12.03.1948
Sameinað þing: 53. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

129. mál, fjárlög 1948

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt á því að óska, að mér takist nú að tala af því lítillæti og þeirri hógværð, sem hv. þm. Barð. ætlast til og hann þá, að líkindum, hyggur sig hafa tamið sér. — Ég vil þá fyrst svara fyrirspurn hans varðandi Hnífsdalsbryggjuna. Ég sagði, að mér þætti yfirleitt ekki skynsamlegt af hv. fjvn. að veita þær fjárveitingar til framkvæmda, sem væri fjarri lægi að nægðu, og því væri betra að veita ekkert fé til þeirra. Ég heyrði ekki betur en að hv. þm. Barð. væri með hótanir úf af þessum ummælum mínum. Ég endurtek það, að ég hygg, að það geti verið í mörgum tilfellum þannig. Ég er nú ekki bjartsýnni en það, að ég mundi ekki þora að taka þessar 50 þús. kr. til baka nú, því að mig uggir, að á næstu fjárlögum muni ég ekki fá allt það fé, sem þarf til þess að hetja framkvæmdir, og hygg ég því að safna þurfi saman í nokkur ár, og þess vegna óska ég ekki eftir því, að þessar 50 þús. kr. séu felldar niður, þótt smátt sé þar skammtað.

Varðandi brimbrjótinn vil ég segja það, að mér finnst ég ekki hafa látið í ljós neitt vanþakklæti í garð hv. form. fjvn., en sannarlega verðskuldar hann lítið þakklæti fyrir afskipti sín af því máli. Saga málsins í stórum dráttum er sú, að á þingi í fyrra flutti ég ásamt hæstv. núv. samgmrh. frv. um, að ríkissjóður bætti tjón það, sem hlytist á hafnarmannvirkjum af völdum náttúruafla. Nd. samþ. frv. þetta með shlj. atkv., en svo kom það til lávarðadeildarinnar og mætti þar nokkurri mótspyrnu, og þegar það svo kom til n., var það alveg stöðvað, — og hver stöðvaði það? Enginn annar en hv. þm. Barð., hann, sem ég skulda allt þakklætið. Þessi hv. þm. kaus heldur að fara þá leið að mæla með því með bréfi til ríkisstj., að veittar væru 250 þús. kr. til brimbrjótsins, án þess að þær væru afturkræfar. Þetta kann að vera hæpið, því að vitanlega ráða hafnarlög um þetta. En þessa leið kaus hv. n. heldur að fara en að samþ. frv. Það má hver, sem vill, lá mér, þótt ég bráðni ekki upp af þakklæti til hv. þm. Barð. Hins vegar er ég ekkert vondur út af þessu, því að ég veit, að þessi hv, þm. hefur sínar skoðanir á því, hvernig Ed. eigi að taka við málum, sem koma frá Nd. En vegna þess að umgetið frv. var stöðvað, þá neyddist ég til að biðja n. að skrifa þetta meðmælabréf til ríkisstj. Annars má segja, að n. hafi í fyrra ekki stigíð mjög stórt spor þarna, því að sjáanlegt var, að tjónið á brimbrjótnum mundi nema 1/2 millj. kr., en n. lagði til, að veittar yrðu 250 þús., og sætti ég mig við það. Hv. þm. lét liggja að því, að það stæði upp á mig með að leggja fram sannanir fyrir því, hverjum bæri að kenna tjónið og hvers vegna það hafi orðið. Ég verð að vænta þess, að jafnröskur maður og hv. þm. Barð. er í öllum greinum hafi ekki látið undir höfuð leggjast að lesa allt það, sem fyrir liggur í þessu máli. Ég veit ekki betur en að ég hafi lagt fram alla byggingarsögu mannvirkisins og lagt öll spil á borðið í því efni. Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni, en vil leyfa mér að vænta þess, að málið fái þá lausn, sem það á skilið, því að eins og ég sagði áðan án alls hroka, þá þarfnast það skjótrar og góðrar úrlausnar.