19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

129. mál, fjárlög 1948

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Við þm. Eyf. bárum enga brtt. fram við 2. umr. fjárl. og ætluðum okkur ekki að gera það. Við snerum okkur beint til fjvn. um fjárbeiðnir í okkar hérað, og fengum við þar nokkra áheyrn, og er ég fjvn. þakklátur fyrir, hve mikið tillit hún tók til óska okkar, að vísu mjög hóflegra óska. En til þess, að við berum nú fram brtt. á þskj. 598, liggur alveg sérstök ástæða, og gátum við ekki rætt þetta við fjvn. En ástæðan er sú, að okkur barst beiðni þessi svo seint, að annaðhvort var að sinna henni ekki eða bera hana fram strax, en beiðnin var um 50 þús. kr. framlag til lendingarbóta í Grímsey. Það eru ekki góðar póstsamgöngur við Grímsey, og bréf oddvita hreppsnefndarinnar dagsett fyrir alllöngu síðan. Í bréfinu skýrir oddvitinn frá því, að fyrirhugað sé að gera lendingarbætur í eynni í sumar. En þetta verður erfitt fyrir Grímseyinga, þar eð Grímsey er fámennur hreppur, og er þetta tæplega hægt, nema framlag úr ríkissjóði komi á móti. Ég sneri mér nú til vitamálastjóra varðandi þetta, og barst mér nú áðan eftirfarandi bréf frá honum:

„Sem svar við fyrirspurn yðar í síma varðandi lendingarbætur í Grímsey vil ég taka fram: Grímsey á geymda fjárveitingu kr. 25000 frá 1946 og fjárveitingu frá 1947 kr. 21300, sem ég hef farið fram á, að yrði geymd. Áætlað er, að unnið verði í Grímsey í sumar fyrir 200000 kr., svo að fjárveiting í ár þyrfti að vera um 50 þús. kr., miðað við, að fjárveiting frá 1947 sé geymd.“

Samkv. þessu bréfi vitamálastjóra er farið fram á þessar 50 þús. kr., sem mundi þá vanta. En þar sem okkur er kunnugt um fjármálaástandið, berum við fram varatill. um 25 þús. kr. framlag, en gerum þá ráð fyrir að fá hitt næsta ár. Ég geri samt sem áður ráð fyrir, að við hefðum látið vera að bera fram þessa brtt. við fjárl., þótt okkur bærist þessi beiðni, ef aðrir þm. hefðu ekki farið fram á stór framlög og það þm., sem styðja hæstv. ríkisstj. Og ef eitthvað af því, er samþ., þá á þetta rétt á sér ekki siður en annað. Það er eins nauðsynlegt að gera hafnarbætur eins og að gefa út gamlar rímur eða gera við 1000 ára gamalt virki, án þess að ég sé að mæla á móti því.