19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

129. mál, fjárlög 1948

Hannibal Valdimarsson. Herra forseti. Við 2. umr. fjárlaga flutti ég nokkrar brtt., þar á meðal eina um sundurliðun á 22. gr. fjárl.

Ég hef ekki tekið þessa brtt. upp aftur nú, en lít svo á, að heimildin, sem felst í gr. til fjárveitingar, gildi, og mér er kunnugt um, að hæstv. fjmrh. telur ekki þörf á sundurliðun. — Aftur á móti höfum við hv. þm. N-Ísf. tekið upp nokkrar brtt., sem fluttar voru á fyrra stigi málsins. Fyrsta till.l., sem við flytjum saman, er um fjárveitingu til brúargerðar á Selá í Nauteyrarhreppi. Upphaflega var þar farið fram á 100 þús. kr., en síðar lækkuðum við fjárveitinguna í 50 þús. kr. Ég vil geta þess, að á þskj. hefur þetta misprentazt svo, að þar stendur 150 þús. í stað 50 þús. kr., og bið ég menn að athuga það. Ég hef áður gert grein fyrir till. þessari. Í fyrra var lögð fyrir fyrsta fjárveitingin til brúar þessarar, og var ætlunin að gera svo, þar til nægilega há upphæð væri komin fyrir brúnni. Ég vænti, að hv. Alþ. sjái sér fært að samþ. þessa hógværu till.

Í annan stað höfum við flutt till. um lendingarbætur í Hnífsdal, og er þar farið fram á 150 þús. kr. fjárveitingu, en það er sú upphæð, sem íbúar Eyrarhrepps hafa beðið um til þessara framkvæmda.

Þriðja till., sem við hv. þm. N.-Ísf. flytjum, er í fremsta máta smávægileg, en í henni er farið fram á 1000 kr. fjárveitingu til leikstarfsemi í Bolungavík gegn jafnmiklu framlagi frá Hólshreppi. Leikstarfsemi í Bolungavík hefur jafnan verið með miklum blóma, og hafa þorpsbúar jafnan sýnt mikinn dugnað og áhuga í þeim efnum og árangur orðið ágætur. Iðulega hafa Bolvíkingar sýnt leikrit inni á Ísafirði og viðar í nágrenninu við góðan orðstír, og er þessi viðleitni fullrar virðingar og eftirtektar verð. Hér er aðeins fram á lítið farið, og vona ég, að till. þurfi ekki að misbjóða fjárgetu íslenzka ríkisins og verði því samþykki.

Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir, að hún hefur tekið upp till. um fjárveitingu til brimbrjótsins í Bolungavik. Hún er að vísu nokkuð breytt frá því, sem við hv. þm. N.-Ísf. vildum hafa hana, en ætlun okkar var, að þessar 350 þús. kr. yrðu ekki afturkræfar, heldur væru þær veittar sem styrkur úr ríkissjóði til bóta á brimbrjótnum. En þessi fjárveiting leysir málið í bili.

Í mörg ár hefur starfað í Bolungavík hlutatryggingasjóður sjómanna. Sjóður þessi er miklu eldri en nokkur lög um hlutatryggingar, en nú hafa þeir, sem sjóðnum stjórna, ákveðið að breyta reglum hans þannig, að þær verði í samræmi við lög nr. 109 1943, og geti sjóðurinn þá orðið aðnjótandi styrks úr ríkissjóði, en á þskj. 582 gerum við ráð fyrir, að hann nemi rúmum 12 þús. kr.

Ég hef áður komið með till. um, að ríkissjóður greiði Jóni Magdal, bónda í Engidal í Skutulsfirði, allt að 12 þús. kr. í skaðabætur vegna atvinnutjóns af margra ára sóttkví, sem heimili hans hefur verið í, og flytjum við hv. þm. N.Ísf. nú till. um það.

Síðasta till., sem við flytjum saman, er einnig á þskj. 582 og er þess efnis, að varið verði allt að 75 þús. kr. til bjargráðaráðstafana í Sléttuhreppi og Grunnavíkurhreppi. Upphaflega fórum við fram á 100 þús. kr. til Sléttuhrepps, en 50 þús. kr. til Grunnavíkurhrepps, en nú höfum við sætt okkur við 75 þús. kr. til beggja hreppanna. Að sjálfsögðu kemur ekki til greiðslu á þessu, nema sýslunefnd viðkomandi sýslu komi með till. um, hvernig fénu skuli varið, og rn. sjái sér fært að inna greiðsluna af hendi. Við flm. höfum rætt þetta við hæstv. félmrh., en hann ræddi það svo aftur við hina ráðh., og munu þeir hafa verið sammála um að samþ. þetta. Þrátt fyrir það sá hv. fjvn. sér ekki fært að taka till. upp. Ég vænti þess, að hv. þm. viðurkenni, að rétt geti talizt að hafa heimild í I. til þessa, þar sem ósýnt er um, hvernig fer um byggð í þessum hreppum í framtíðinni og líkur benda til, að innan skamms geti svo farið, að ekkert verði eftir af vinnufæru fólki, svo að gripa þurfi jafnvel til þess að flytja burtu gamla fólkið, sem ekki getur bjargað sér sjálft. Ég trúi því ekki öðru en hæstv. Alþ. samþ. þessa heimild, ef til slíkra ráðstafana kann að koma, sem vel getur verið, því miður.