19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

129. mál, fjárlög 1948

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi í upphafi máls míns beina nokkrum orðum til hæstv. fjmrh. í sambandi við ríkisreikningana. Fyrir nokkru var rætt um það í Sþ., að útgáfa og afgreiðsla ríkisreikninganna frá Alþ. hafi dregizt úr hófi fram, svo að erfitt sé að samþ. reikninga, sem safnazt hafa fyrir í 4 ár. Ég beindi um daginn þeim tilmælum til hæstv. ríkisstj., að þessum málum yrði komið í betra lag og reynt yrði að hafa alla þessa reikninga til í okt. næstkomandi haust, þegar þingið kemur saman. En til þess að reikningurinn fyrir árið 1947 geti orðið samþ., þá þyrfti að kjósa menn til yfirskoðunar á honum, og ég vildi beina því til hæstv. fjmrh., að hann láti kjósa þá, áður en þingi verður slitið nú. Hæstv. fjmrh. tók vel í þetta hér um daginn, er ég ræddi það í Sþ., og vænti ég árangurs af þessum till. mínum.

Ég vil þá þessu næst fara nokkrum orðum um brtt. á þskj. 582, frá okkur hv. þm. A-Húnv., en hún er um það, að lagðar verði fram úr ríkissjóði 10 þús. kr. til endurbóta á Borgarvirki í Víðidal. Varatillag er 8 þúsund krónur. (Menntmrh.: Væntanlega er ekki meiningin að steypa virkið upp?) Ekki er það ætlunin. Tillagan er flutt vegna tilmæla frá Húnvetningafélaginn í Reykjavík, og í bréfi því, sem okkur barst frá því félagi, er farið fram á. að ríkið leggi fram nokkurn skerf til að hressa við þetta forna mannvirki. Eftir því, sem í bréfinu stendur, er ætlunin sú, að Húnvetningafélagið hér hafi samstarf við ungmennafélög sýslunnar í þessu efni, en starf þeirra við endurreisn virkisins verði undir eftirliti þjóðminjavarðar og eftir till. hans, því að hann mun vera sá maður, sem bezt skyn ber á, hvernig endurbyggingunni skuli hagað. — Áhugi á að vernda þetta forna mannvirki er mikill, bæði meðal Húnvetninga hér og heima í héraði.

Hins vegar er það svo, að fjárhagur Húnvetningafélagsins hér í Rvík og einnig ungmennafélaganna í sýslunni er ekki svo góður, að þau treysti sér, af þeim sökum, til þess að vinna þetta ein, og þess vegna er farið fram á þennan styrk úr ríkissjóði.

Það verður að líta svo á, að þjóðfélaginu beri skylda til þess að vernda sögulegar minjar sem þessar, sérstaklega þegar þess er gætt. að við Íslendingar erum fremur fátækir af minjum liðinna tíma. Á aðalfundi Húnvetningafélagsins, sem haldinn var 30. okt. s.l., var kosin 3 manna n. til þess að fjalla um þetta. Hún leitaði umsagnar þjóðminjavarðar, Kristjáns Eldjárns, um málið, og barst henni álit hans skömmu síðar, en bréfinu frá n. til okkar fylgdi þetta álitsskjal. Í umsögn þjóðminjavarðar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Borgarvirki er einstætt meðal allra íslenzkra fornleifa. Í fornritum vorum er raunar mjög oft talað um virki, en ekkert þeirra hefur varðveitzt til vorra tíma, enda mun oftast átt við hlaðna virkisgarða kringum bæi, einkafyrirtæki bóndans á hverjum stað. Borgarvirki er annars eðlis, það er borg eða eins konar kastali, að öllum líkindum til orðinn fyrir samtök margra manna, heils héraðs. Það er klettaborg, sem að miklu leyti er víggirt af náttúrunnar höndum, og hafa þeir, sem virkið gerðu, ekki þurft annað en að endurbæta þetta náttúruverk með því að hlaða í skörðin og gera klettaborgina óvinnandi, hvar sem að henni væri komið. En þetta hefur þó verið geysimikið verk, og hefur dr. Björn Ólsen reiknað út, í grein í Árbók fornleifafélagsins 1880–81, að ekki muni hafa verið minna en 200 dagsverk að hlaða allt virkið. Er hleðslan víða gerð af svo stórum björgum, að með ólíkindum má þykja.

Engin söguleg gögn eru fyrir því, hvers vegna Borgarvirki hefur reist verið, eða hver það hefur gera látið. Munnmæli hafa viljað eigna það Finnboga ramma, en önnur, sem menn hafa lagt meiri trúnað á, Barða Guðmundssyni í Ásbjarnarnesi, og átti það þá að hafa verið hlaðið, þegar hann átti í deilum þeim við Borgfirðinga, sem sagt er frá í Heiðarvígasögu. En ég hygg, að hvort tveggja sé rangt til getið. Mér finnst langtum sennilegast, að Borgarvirki sé frá landnámsöld og standi ekki í sambandi við neinar hernaðaraðgerðir beinlínis, heldur sé varúðarráðstöfun héraðsbúa, ef til innanlandsóeirða kynni að koma, eins og þeir áttu að venjast í Noregi. En þar í landi, og raunar viðar á Norðurlöndum, var það alsíða á forsögulegum tíma og fram á víkingaöld að víggirða staði, sem vel voru til þess fallnir, t.d. klettaborgir, í því skyni, að fólk í grenndinni gæti leitað þar hælis og varið þar líf sitt og jafnvel eigur, ef fjandmannaher eða óaldarflokkur færi um byggðina. Þessi virki eru kölluð byggðaborgir, algengar um allan Noreg. og ég fæ ekki betur séð en að Borgarvirki sé einmitt ein slík borg. Landnámsmenn hafa séð, hve vel staðurinn var fallinn til slíkrar virkisgerðar, og tekið sig saman um að hlaða til að vera við öllu búnir. Bein rök má einnig færa fyrir því, að Borgarvirki sé svona gamalt, en ekki mun þörf að gera grein fyrir því hér.“

Svo heldur fornminjavörður áfram og segir: „Ég tel sem sagt, að Borgarvirki sé eitt elzta mannvirki á landi hér, og þar að auki einstakt í sinni röð. Er því ástæða til að sýna því sóma. og það því fremur sem auðgert er að endurreisa það í upprunalegri mynd. Allar hleðslur eru nú mjög hrundar og hafa jafnvel mikið látið á sjá í minnum þeirra manna, sem enn lifa, en undirstöður allar eru óhaggaðar og sýna til fullnustu, hvernig um hnútana var búið í öndverðu. Þegar til þess kemur að endurreisa virkið, verður gerð nákvæm lýsing á því eins og það er nú og ljósmyndir teknar, til þess að seinni tíma mönnum blandist ekki hugur um, í hvaða ástandi það var, áður en það var endurreist. Síðan verða virkisveggirnir hlaðnir úr því sama grjóti, sem í því var upphaflega, því það er allt við höndina. Fæ ég ekki betur séð en að hægt sé að koma virkinu í sína fornu mynd falslaust og með óyggjandi vissu.“

Síðan segir þjóðminjavörður, að hann geti ekki að svo stöddu lagt fram áætlun um kostnað við endurbyggingu virkisins, en telur, að hann muni allmikill, vegna þess hve vinna er dýr, en hún yrði aðalliður kostnaðarins. — Að endingu segir hann svo: „En þótt kostnaður verði verulegur, er það þó bót í máli. að viðhaldskostnaður við mannvirki þetta mun í framtíðinni verða mjög lítill eða enginn.“ Í bréfi því, sem ég gat um áðan, frá n., er sagt, en það er gefið út nokkru síðar en umsögn þjóðminjavarðar, að þjóðminjavörður hafi gizkað á, að endurreisn virkisins mundi kosta ca. 15–20 þús. kr.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum að sinni, en vil benda mönnum á hin ótvíræðu meðmæli, sem felast í umsögn þjóðminjavarðar, en hann sem fornleifafræðingur hefur hið bezta vit á því, sem hér er um að ræða. Till. okkar getur engan veginn talizt heimtufrek, og því síður varatill., borið saman við fé það, sem veitt er á fjárl. til hliðstæðra hluta. T.d. eru veittar 30 þús. til viðhalds á bæjarhúsum í Glaumbæ, og annað eins til fornra mannvirkja á Stöng í Þjórsárdal, og sýnir það, að Alþ. hefur talið þess vert að halda þessum fornleifum við. Ég leyfi mér því að vænta þess, að till. okkar verði vel tekið.