19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

129. mál, fjárlög 1948

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér eina brtt. við fjárlögin. Hún er prentuð á þskj. 597 og fjallar um það að hækka framlag til Skagastrandarvegar um 20 þús. kr. Þannig stendur á með þennan veg, að það er mjög mikil nauðsyn á því að ljúka honum. Þessi upphæð dugir þó ekki til, en ekki er óhugsandi, að með lánsfé megi þá ljúka vegagerðinni. Svo er mál með vexti, að strax og eitthvað snjóar, verður ófær kafli á þessum vegi, en á þessu svæði hagar þannig til, að auðvelt er að hlaða upp veg, sem alltaf gæti verið fær. Til sönnunar því, hve mikla nauðsyn beri til að gera þetta, vil ég geta þess, að þegar síldveiðin var mest hér fyrir sunnan í vetur, hefði verið hægt að flytja síldina hindrunarlaust frá Akranesi norður á Skagaströnd, ef þessi ólagði vegarkafli hefði ekki komið í veg fyrir það, en þetta er aðeins 5–6 km langur kafli. Ég hef ekki séð mér fært að fara fram á meiri hækkun á þessu framlagi, en ég vænti þess, að hv. þm. geti fallizt á að bæta þessari upphæð við, sem ég nefndi áðan. Að öðru leyti ætla ég ekki að blanda mér inn í þessar umr. um fjárl. í heild sinni eða aths., sem komu fram við 2. umr., en vona, að þessi till. mín verði samþ.