12.03.1948
Sameinað þing: 53. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

129. mál, fjárlög 1948

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hv. form. fjvn. hefur tekið til umr., eins og eðlilegt er, allt, sem honum sýnist þess vert í þeim umr., er fram hafa farið viðkomandi fjárlagafrv., og þá einkum brtt. ýmist frá meiri hl. eða minni hl. fjvn. og einstökum hv. þm. Hann hefur einnig að sjálfsögðu gert aths. við það, sem ég hef lagt til þessara mála. Og að því er það snertir, sem hann hafði eftir mér um fjárhagsráðið, þá leiðrétti ég nú þegar í stað það, sem mér þótti ofsagt í ummælum hans, og skal ekki út í það farið frekar.

Þá ræddi hv. frsm. mjög um fiskiðjuver ríkisins og vildi halda fram, að ég hefði, með því að fela stjórn fiskimálasjóðs yfirstjórn fiskiðjuversins, stigið spor, sem bakaði ríkissjóði sérstaka ábyrgð. (GJ: Það er misskilningur.) Gangur málsins er þessi, að fiskimálanefnd á sínum tíma, að sjálfsögðu með samþykki þess ráðh., sem hafði þá með þann þátt atvinnumálanna að gera, byggði þetta fiskiðjuver og meðhöndlaði það eins og nokkurs konar byggingarnefnd. Svo var skipuð af atvmrh. sérstök stjórn til þess að stjórna fiskiðjuverinu. Og það voru nú að vísu sömu mennirnir, sem þá voru í fiskimálanefnd. En eftir að ég kom í þetta ráðuneyti, þá lá þar bréf frá fiskimálanefnd, þar sem hún skilaði af sér byggingunni, sem þá var reyndar ekki fullgerð, a.m.k. ekki sem verksmiðja. Ég fól svo stjórn fiskimálasjóðs — en eins og hv. þm. er kunnugt, heitir það nú fiskimálasjóðsstjórn, sem gegnir sama hlutverki og fiskimálanefnd gerði áður — ég fól stjórn þeirri að fara með þessa yfirstjórn fiskiðjuversins, af því að mér fannst óþarfi að hafa yfir þessu sérstaka stjórn, og tók það fram, að fjárhagur fiskiðjuversins skyldi vera aðgreindur frá fjárhag fiskimálasjóðsins. — Ég tel alveg vafasamt — og get reyndar ekki séð það — að ríkissjóður beri frekar ábyrgð á þessu fiskiðjuveri fyrir þetta heldur en áður var. — En eftir að ég hafði afskipti af þessum málum, þurfti að útvega aukið stofnfé til fiskiðjuversins, eins og ég lýsti hér áður í ræðu, til þess að fullkomna bygginguna. Og ég held, að mér sé óhætt að segja, að ég hafi ekki skrifað undir neina sérstaka formlega ríkisábyrgð á þeim lánum. — Að því er rekstur þessa fyrirtækis snertir, þá fær fiskiðjuverið nú sem hraðfrystihús sams konar kjör eins og önnur hraðfrystihús, og það án þess að ríkissjóður sé þar í ábyrgð, eða ekki fram að þessu. Ég hef hins vegar leyft fiskimálasjóði að ábyrgjast nokkuð af rekstrarfé núna, sérstaklega í sambandi við síldarniðursuðu, af því að það fé var ekki fáanlegt til þess á annan hátt. Ég skal svo láta útrætt um það.

þá minntist hv. form. fjvn. á þau bréf, sem farið hafa á milli fjmrn. og ríkisstofnana varðandi þetta svokallaða geymda fé. Skýrði hann frá í því sambandi, að hæstv. samgmrh. hefði snúið sér til hv. fjvn. og hún gert ályktanir í sambandi við það. Þetta svokallaða geymda fé hefur nú ekki alltaf frá öndverðu verið fylgifiskur fjárl. eða ríkisreikninganna. Og reyndar sést það hvergi í ríkisreikningnum þann dag í dag. Það hefur lengst af verið siður, að það hefur ekki verið talað um neitt geymslufé. Og ég hygg, að það hafi verið fyrst fyrir eitthvað um 6 árum síðan, að þetta hafi skapazt. Og þó að mér sé ekki fullkunnugt um það, þá held ég, að það hafi fyrst orðið til vegna þess, að ekki var vinnukraftur fyrir hendi eða það entist ekki vinnukraftur, sem fyrir hendi var, til þess að nota fé, sem veitt var á fjárl., eða þá af því, að vantað hafi vörur, eða af einhverjum öðrum ástæðum ekki var unnt að nota eða fullnota einstakar fjárveitingar. Ég skal þó játa, að ég er þessu ekki ýtarlega kunnugur, eins og ég vona, að hv. form. fjvn. skilji. Ég hef ekki svo lengi verið nálægt þessum málum, að ég hafi getað kynnt mér þetta ofan í kjölinn. Og það, sem hér er um að ræða, er í raun og veru bókhaldslegs eðlis, því að í ríkisbókhaldinu og hjá endurskoðendum ríkisins hefur því verið haldið fram við mig, að þetta svokallaða geymda fé væri þeim, sem eiga að sjá um formun ríkisreikninganna, endurskoðun þeirra og rétta afgreiðslu til Alþ., mikill þyrnir í augum, því að það gerði það að verkum, að ríkisreikningarnir gæfu ekki rétta hugmynd um það, hvað unnið hefði verið, þar sem tilfærð hefði verið með því móti eyðsla fjár fyrir verk, sem ekki hefðu verið unnin. Nú skal það líka játað af minni hálfu, að ég er ekki bókhaldsfróður maður og er sízt af öllu fær um að rata um völundarhús sérfræðinnar í slíkum málum. En mér er sagt, að mikið af því fé, sem snertir ýmsa liði fjárl., ekki bara einn eða tvo, sem er kallað geymt fé, sé raunverulega ekki og hafi aldrei verið geymt, heldur beinlínis verið eytt í aðrar þarfir eða eitthvað því um líkt — sem sagt, að það hafi ekki undantekningarlaust verið tekið frá eða lagt inn á sérstaka reikninga. Og af fjmrn. er á það bent, að það sé nú orðið svo mikið, sem beri þetta nafn: „geymt fé“, svo margar milljónir, að það sé mjög erfitt fyrir ríkiskassann eða fjmrn. að eiga yfirvofandi yfir sér kröfur um ógreitt fé, sem kannske einhvern tíma hefur staðið á fjárl., en hefur ekki verið notað og ekki verið lagt út. Ég er viss um, að hv. form. fjvn. mun skilja það, að þetta veldur ruglingi og örðugleikum, hvað sem annars má um þetta segja. Hitt skil ég svo náttúrlega vel, að það getur átt sér stað um ýmsar slíkar fjárveitingar, sem ekki hafa verið notaðar til fulls, að af óviðráðanlegum ástæðum hafi ekki verið hægt að nota féð til þeirra framkvæmda, sem það hefur verið ætlað á fjárl. En sá rétti háttur væri þá sá, ef ætti að geyma þetta fé, að taka það þá með í fjárveitingu á næsta árs fjárl. — En eitthvað af þessu „geymda fé“ mun vera til, og þá líklega helzt hjá vegamálastjóra einhverjar upphæðir. — Ég vil nú líka benda á það, að í brtt. hv. fjvn., sem snerta heimildargr., 22. gr., er tekin upp orðrétt sú heimild, sem var í fjárl. síðasta árs, og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Að fresta“ — þ.e.a.s. lagt er til, að ríkisstj. verði gefin heimild til þess — „fjárframlögum til framkvæmda, sem ekki eru bundnar í öðrum lögum en fjárlögum, ef atvinnuástandið í landinu eða fjárhagur ríkisins gerir það nauðsynlegt. Ef fé er hins vegar fyrir hendi, en fresta verður framkvæmdum af öðrum ástæðum, skal það fé geymt, er til þeirra framkvæmda var ætlað, en þær að öðrum kosti látnar sitja í fyrirrúmi á árinu 1949.“ Með þessu er það sýnt, að það eru tveir möguleikar a.m.k. fyrir hendi, annar sá að geyma féð, og þar er komið inn á hugtakið, sem ég hef rætt um, sem er tiltölulega nýtt hér á Alþ., og hinn hátturinn, að láta þær framkvæmdir, sem þessu fé átti að verja til, sitja í fyrirrúmi á því næsta fjárlagaári, sem um er að ræða. Ég hef nú, vegna þess umtals, sem vakið hefur verið um þetta, bæði af hæstv. samgmrh. og fjvn., falið starfsmanni ráðuneytisins að gera nánari skýrslu um ástand þessara hluta, og mun því lokið svo tímanlega, að hægt verði að taka þessi atriði til athugunar fyrir 3. umr. Ég tek það fram í þessu sambandi, að ég er fús til þess að líta á alla málavöxtu með fullri sanngirni. En ég hef hins vegar ekki getað daufheyrzt við ábendingum og ráðleggingum þeirra manna í ráðuneytinu, sem árum saman hafa haft með höndum bókhald fyrir ríkið og endurskoðun innan ráðuneytisins. Og það er það, sem olli því, að þessi bréfaviðskipti fóru fram.

Ég ætla, að hv. form. fjvn. og aðrir hv. fjvnm. geti fallizt á, að þessi afstaða, sem ég hef tekið til þessarar — ja, hvað á ég að kalla það — deilu, sé eðlileg og að hún verði talin viðunandi ettir atvíkum. — Það vil ég svo benda á að lokum, að allt þetta, allir þessir liðir, sem hér er um höndlað nú, bæði fjárlagafrv. sjálft, eins og það verður nú útbúið með rekstrarútgjöldum og útgjöldum 22. gr., sem og það, sem hér hefur verið gert að sérstöku umtalsefni, greiðsla á öðru fé, a.m.k. að svo miklu leyti sem það er fáanlegt og hægt er að rekja það, hvaðan það á að hafa stafað — allt er þetta háð getu ríkissjóðs fjárhagslega. Hver svo sem er í ráðherrastóli, þá verður það óhjákvæmilega háð því, sem mögulegt er fyrir ríkissjóð að standa undir. Þetta vildi ég hafa sagt út af ummælum hv. form. fjvn., sérstaklega varðandi geymsluféð. Það er sjálfsagt að taka þetta til athugunar milli ríkisstj. og hv. fjvn. svo tímanlega, að menn viti, hversu haga má sanngjörnum niðurstöðum við 3. umr. fjárl.