12.03.1948
Sameinað þing: 53. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

129. mál, fjárlög 1948

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forsefi. Ég skal vera fljótur með það, sem ég þarf að segja. Ég vil mótmæla þeirri fullyrðingu, sem fram kom hjá hv. 6. landsk. þm., að það væri óverjandi af fjvn. að veita aðeins 75 þús. til dráttarbrautarinnar á Akureyri. Hann lokar alveg augunum fyrir því, að margupplýst er um fjölda hafna, sem frekar þurfa fjárveitinga við heldur en Akureyri, þar sem hún á eftir í sjóði 230 þús. kr. Ég vil aðeins geta þess, að t.d. Patreksfjörður á 400 þús. kr. inni hjá ríkissjóði, sem hann fær ekki strax, þó að hann hafi mikla þörf fyrir það fé. Það væri heldur engin sanngirni í að láta Akureyri fá eins mikið fé til þessa eins og t.d. Akranes, en ríkið skuldar því á 6. hundrað þús. kr. Í raun og veru hefði ríkið átt að borga þetta áður en það fór að veita fé til annarra hafna. Hv. 6. landsk. hefur annars viðurkennt, hvað mikið hefur verið gert fyrir dráttarbrautina á Akureyri, og ef byggðar væru slíkar dráttarbrautir víða um land og ríkissjóður ætti að borga 60% af kostnaðinum, þá er það alveg vafamál, hvort það kæmi nokkurn tíma inn í hafnarlagaákvæði, að svona ætti að styrkja dráttarbrautir. Ég veit til þess, að hv. 6. landsk. hefur viðurkennt, að þetta væri rétt hjá mér. (StgrÁ: Ég hef ekki viðurkennt, að það væri rétt, hv. flm. hefur sjálfur slegið því föstu, að þetta væri lagabrot.) Ég hef ekki slegið því föstu. en tel vafa á, að það væri tekið inn, og ef það hefur verið tekið inn, þá er spursmál, hvort ekki ætti að taka það aftur.

Viðvíkjandi því, sem hv. 3. landsk. sagði, get ég verið stuttorður, því að ræða hans var að mestu leyti endurtekningar, og get ég verið honum þakklátur fyrir, að hann beindi geirnum aðallega að mér og taldi það mér að kenna, að ekki hefði verið veitt fé til eins og annars, sem hann vildi. (HV: Ég held það líka.) Þegar þessi hv. þm. gerir samanburð á héruðum, hvað fjárveitingar snertir, þá finnst mér hann ekki hafa yfir neinu að kvarta. Veittar hafa verið stórar upphæðir, í fyrsta lagi til Bolungavíkur, í öðru lagi til bryggjugerðar á Arngerðareyri og í þriðja lagi hár styrkur til Djúpbátsins. Ég skal svo ekki deila meira um þetta við hann, því að ég býst ekki við, að það hafi nokkuð að segja.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég beina ákveðinni fyrirspurn til hv. þm. N-Ísf. Hann lét þau orð falla, að betra væri að veita ekkert til lendingarbóta í Hnífsdal heldur en þessar 50 þús. kr., sem fjvn. hefur ákveðið. Úr því að hann segir þetta, þá vildi ég spyrja hann, hvort hann vilji ekki, að till. sé tekin til baka eða komi til atkvæða núna strax, svo að hægt sé að vita, hvort ekki má þá veita þessar 50 þús. til annars, það eru sjálfsagt nóg not fyrir þær. Ég óska sem sagt eftir staðfestingu á þessum orðum hans, svo að till. komi ekki til 3. umr. Ég álít einnig, að ummæli hv. þm. N-Ísf. viðvíkjandi fjárveitingum til brimbrjótsins í Bolungavík hafi í fremsta máta verið ósanngjörn, en í þeim efnum fór n. eftir till. og bréfi, sem henni barst þetta varðandi, o,g ég verð að segja, að það er hart, að fjvn. skuli ekki hljóta neitt nema vanþakklæti fyrir að taka á sig þá ábyrgð að veita stórfé, án þess að það verði nokkurn tíma afturkræft, til bóta á hafnarmannvirki, og án þess meira að segja að vita, hverjum það er að kenna, að þessar skemmdir urðu, en það mun enn þá vera í athugun.

Ég mun ekki að sinni lengja umr. meira en orðið er, en vil geta þess, að í sambandi við hafnarbætur í Bakkafirði hefur komið fram svipuð ósk og þessi um brimbrjótinn í Bolungavík, en um hana mun ég ekki ræða að sinni, hygg, að hollt væri hv. þm. N-Ísf. að hafa það í huga, að hroki slíkur sem hann hefur látið í ljós varðandi mál þetta er ekki til að bæta fyrir till hans né annarra.