísi, að búið sé að gera samning við Tékkóslóvakíu. Þangað mun vafalaust vera selt síldarlýsi líka. Fyrir hvaða verð er síldarlýsi selt þangað? Það er vitanlegt, að þangað hefði verið hægt að selja fyrir hæst verð síldarlýsi. Það væri mjög ánægjulegt að fá upplýsingar um þetta. Og það er slæmt, að það sé skellt fram upplýsingum, eins og gert var áðan, án þess að þm. geti fengið að vita, hvernig þessi mál raunverulega standa.

Þá kom hv. þm. Ísaf. að því að segja, að vertíðin hefði brugðizt. Ég veit, að hv. þm. Ísaf. hefur nú upp á síðkastið verið voða-svartsýnn. En mér finnst þurfa alveg ógurlega svartsýni til þess að finna það út, að vertíðin hafi brugðizt hér á Íslandi. Ég á satt að segja voða erfitt með að skilja það. Ég veit ekki betur en að auk þorskvertíðarinnar hafi gerzt sá hlutur hér, að aukavertíð hafi komið upp í hendurnar á okkur. sem fjárhagsráð í sinni djúpu speki hafi alls ekki reiknað með, og að þessi vertíð hafi gefið álíka mikinn gjaldeyri eins og tvær sumarsíldarvertíðir undanfarið. Svo veit ég ekki til þess heldur enn sem komið er, að það hafi farið þannig með þorskvertíðina, að hægt sé að segja, að hún hafi brugðizt. Hún er vafalaust minni nú heldur en verið hefur. En a.m.k. mestur hlutinn af henni er eftir enn þá. Og það hefur skapazt ný vertíð, sem þegar er búin að gefa okkur álíka mikið og tvær sumarvertíðir. Ef menn segja nú eftir þessar gjafir, að vertíð hafi brugðizt, sannandi þó um leið, að þeir hafi ekki reiknað með, að vetrarsíldarvertíð yrði, þá verð ég að segja, að slíkt mundi einhvern tíma í gamla daga hafa þótt af fólki, sem þá lifði, vera að misvirða gjafir skaparans. Ég skil ekki, hvernig menn ættu að haga sér í illu árferði á Íslandi, ef rétt væri að barma sér, þegar svona gengur. — En það má vera, að hv. þm. Ísaf. hafi haft allt annað en þetta í huga, nefnilega að hann hafi verið að hugsa um að gera hér út á atvinnuleysi og að fjárhagsráð hefði þurft að skapa það, en sú vertíð hafi brugðizt. En það get ég ekki harmað, þó að slík vertíð bregðist. Það má vera, að í augum hans sé síldarvertíðin í Hvalfirði óttaleg ógæfa, vegna þess að hún hafi eyðilagt öll plön, sem fjárhagsráð hafi haft. En Hvalfjarðarsíldin hefur komið sér vel fyrir þjóðarbúið, þannig að vertíð þjóðarbúsins hefur tekizt, en vertíð fjárhagsráðs brugðizt. Ég verð að segja, að ettir ræðu hv. þm. Ísaf. finnst mér ekkert undarlegt, þó að hæstv. fjmrh. og hv. form. fjvn. hafi eitthvað að athuga við það, hvernig fjárhagsráð starfar og hugsar, ef ræða hv. þm. Ísaf. er spegilmynd af því, hvernig hlutirnir ganga þar fyrir sig.

Svo kom hv. þm. Ísaf. inn á það, hvernig það væri um úthlutun viðvíkjandi gjaldeyrinum og hve allt væri erfitt þar, gjaldeyririnn væri þrotinn, það lægi ekkert fyrir til þess að kaupa fyrir það, sem við þyrftum að fá fyrir dollara. Mér liggur við að spyrja: Hvað hefur fjárhagsráð gert eða lagt til, til þess að reynt yrði að afla gjaldeyris og til þess að reyna að tryggja, að að gjaldeyrisöflun hjá þjóðinni yrði unnið af fullum krafti? Það væri nú hlutverk fjárhagsráðs að reyna að skipuleggja þessa gjaldeyrisöflun. Fjárhagsráð átti að gera áætlanir um okkar útflutning og innflutning. Það var þess vegna alveg sérstakt hlutverk þessa ráðs að reyna að hugsa um, hvernig það gæti sem allra öruggast búið í haginn fyrir þjóðina hvað þetta snertir. Fjárhagsráð átti að gegna þessu hlutverki fyrir ríkisstj. og leggja fyrir ríkisstj. einmitt, hvað hægt væri að gera í þessum efnum. Hvernig hefur þetta gengið? Auðvitað vissu fjárhagsráðsmennirnir, að dollaragjaldeyririnn var genginn til þurrðar. Þeir vissu, hvaða vörur vant var að kaupa fyrir dollara. Hvað hafa þeir unnið að því að útvega dollaragjaldeyri? Þeir reikna með 140 millj. kr. virði, sem þjóðin þurfi að kaupa á árinu fyrir dollara. Hvaða áætlun er til um það, hvernig eigi að afla þessara dollara? Hún er ekki til. Þeir segja bara: Dollararnir eru þrotnir hjá okkur, og við vitum ekki, hvar við eigum að fá dollaragjaldeyri. — Er það meiningin hjá þessum mönnum, að svona eigi þetta að ganga til og af því að þeir sjái ekki nein úrræði, þá eigi ekkert að gera? Undir venjulegum kringumstæðum ættu þeir að segja af sér og tilkynna, að þeir geti ekki átt við þetta. — Ég kom inn á það í haust í ræðu, skömmu eftir að þing kom saman 1. október, að ein af þeim ráðstöfunum, sem við þyrftum að gera, væri að reyna að afla okkur þeirra vara, sem við þyrftum að fá, á þann hátt, sem ýmsar aðrar þjóðir í Evrópu voru að gera. Ég benti á það þá, að ýmsar þjóðir í Evrópu væru að gera samninga sín á milli til þess að tryggja sér á þann hátt þær vörur, sem þær þyrftu að fá. Hver einasta þjóð annars staðar í Evrópu hefur meiri eða minni áætlunarbúskap hjá sér til þess að tryggja sér þannig fyrir fram þær vörur, sem þær þurfa að fá. Ég vakti þá athygli á, að þetta væri nauðsynlegt fyrir okkur að gera líka, að gera þá samninga strax í haust s.l. til þess að tryggja okkur markaði fyrir okkar vörur þetta ár og jafnvel fleiri ár. Ég benti á, að það væri verið að gera slíka samninga til margra ára, m.a. af þeim þjóðum í Austur-Evrópu, sem hafa verið viðskiptaþjóðir okkar. Og ég lagði áherzlu á, að við yrðum að nota þetta tækifæri, sem þá var til samninga, til þess að það gengi okkur ekki úr greipum. Og fjárhagsráð, sem átti að semja áætlun um það, hvað af vörum við þyrftum að flytja til landsins, hefur vafalaust vitað um þetta. Og við hefðum getað gengið út frá því, að þetta ráð hefði lagt till. fyrir ríkisstj. um að gera þessa samninga og um að tryggja okkur nauðsynlegar innflutningsvörur, svo sem kornvörur, — sem hv. þm. Ísaf. taldi, að við þyrftum að borga dollara fyrir, — vegna þess að flestar þjáðir í Evrópu hafa verið að gera samninga um að fá kornvörur frá Sovétríkjunum, sem hafa verið eitt hið bezta viðskiptaland okkar á undanförnum árum. Fóðurvörur hefur verið hægt að kaupa þaðan líka í stórum stíl. bílagúmmí er gengið út frá í áætlun fjárhagsráðs, að sé hægt að fá keypt frá Tékkóslóvakíu. Allar þessar vörur, sem hv. þm. Ísaf. nefndi sérstaklega áðan, að við þyrftum að borga dollara fyrir, er vitað um, að ýmsar þjóðir Evrópu vilja gera samninga við Sovétríkin um til að fá þær þaðan. Það er kapphlaup nú um þessar vörur í heiminum, sérstaklega kornvörur. Og sé maður í kapphlaupi um að ná einhverju, þá gildir um að vera fljótur. Það er mjög óskynsamlegt fyrir menn, sem eru í kapphlaupi, að standa kyrrir á sama stað, og maður nær venjulega ekki í það, sem maður þarf, með þeim undarlega hætti fjárhagsráðs. Með því er aðeins hægt að sitja af sér öll tækifæri. Hugsum okkur, ef sú aðferð hefði verið höfð í stað þess, sem gert var, þegar við gerðum togarakaupin, að beðið hefði verið í tvö ár með að kaupa þá. Hvernig hefði þá farið? — Það hefði verið hægt að gera þessa samninga, sem ég var að ræða um, í haust s.l. En engar till. hafa komið frá fjárhagsráði til hæstv. ríkisstj. um þetta, — frá því ráði, sem átti að gera till. um það, á hvern hátt bezt væri að haga innflutningnum, og átti að vera þannig sérfræðingur ríkisstj. um þetta. Það væri eðlilegt nú, þegar þessir menn koma fram hér á Alþ. og kvarta yfir því, að þeir viti ekkert, hvað þeir eigi að gera, að sp9rja, hvers vegna þeir hafi sleppt tækifærunum, sem voru fyrir hendi í haust til að semja við Austur-Evrópuríkin. Það er ekki heil brú í þeirri áætlun, sem gerð hefur verið um útflutning og innflutning til landsins. Og hér verður hv. þm. Ísaf. sem fjárhagsráðsmaður að segja við okkur: Við vitum ekki, hvar við eigum að fá þessa peninga, sem við þurfum til innflutningsins.

Ég man, hvernig Framsfl. deildi á okkur, sem vorum í nýbyggingarráði, fyrir það, hvað við tækjum há laun. Og hæstv. núverandi menntmrh. spurði mig einu sinni, hvort ég skammaðist mín ekki fyrir að taka svona há laun í nýbyggingarráði. Ég býst við, að eftir að Framsfl. hefur fengið tvo fulltrúa í fjárhagsráði, þá hafi hæstv. menntmrh. ekki þurft að skammast sín fyrir þeirra laun. En ég hef þó heyrt, að launin hafi verið hækkuð við fjárhagsráð frá því, sem nýbyggingarráð hafði, og starfslið hafi aukizt verulega og húsnæði verið aukið stórum. Og enginn maður fær þó að sjá framkvæmdir eða ráðstafanir, sem þetta ráð hefur gert, sem sérstaklega hafa orðið þjóðinni til nokkurra heilla. Hv. þm. Ísaf. vildi fara hér í meting um, hvað unnið hefði verið af þessum ráðum hvoru fyrir sig. Og ég skal gjarnan taka upp þann samanburð, hvenær sem hann vill, um störf þessara ráða. Í tíð nýbyggingarráðs voru unnin öll þau stórvirki með aðstoð þess, sem fleyta enn þá núv. hæstv. ríkisstj. En af hálfu fjárhagsráðs hefur ekkert verið gert annað en að reyna að skera niður og hefta framkvæmdir landsmanna. — Ég held þess vegna, að hv. þm. Ísaf. ætti hér að standa fyrir sínu máli og sínu ráði, ef hann vill taka upp umr. um það, sem hefur verið mjög erfitt að fá hann út í fram að þessu. Ég tók eftir því, að í ræðu sinni hér áðan svaraði hann ekki einu einasta orði af því, sem ég talaði um í minni ræðu. Hins vegar mun hann hafa haft gamla punkta hjá sér, sem hann hefur e.t.v. langað til að svara fyrir einu eða tveimur árum síðan. En það eina, sem hann talaði um úr minni ræðu, var, að ég hefði sagt, að það yrði að vísa á það, þegar um gjaldeyrisúthlutun er að ræða, sem ekki væri til, ef menn vildu hafa áætlunarbúskap. Og út yfir þetta var hann að breiða sig. En á hvað ávísaði viðskiptanefnd, þegar hún, sem hann var að tala um, gaf út gjaldeyris- og innflutningsleyfi upp á 160 millj. kr.? Var sá gjaldeyrir til? Eða eru þessar 160 millj. kr. ekki til? Ég býst við, að hv. þm. ísaf. verði að viðurkenna, að öll „praxís“ í áætlunarbúskap verði að byggjast á því að ávísa á það, sem ekki er til, en menn hafa skynsamlega ástæðu til að ætla, að verði til á þeim tíma, sem búast má við, að gjaldeyrisleyfin komi til framkvæmda. Afleiðing þess að vísa ekki á það, sem ekki er til, yrði sú, að hráefni, sem tekur oft 6 mánuði að fá, frá því að gjaldeyrisleyfi er gefið út til kaupa á því, mundi koma allt of seint, ef ætti að fara þá fyrst að gefa út gjaldeyrisleyfi fyrir kaupum á því, þegar gjaldeyririnn lægi fyrir, og á þeim tíma kannske, sem þyrfti að fara að nota það hráefni. Það væri eins og við ætluðum ekki að veita gjaldeyrisleyfi fyrir kaupum á tækjum til þess að veiða með fisk, fyrr en farið væri að veiða fiskinn. Þess vegna er ekki til neins að reyna að snúa þarna út úr. Ég veit líka, að þessi seinagangur, sem verið hefur á störfum fjárhagsráðs og undirnefndar þess, hefur valdið stórtjóni. Íslenzkur iðnaður hefur sýnt það. Og ég býst við, að það sé orðið fjárhagsráði ljóst, að það þarf að gefa út gjaldeyrísleyfi fyrir hráefnum til iðnaðarins alllöngu áður en á að fara að nota hráefnin til framleiðslunnar. Og m.a. vegna fyrirhyggjuleysis fjárhagsráðs hefði atvinnuleysi skollið yfir hér í Reykjavík í ríkum mæli, ef síldin í vetur hefði ekki komið í veg fyrir það.

Þá talaði hv. þm. Ísaf. um, að nýbyggingarráð hefði gefið út ávísanir á stofnlánadeildina, en það var skilyrði til þess að fá lán úr henni, að meðmæli nýbyggingarráðs lægju fyrir, og þau meðmæli voru gefin út til þeirra fyrirtækja, sem hentug þóttu til þess, að þjóðin gæti aflað sér gjaldeyris, því að engan þeirra manna, sem fengust við framkvæmdir til að afla gjaldeyris, mun hafa grunað, að nokkrir menn stjórnuðu þannig, að eftir að búið væri að kaupa framleiðslutækin, mundu þau verða látin stoppa vegna fyrirhyggjuleysis. Og slíka stöðvun er ekki hægt að gera, nema meira eða minna vitlausir menn stjórni þjóðarbúinu. Okkar þjóðarbú getur ekki verið svo fátækt, að það geti ekki rekið þau framleiðslutæki, sem það hefur vinnuafl heima fyrir til að vinna við.

En í sambandi við ádeilu hv. þm. Ísaf. viðkomandi stofnlánadeildinni, þá langaði mig til þess að spyrja hann, — eða ef hæstv. viðskmrh. væri hér, gæti hann líka svarað. Það var vitað í haust, að það mundi kreppa að um fé stofnlánadeildarinnar. Það hefur komið í ljós, að þrátt fyrir þær 100 millj. kr., sem seðlabankinn lætur stofnlánadeildina fá til lána, þá vantar fé til að lána til 20 mótorbáta. Og það var upplýst í haust, að bæði stjórnendur stofnlánadeildarinnar og fjárhagsráð voru sammála um skilning á þessu þannig, að það ætti ekki að lána ríkustu togarafélögunum í Reykjavík, fyrr en þau hefðu lagt fram að sínu leyti úr þeim nýbyggingarsjóðum, sem þau áttu, þannig að fyrst yrðu þau framlög lögð fram úr nýbyggingarsjóðunum. Og þetta var álit bankaráðs Landsbankans þá. En viðskmrh., ráðh. Alþfl., sem hefur yfir bankanum að segja, hann gefur út bréf með nýrri skýringu á þessari grein, sem hefur það í för með sér, að það voru teknar 8 millj. kr. út úr stofnlánadeildinni til þess að lána þeim togarafélögum, sem mest áttu í nýbyggingarsjóðum sínum, án þess að séð væri fyrir því, að nægilegt lánsfé væri fyrir hendi handa öðrum togarafélögum eða bæjarfélögum, sem höfðu keypt togara, og þeim mótorbátaeigendum, sem margir og þar með bæði stjórn stofnlánadeildarinnar og fjárhagsráð höfðu reiknað með, að ættu að fá þessi lán. En viðskmrh. Alþfl. breytir með sínu bréfi túlkun á þessari reglu, og það hefur þær afleiðingar, að 8 millj. kr. eru teknar út úr stofnlánadeildinni til aðila, sem áttu a.m.k. frekar að sitja á hakanum um að fá lánin heldur en fyrirtæki eins og togarar bæjarfélaga og fátækir mótorbátaeigendur. Og hvernig stóð á þessari ávísun á stofnlánadeildina? Um hverja var verið að hugsa þarna? Ég er ekki að drótta neinu að hæstv. viðskmrh., þó að hann sé togaraeigandi. En af hverju er hæstv. viðskmrh., samflokksmaður hv. þm. Ísaf., að gefa út svona ávísanir á sjóð, sem lítið er til í?

Þá talaði hv. þm. Ísaf. um, að skortur á gjaldeyri væri höfuðástæðan fyrir því, að ekki væru gefin út gjaldeyrisleyfi í tíma, nema til þess að stöðva atvinnureksturinn í landinu, eins og nú hefur átt sér stað um stóriðjuna. Nú spyr ég hv. þm. Ísaf.: Hvernig er um þessi gjaldeyrisleyfi, sem gefin hafa verið út? Er til gjaldeyrir fyrir þeim öllum, eða hefur hans eigin viðskiptanefnd, undirnefnd hans og fjárhagsráðs, hefur hún gert það, sem hann var að gera grín að, að ég hefði sagt, að þyrfti að gera, gefið út gjaldeyrisleyfi, þó að skortur væri á gjaldeyri? Og öll ræða hv. þm. Ísaf. gekk út á það að tala um þann mikla skort á gjaldeyri og ekki sízt dollaragjaldeyri — og samt sagði þessi sami hv. þm., að gefin hefðu verið út gjaldeyrísleyfi upp á 150 eða 160 millj. kr., án þess að þessir herrar hefðu hugmynd um, hvernig ætti að afla þeirra milljóna í erlendum gjaldeyri. — Ég hygg, að ef hv. þm. Ísaf. hefði ekki geymt þessar lummur svona lengi, þá hefðu þær kannske getað verið góðar að sumu leyti. En að koma með þær í sömu ræðunni og hann verður að geta þessar yfirlýsingar, annars vegar um gjaldeyrisleyfin, sem veitt hafa verið, og hins vegar um þann gjaldeyrisskort, sem fyrir hendi væri nú, það var ákaflega óhöndulegt.

Þá talaði hv. þm. Ísaf. um, að ég tilheyrði ógurlegum flokki manna, sem væri að reyna að eyðileggja atvinnuvegina. Jahá, hann vildi nú ekki segja, að það væri ekki e.t.v. hægt að forða mér út úr því að vera í þessum voðalega flokki. Hann vildi meina, að ég ætti að forða mér frá því. Einu sinni hafði ég talað um það ásamt fleiri mönnum, að það ætti að gera stórt átak í íslenzku atvinnulífi, og það stóð mjög tæpt, hvort flokkur háttvirts þm. Ísaf. fengist til að vera með í því átaki eða ekki. Það hafði verið barizt mjög hatrammlega um það í miðstj. þess flokks, og á því valt það, hvort það mundi takast að framkvæma stórvirki í íslenzku atvinnulífi, og það var þannig um átökin innan þess flokks, að það voru 10 atkv. með því að fara í stj. til þess að bjarga atvinnuvegunum og 10 á móti, en hv. þm. Ísaf. var ekki viðstaddur, og var símað til hans um það, hvaða afstöðu hann vildi taka. Hann hafði verið að halda ræðu á fundi, þegar kallað var á hann í landssímann, og var að tala um að nú væri búið með þessa stjórnarmyndun, því að auðvitað mundu þessir voðalegu kommúnistar eyðileggja þetta. Svo greiddi hann atkv. með að fara í stj. og settist svo í ráðherrastól, og ef til vill hefur það fleytt þeirri stj. af stað, og hann tók þátt í að starfa með kommúnistum, sem hann úthrópar nú mest og segir, að séu að eyðileggja atvinnulífið. Nú hefur þessi hv. þm. fengið að sjá, hvernig sú stj., sem hann nú hefur fengið að taka forustu fyrir í fjárhagsráði, fer að og hvernig atvinnulífinu er stjórnað undir yfirstjórn hans og annarra slíkra manna, og ég býst við, að það sé fróðlegt fyrir söguna seinna meir að bera það saman, hvernig þar hefur gengið. Það er ekki til neins að koma fram með upphrópanir um, að við sósíalistar séum að eyðileggja atvinnuvegina. Okkur hafði tekizt að bjarga okkar atvinnuvegum, þegar þeir hefðu verið eyðilagðir annars, þó að við yrðum að stíga það stóra spor áfram með því að geta dregið hv. þm. Ísaf. í ráðherrastól til samstarfs um slíka nýsköpun atvinnulífsins. En við skulum nú athuga, hver sá flokkur er nú. sem situr um að stöðva atvinnutækin og eyðileggja atvinnuvegina, því að það virðist vera einhver flokkur, sem vinni að því, hvort sem það er pólitískur flokkur eða ekki. Hver hefur stöðvað innlenda iðnaðinn nú? Er það þessi voðalegi flokkur, sem ég tilheyri, eða er hann að stöðvast vegna þess, að það hafi ekki verið veittur gjaldeyrir til þess að iðnrekendur gætu náð í hráefni til að vinna úr? Það hefur verið útbýtt á þessum fundi till. frá mörgum þm., þar sem fjárhagsráð og viðskiptan. eru átalin fyrir seinagang í úthlutun leyfa til verzlana úti á landi, og ég veit ekki betur en að þeim ásökunum hafi fyrst og fremst verið beint að þessa ráði, sem hv. þm. Ísaf. tilheyrir. Það hefur stundum verið talað um, að það vofði yfir hrun og stöðnun hjá togurunum. Hvaða flokkur er það, sem þar er að vinna að stöðvun? Það hefur verið talað um það, að bátaflotinn og hraðfrystihúsin væru ekki í gangi, hraðfrystihúsin vegna þess, að lánsfé vantaði, og bátaflotinn vegna þess, að vinnuafl vantaði. Hverjir eru það, sem tóku að sér að skipuleggja, hvernig atvinnutækin væru notuð og vinnuaflinu einbeitt að framleiðsluatvinnuvegunum? Það var selt á laggirnar stofnun, sem kostar 31/2 millj., til þess að sjá um þessa stjórn á atvinnuvegunum. Hvernig stendur hún í stöðu sinni? Það er enn fremur hér niður við höfnina stórt atvinnutæki, fiskiðjuver ríkisins. Þetta atvinnutæki hefur ekki unnið nema lítinn hluta af þess afkastagetu. Hverjir hafa hindrað, að það fengi lánsfé til að vinna eða hráefni til að hafa í umbúðir utan um þá vöru, sem það gat framleitt — vöru, sem nægur markaður er fyrir? — Það hefði þýtt, að margfalt dýrmætara efni hefði verið unnið úr síldinni en ella. Hvaða flokkur hefur stöðvað þetta? Það má taka þannig fyrir hvert fyrirtækið á fætur öðru, sem hefur verið stöðvað. Ef ég ætti að segja, að þetta væri einhverjum flokk að kenna, þá mundi ég nefna flokk hrokafullra embættismanna, sem ekki hafa hugmynd um það verk, sem þeir eiga að vinna, enga samvizkusemi og enga víðsýni til að finna úrræði fyrir þjóðina og þykjast vaxnir upp yfir að standa reikningsskil frammi fyrir Alþ., og hv. þm. Ísaf. ætti að snúa sér til þessa flokks, ef hann fer að ræða um, hverjir séu að stöðva atvinnuvegina á Íslandi nú. Hér er ástandið þannig, að þegar þessi stöðvun vofir yfir vegna óhæfrar stjórnar á þjóðarbúskapnum, þá fást ekki þessir embættismenn til að ræða þessa hluti.

Hv. þm. Ísaf. kom ekki einu orði í sinni ræðu að því, sem var aðalatriðið í minni ádeilu, það var um lánsféð. Hann gaf Alþ. ekki neina hugmynd um, hvort fjárhagsráð hefði nokkurn tíma veit þessu vandamáli fyrir sér, hvort það hefði nokkurn tíma krufið til mergjar, hvaða möguleikar eru fyrir lánsfé í landinu. Hv. þm. Ísaf. kom ekki heldur með einu orði að spursmálinu um vinnuaflið hjá framleiðslunni, hvort vinnuaflinu væri einbeitt að þeim verkefnum, sem nauðsynleg eru. Það, sem var grundvallaratriðið í l. um fjárhagsráð, og það, sem rætt er um, að vanti áætlun fyrir, leiddi hv. þm. Ísaf. hjá sér að ræða. Hann talaði hins vegar um, að landsmenn þyrftu að vera samtaka um að tryggja vinnuafl til hluta, sem nauðsynlegir væru. Það er grundvallarhugsunin í l. um fjárhagsráð, að sett er ákveðin stofnun til þess að skipuleggja þessi samtök landsmanna, að það séu samtök um að vinna fyrst og fremst að því, sem nauðsynlegt sé, og sú stofnun er fjárhagsráð, það á að hafa forustu í því, að vinnuafl þjóðarinnar beinist fyrst og fremst að framleiðsluatvinnuvegunum, en sé ekki fyrst og fremst t.d. í verzluninni í Reykjavík. Þessa forustu átti fjárhagsráð að hafa í okkar þjóðarbúskap. Svo kemur hv. þm. Ísaf. og segir: Við skulum vera samtaka um að vinna fyrst og fremst við það, sem nauðsynlegt er. — Þetta segir hv. þm., þegar hér ætti að liggja fyrir áætlun um það, hvað mörgum mönnum fleira ætti að vinna að sjávarútvegi 1948 heldur en 1947 og hvað mörgum færra í verzluninni í Reykjavík. Hv. þm. Ísaf. getur ekki afsakað sig með því, að hann viti ekki um þetta. Hann veit, að þeir hafa bók frá norska fjárhagsráðinn, þar sem reiknað er út, hvað mikið vinnuafl þurfti í framleiðsluna 1947 og eins hvað þarf 1948, þeirri bók var útbýtt sem fylgiskjali með fjárl. Noregs fyrir þetta ár. Fjárhagsráð veit, hvernig farið er að vinna þessa hluti, en það gerir þetta bara ekki. Svo þegar þessir menn eru kallaðir til reikningsskapar, þá er viðkvæðið: Við skulum vera samtaka um að vinna að því, sem er nauðsynlegt. Hins vegar segja þeir: Við sjáum engin úrræði til að skapa eða skaffa gjaldeyri. Að ætla að reka áætlunarbúskap upp á þetta, það er að traðka niður alla skynsemi og það, sem felst í hugmyndinni um áætlunarbúskap. Þá held ég, að sé betra að hafa stjórnleysi einkaframtaksins og leyfa mönnum að slást um þetta heldur en að binda menn þannig, að þeir hafi ekki leyfi til að gera neitt, en um leið hugsar n., sem er falið að stjórna þessu, ekki fyrir, hvað fjöldinn eigi að gera. Við stöndum þess vegna hér við afgreiðslu fjárl. nákvæmlega á sama stigi eftir ræðu hv. þm. Ísaf. eins og áður, við erum engu bættari. Við höfum engar upplýsingar fengið um það öryggi, sem átti að skapa með því að vinna að eins konar þjálfun í þjóðarbúskapnum samhliða fjárl. ríkisins, sem Alþ. hingað til hefur sett.

Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Ísaf., að hann kom inn á það viðvíkjandi byggingarvinnunni, að ekki hefði verið hægt að flytja inn meira en 40–50 þús. lestir af sementi og það væri undirstaðan undir því, að ekki væri hægt að gera meira viðvíkjandi byggingarvinnunni. Það er undarlegt að ætla að takmarka sementsinnflutning, sem er undirstaða undir atvinnuvegunum, en ætla mörg hundruð þúsundir kr. til bílainnflutnings á þessu ári, eða ef til vill álítur fjárhagsráð, að menn geti notað eitthvað af því sementi, sem skemmt hefur verið,af því að mönnum hefur verið bannað að byggja, og í öðru lagi er sement svo ódýrt, að það er óhugsandi, að það stæði á innflutningi þess, ef menn að öðru leyti hefðu möguleika til að leggja í byggingar. En fyrst talað er um sement, þá má minna á umr., sem fóru fram um sementsverksmiðjuna, og þær upplýsingar, að sementsverksmiðjan sparaði gjaldeyrislega á einu ári það, sem lagt væri í hana. Þegar það þess vegna liggur fyrir, að sementsverksmiðja er svona hagnýtt fyrirtæki fyrir þjóðina og fjárhagsráð áætlar ekki meiri innflutning en það, að það verði að stöðva flestar byggingar, þá verð ég að segja, að það er mjög hart að fá ekki eitt orð um það, að fjárhagsráð sé hlynnt því, að komið sé upp sementsverksmiðju til þess að bjarga okkur frá því að þurfa að stöðva byggingar, vegna þess að við höfum ekki einu sinni efni á því að kaupa sement. Það stangast allt, sem hv. þm. kom með á þessu sviði.

Þá kom hv. þm. með það, að það opinbera yrði að draga úr verklegum framkvæmdum vegna þess, að nú ætluðu einstaklingar að leggja svo mikið fram í þeim efnum. Út af fyrir sig getur það komið fyrir á sérstökum tímum, að það sé skynsamlegt að draga úr framkvæmdum, ef það, sem einstaklingar vilja leggja fram í því efni, er þess eðlis, að það sé nauðsynlegt fyrir þjóðarbúskapinn, en til þess að færa sönnur á, að svo sé, þarf að koma fram eitthvað meira en sleggjudómar um þetta máli Þá þarf fjárhagsráð að leggja hér fyrir okkur, hvað mikið vinnuafl þarf að fara til þeirra framkvæmda, sem einstaklingar vilja leggja fram, og hvað mikið vinnuafl sparast í vegalagningum og öðru slíku, vegna þess að við höfum ekki nægilegt vinnuafl til að vinna hvort tveggja. Þessa undirstöðu þarf að leggja fram fyrir okkur til að sanna okkur, að það sé eitthvert vit í því að draga úr verklegum framkvæmdum ríkisins, vegna þess að það liggi svo mikið fyrir, sem einstaklingar ætli sér að framkvæma, sem sé nauðsynlegra en það, sem ríkið ætlar að framkvæma, skólabyggingar og annað slíkt. Liggur eitthvað fyrir um það, hvernig vinnuaflinu er ráðstafað? Það liggur ekki fyrir glóra um það, hvernig ástandið er viðvíkjandi atvinnumálunum. — Það er sett í l. um fjárhagsráð, að það eigi að tryggja hverjum manni atvinnu og að framleiðslugetan sé hagnýtt til fulls, en það er engin viðleitni sýnd af fjárhagsráði til að leggja fram raunhæfan grundvöll fyrir slíku. Hv. þm. Ísaf. talaði um í þessu sambandi, að það hefði stundum undanfarið verið skortur á vinnuafli. Ég hef áður spurt hv. þm. Ísaf. að því í Nd., hvernig ástandið hefði verið hér í Reykjavík í vetur, ef Hvalfjarðarsíldin hefði ekki komið, og hverjar áætlanir fjárhagsráðs hefðu verið um atvinnu handa hverjum manni í Reykjavík á þessum vetri, þar sem fjárhagsráð hefði ekki reiknað með Hvalfjarðarsíldinni, og ég sagði, að fjárhagsráð hefði reiknað með atvinnuleysi í Reykjavík, og hv. þm. Ísaf. kallaði fram í fyrir mér og sagði, að það væri lygi. Hann svaraði hins vegar ekki fyrir þetta, þegar hann fór að tyggja upp gömlu lummurnar hér í dag, hann gleymdi að skýra okkur frá áætlun fjárhagsráðs um atvinnu í Reykjavík, þegar ekki var vitað um Hvalfjarðarsíldina, og ef hann spyr fagmenn hér í Reykjavík um atvinnuástandið nú, þá mun hann fá sama svarið alls staðar: Það er atvinnuleysi fram undan, atvinnuleysi er byrjað, og það hefði verið atvinnuleysi í vetur, ef Hvalfjarðarsíldin hefði ekki verið. — Svo er hv. þm. Ísaf. að tala um skort á vinnuafli og að vegna skorts á vinnuafli sé ástæða til að skera niður svo og svo mikið, og samt fæst hann ekki til að koma með sannanir fyrir því, að vinnuaflið sé að fullu hagnýtt. Ég held þess vegna, að ræðan, sem hv. þm. Ísaf. flutti hér áðan, sé öllum þingheimi næg sönnun fyrir því, að sá undirbúningur, sem fjárhagsráð hefur gert undir það að geta afgreitt áætlunarbúskap 1948, er óhæfur — það vantar grundvöll til að afgreiða fjárl. á.

Ég álít, eins og ég sagði áðan, að á milli 2. og 3. umr. þurfi fjvn. að láta taka þetta mál til endurskoðunar, svo framarlega sem á að sýna einhverja viðleitni í því að hlýða l. á Íslandi og afgreiða fjárl. fyrir þjóðarbúskapinn, eins og ætlazt er til með 1. um fjárhagsráð.