12.03.1948
Sameinað þing: 53. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

129. mál, fjárlög 1948

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þessa yfirlýsingu hér í sambandi við þetta mál og mun að sjálfsögðu láta mér það nægja, þar til fjvn. og hæstv. ráðh. hafa tækifæri til þess að ræða þetta nánar fyrir 3. umr. — En ég held, að það komi hér fram nokkur misskilningur hjá hæstv. fjmrh. í sambandi við þetta mál, sem ég vildi gjarnan gera aths. við. Í fyrsta lagi sé ég enga erfiðleika á því bókhaldslega séð að halda fénu sérstöku, þó að það sé ekki greitt út. Þá koma þessir aðilar inn sem lánardrottnar ríkisins. Það eru út af fyrir sig ekki gerðar svo margar athugasemdir við það, et ríkið greiðir ekki féð út, þó að það láti það liggja vaxtalaust á banka, en samt yrði það að fara í það, sem veitt var til, og það er ekki heimild til að taka það aftur nema með samþykki Alþ., og það er vafasamt, hvort Alþ. gæti kippt samþykki sínu til baka. Þetta vildi ég benda hæstv. ráðh. á. Ég vil einnig benda á það, að það er þýðingarmikið, ef greiðsla er látin niður falla og skirrast við að taka hana sem endurgreiðslu. Það er þetta, sem deilt er um, og það mundi skapa svo mikla óánægju, að það yrði ekki liðið, og mundi skapa ráðh. ábyrgð. Ég er ekki í vafa um, að ef hafnarsjóði hefðu verið veittar 500 þús. kr. og hann hefði ekki getað tekið féð, m.a. vegna þess, að vitamálastjórnin hefði ekki gert þann undirbúning, sem þurfti, og ef svo ætti að láta greiðsluna niður falla, mundi viðkomandi hafnarsjóður stefna ríkissjóði til þess að fá dóm fyrir fénu, og ég er viss um, að hann mundi fá þann dóm. Og það gæti einnig farið svo, að héruðin gætu gert gildandi rétt sinn um það, sem ætti að fara í vegi og brýr. Í sambandi við 75. brtt. gætir einnig misskilnings hjá hæstv. ráðh. Ég vil benda á það, að hér stendur, að heimilt sé að fresta fjárframlögum til framkvæmda. sem ekki eru bundnar í öðrum lögum en fjárlögum, ef atvinnuástandið í landinu eða fjárhagur ríkisins gerir það nauðsynlegt. Þetta er fyrri hluti gr., og í sambandi við þetta vil ég benda á, hvað það var, sem hæstv. ráðh. fékk leyfi til að gera. Það var tekið fram, að það væri þetta, að ef féð væri ekki til, mætti hann draga úr verklegum framkvæmdum, en eingöngu hlutfallslega í héruðunum. Það var tekið fram, að þetta ætti að vera hlutfallslega, en ekki að taka af einn héraði og láta það ganga út yfir önnur. Þegar ríkissjóðinn brast ekki tekjur s.l. ár, er þessi heimild ekki til. Það er vitað, að ríkissjóður hefur borgað stórar fjárfúlgur til héraða á kostnað annarra, svo að grundvöll þessarar heimildar hefur hæstv. ráðh. ekki. Þá skulum við koma að síðari hluta gr. Þar stendur, að sé féð fyrir hendi, en fresta verði framkvæmdum af öðrum ástæðum, skuli það fé geymt, er til þeirra framkvæmda var ætlað, og þær að öðrum kosti látnar sitja í fyrirrúmi á árinu 1949. Það er þetta, sem gera á, að ef féð er fyrir hendi, skuli féð, sem til þeirra framkvæmda var ætlað, geymt og þær látnar sitja í fyrirrúmi á árinu 1949, ef framkvæmdum var frestað af öðrum ástæðum en þeim, að ekki væri til fé. Ég vildi, að hæstv. ráðh. fengi úrskurð hins mjög lögfróða manns, dómsmrh., um þetta. Annars gæti svo farið, að aðilar yrðu að gera tilraun til þess að fá dóm. Ég treysti því, að samkomulag verði um þetta atriði.

Þá vil ég benda hæstv. ráðh. á misskilning hans í sambandi við fiskiðjuverið. Sannleikurinn er sá, að ef fiskiðjuverið hefði aldrei verið tekið úr ábyrgð fiskimálasjóðs, þá hefði mátt láta fiskimálasjóð standa undir rekstrinum. Nú hefur þetta ekki verið gert. Ráðuneytið hefur gert úr þessu sjálfstætt fyrirtæki, sem fiskimálasjóður stendur ekki undir, heldur ríkissjóður. Það hefði átt að láta þessa menn standa við það að geta ekki veitt fé til frystihúsa, markaðsleita eða annars og sjá þá, hvernig farið hefði, en einmitt þennan kaleik hefur hæstv. ráðh. tekið frá þessum mönnum.