19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

129. mál, fjárlög 1948

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Mér finnst rétt að svara því nokkuð, sem sagt hefur verið um fram komnar brtt.

Það er þá fyrst í sambandi við flóabátana. Frsm. samvn. samgm. lýsti yfir því, að vel gæti komið til mála, að n. mæltist til þess við samgmrh., að greitt yrði eitthvað af tekjuhalla Víðis í Akranessferðum. Hér liggur fyrir rekstrarreikningur h/f Skallagríms í Borgarnesi fyrir árið 1947, og sýnir hann rúmlega 20 þús. króna tap á rekstri félagsins á því ári, vel að merkja, þegar búið er að afskrifa 153 þús. kr. og borga út 32 þús. kr. í arð, svo að fjárhagsafkoman getur talizt mjög góð. Ég hygg, að það sé engin ástæða til þess að hafa áhyggjur út af rekstri þessa flóabáts, og ef allir flóabátar væru reknir með jafnmikilli prýði, þá væri ekki erfitt að úthluta þeim styrkjum. Hér er t.d. einn liður í rekstrarreikningi h/f Skallagríms, 100 þús. króna tekjur af upp- og útskipun, en á sama tíma tapar Skipaútgerð ríkisins 400–500 þús. kr. á sama lið. og væri lærdómsríkt fyrir þá stofnun að athuga þetta og gera samanburð. Ég vildi beina því til samvn. samgm., að eðlilegast væri, að hún fengi jafnskilmerkilega reikninga frá öllum flóabátum og hér liggur fyrir um rekstur Laxfoss. Ef slíkra reikninga væri krafizt, væri ekki ólíklegt, að með þeirri reglusemi yrði eitthvað hægt að draga úr hinum mikla kostnaði við flóabátana. Ég er ekki sammála því að greiða upp tap Víðis s.l. ár, nema síður sé. Útkoman kann að verða eitthvað lakari á þessu ári en í fyrra, það sýnir sig þá bara og kemur til athugunar næsta ár. Að greina á milli útkomunnar á rekstri Laxfoss annars vegar og Víðis hins vegar er mjög erfitt, því að ferðir þeirra hanga svo saman.

Ég skal þá koma að einni till. fjvn., sem farið mun hafa fram hjá ýmsum þm. Það er brtt. við 20. gr. Út III., að liðurinn orðist svo: „Til byggingar á jörðum ríkisins 300 þús. kr., þar af 25 þús. kr. til byggingar útihúsa á Staðarfelli.“ En áætlað er að 75 þús. þurfi til þessara útihúsabygginga. N. sá sér ekki fært að greiða þetta allt nú á þessu ári, en væntanlega næst samkomulag um þetta á næsta ári. Talið er, að jörðin kunni ella að fara í eyði, og geta allir, sem til þekkja, gert sér í hugarlund, hvaða þýðingu það hefði fyrir Staðarfellsskólann, sem fær þarna mjólk og fleira.

Í sambandi við aths. hv. þm. V-Húnv., þá viðurkenni ég það, að æskilegt væri að halda við hinu gamla merka Borgarvígi, en ég hélt að Húnvetningar væru það stærilátir og framtakssamir, að þeir leituðu ekki á náðir Alþ. í þessu efni, áður en nokkuð væri byrjað á þessu heima fyrir eða eitthvað lagt fram í því skyni. Ungmennafélög hafa nú orðið lítið meira á sinni stefnuskrá en reyna að hressa við skóga og þess háttar, og væri ekki óeðlilegt, að þau söfnuðu einhverju fé til eflingar þessu máli, það væri vel til fallið. Í því efni mætti taka Barðstrendingafélagið til fyrirmyndar, sem mun nú hafa lagt fram á milli 500 og 600 þús:. kr. til framkvæmda heima í héraði. N. getur ekki verið með þessari till.

Ég kem þá að till. hv. þm. N-Ísf. og hv. 3. landsk. Ekki benda þær till. á stjórnarstuðning, því að eftir að samkomulag hafði verið gert við 2. umr. og fjvn. hafði mætt óskum þeirra um að tryggja 350 þús. króna lán vegna brimbrjótsins í Bolungavík, þá er þetta samt ekki nóg, því að nú er farið fram á nærri 300 þús. kr. aukreitis, Ég geri satt að segja ráð fyrir, að allir þm. gætu flutt engu veigaminni rök fyrir ýmsum þörfum kjördæma sinna, ef út í þá sálma væri farið. Mér sýnist þessir þm. helzt vera að gera leik að því að spilla því samkomulagi, sem gert hefur verið um afgreiðslu fjárlaganna, og vænti þess, að till. þeirra verði ekki samþ. Ég skal þó í sambandi við till um bjargráð fyrir Sléttuhrepp og Grunnavíkurhrepp geta þess, að það mál er margrætt í fjvn., og hún hefur fulla sanníð með þeim, sem þar eru, en Það er hættulegt fyrir fjárveitingavaldið að fara inn á þessa braut. Hér er ekki um einstakt tilfelli að ræða, því miður, sama sagan er að gerast allt of víða. Ég veit t. d ekki betur en Auðkúluhreppur í Ísafjarðarsýslu sé að mestu kominn í eyði, og eins er að fara með Dalahrepp og ég hygg fleiri hreppa, og það er því hætt við, að ekki yrði hægt að nema staðar við þær 75 þús. kr. sem hér um ræðir, þó að þær væru greiddar. Auk þess er ekki að vita, að fé þetta kæmi að fullu gagni, eins og komið er, og n. hefur af fyrrgreindum ástæðum ekki viljað fallast á að leggja þetta til.

Í sambandi við Jón í Engidal þá er ég persónulega hlynntur þeirri fjárveitingu, en æskilegt væri að undirbúa málið þannig, að landlæknir mælt með þessu. (HV: Hann mælir með því.) Það vantar skýrt bréf um það. Hins vegar er ekki hægt að neita því, að ef þessi sóttkví hefur verið til að fyrirbyggja taugaveikisfaraldur, þá er það þungt á metunum, en ég fylgi ekki þessari till. núna, en það má undirbúa þetta mál síðar.

Ekki er ég sammála hv. þm. N-Ísf. um aflatryggingarsjóðinn. Menn munu ganga eftir sínum rétti, og því þarf enga heimild um þetta í fjárlögum.

Í sambandi við brtt. frá hv. 1. þm. Árn., um styrk til rímnafélagsskaparins til þess að gefa út rímur, þá er það að athuga, að það er einn að beztu atvinnuvegum í landinu að gefa út bækur. Íslendingar hafa keypt bækur fyrir 20 millj. kr. síðastliðið ár. Og ég veit ekki annað en útgáfa á Númarímum hafi gengið prýðilega og gefið viðkomandi aðilum mjög mikla peninga. Ég held, að það sé þess vegna ekki ástæða til þess að samþ. þessa brtt. Ég sé ekki, að ástæða sé til að bendla þessa beiðni um fjárstyrk til þessa félagsskapar við þá menningu, sem rímnakveðskapurinn hefur varðveitt á umliðnum öldum. Ég álít, að það sé allt of langt sótt til stuðnings þessu máli. Ég mun því ekki leggja til, að brtt. verði samþ.

Viðvíkjandi byggingarstyrk til Nínu Tryggvadóttur þykir mér rétt að leiðrétta þann misskilning, sem komið hefur fram, að þessi styrkur sé tekinn til baka í hegningarskyni fyrir það, að hingað hefur verið flutt mynd, sem hún hefur málað. Það er alger misskilningur. að það hafi haft nokkur áhrif á fjvn. Ef um slíkt væri að ræða, að það stafaði af því, að þessi mynd hefði verið hingað flutt í alþingishúsið, þá mætti flytja hana burt. En nú fannst mér það helzt að skilja á hv. 2. landsk. þm. (KTh), að hann vildi, að málverkið væri flutt inn í sameinað Alþ., til þess að við þm. gætum sem bezt horft á þessa fögru mynd, þegar við erum við störf þar. Ástæðan til þess, að þessi liður er dreginn til baka, er sú, að það var ekki samkomulag um hann. Og þar að auki var upplýst, að svo og svo mikill styrkur hefði verið veittur frá menntamálaráði til þessarar listakonu. Þá er og rétt að upplýsa, að það er ekki nema að nokkru leyti rétt, sem sagt hefur verið um þessa mynd. Formaður menntamálaráðs hefur tjáð mér, að það hafi ekki verið getið fyrir myndina 9 þús. kr., eins og heyrzt hafði,.heldur hafi Nínu Tryggvadóttur verið veittar 4 þús. kr., ekki sem greiðsla fyrir þessa mynd, en gegn því, að hún afhenti einhverja mynd eftir sig, og mætti hún velja hana sjálf. Hún kom svo með tvær myndir. og tók hann þá mynd, sem hann áleit, að væri heldur betri. En ég er ekki viss um, að formanni menntamálaráðs hafi fundizt jafnfagrar línur í myndinni eins og hv. 2. landsk. þm. talaði hér um í dag.

Um byggingarstyrk til Gunnlaugs Blöndals er það að segja, að hann er að vísu ekki viðkomandi þeim 80 þús. kr., sem hann hefur fengið af opinberu fé fyrir verk, sem hann ætlar að vinna fyrir ríkið. Það er ekki neinn styrkur, heldur vegna samnings fyrir ákveðið verk, sem hann á að inna af hendi. En þetta kann að hafa haft áhrif á það, að ekki var talin eins mikil þörf á byggingarstyrk nú.

Þá er hér ein brtt., sem ég vildi biðja hv. þm. að veita nokkra athygli. Það er brtt. frá hv. 1. þm. N-M. um endurgreiðslu á tolli af sænskum húsum. Mér þykir rétt að skýra gang þessa máls í fjvn. Þannig er mál með vexti. eins og hv. þm. tók fram, að heimilað var með bráðabirgðaákvæði í l., að ríkissjóði væri heimilt að endurgreiða toll af innfluttum húsum, að mig minnir sænskum, sem flutt voru inn á árinu 1946. Þegar átti að fara að endurgreiða þennan toll, kom í ljós, að nokkuð af sænsku húsunum var flutt inn 1945, en þó einnig nokkru fleiri 1947. Nú þótti rn. ekki gerlegt að endurgreiða toll af þeim húsum, sem flutt voru inn 19i6, en ekki af húsum, sem flutt voru inn 1945 og 1947, því að þá kæmi fram nokkurt ranglæti í þeirri endurgreiðslu. Hins vegar mun ekki vera til heimild til þess að endurgreiða toll af öðrum húsum en þeim, sem flutt voru inn 1946. Þetta hefur verið til athugunar hjá tollstjóra, sem mælti gegn endurgreiðslu á tolli af húsum, sem flutt hefðu verið inn 1946, taldi það vera ranglæti gagnvart þeim, sem flutt hefðu inn hús 1945 og 1947 og áttu ekki sök á því, að þau voru ekki flutt inn á árinu 19t6, því að það var vegna skipafélaganna, sem það var ekki hægt. Till. er um endurgreiðslu á 730 þús. kr., og er það hluti af tollinum og gert ráð fyrir að taka þá með öll árin. Á þetta hefur fjvn. ekki viljað fallast. Og mér skilst, að ríkisstj. hafi ekki viljað greiða tollinn af þeim af þeirri ástæðu, að hún telur sig ekki hafa heimild til þess samkv. l. nema aðeins fyrir þetta eina ár. — Fyrir fjvn. liggja einnig beiðnir um endurgreiðslu á tolli á innfluttum mótorbátum á þessum árum. Mun hann nema um 1 millj. kr. Fjvn. telur, að það sé naumast hægt að mæla með endurgreiðslu á tollum af timburhúsum, en neita að endurgreiða toll af bátum. Þó má segja, að þessi mál séu ekki bundin saman, en hér er um endurgreiðslu á tollum á sama tíma að ræða, og ekki verður því neitað, að sænskir bátar hafa ekki verið minni byrði á þeim, sem þá keyptu, en sænsku húsin á þeim. sem þau hafa keypt. — Í þriðja lagi liggur fyrir fjvn. beiðni frá nokkrum skipasmiðum, sem tekið höfðu að sér að byggja báta fyrir ríkisstj. á sama tíma, sem Landssmiðjan tók að sér að byggja báta fyrir ríkisstj. Landssmiðjan mun hafa tapað 250 þús. kr. á bát, alls um 1 millj. kr. Nú hafa þessir menn óskað eftir, að ríkisstj. bætti þeim upp það tap, sem þeir hafa orðið fyrir vegna þessara bátasmíða, sem mun vera um 75–100 þús. kr. á bát. Á bak við þetta liggja fastir samningar, þar sem ákveðið er, hvað smiðirnir eigi að fá fyrir smíðina. Þeir voru hins vegar svo óvarkárir að taka ekki allt nægilega fram. Þeir telja, að smíðin hafi a.m.k. orðið dýrari en gert var ráð fyrir fyrst, og hafa þeir orðið fyrir miklu tjóni. Nú voru einnig till. um að endurgreiða þessum mönnum allan þann toll af efni til þessara báta og minnka þannig tapið, en hér mun vera um 1 millj. kr. að ræða. Ef þessari beiðni væri sinnt, mundi það hafa í för með sér, að allir skipasmiðir á landinu, sem ekki hafa smíðað skip fyrir ríkisstj., mundu koma og segja: Við eigum líka kröfu á að fá endurgreiðslu á tollum á efni til báta, sem við höfum smíðað. — Ég er ákaflega hræddur um, að erfitt yrði fyrir ríkisstj. og fjvn. að draga þarna línur á milli. En ef farið yrði út á þá braut að gefa eftir þessa tolla, mundi það nema um 4–5 millj. kr. fyrir ríkissjóð. Þess vegna leggur fjvn. alveg á móti því, að endurgreiddur sé tollur af þessum húsum. Ég get hins vegar lýst því yfir, að ef þessi brtt. skyldi verða samþ., um að endurgreiða toll af sænsku húsunum, þá mun ég ekki sjá mér annað fært í fjvn. en að taka málið alveg upp að nýju og fá þá alveg sérstaka afgreiðslu um það, hvort ekki skuli lagt fyrir ríkisstj., að allur tollur af því, sem ég hef nú talið upp, verði endurgreiddur, en eins og ég sagði áðan, mundi það kosta ríkissjóð um 3–5 millj. kr. Þetta vildi ég, að hv. alþm. hefðu í huga, þegar þeir greiða atkv. um þessa brtt., sem hv. 1. þm. N-M. hefur flutt.

Hv. 1. þm. N–M (PZ) sagði hér, sem reyndar kom ekki þessu máli við, að Alþ. hefði tekizt mjög illa með afgreiðslu fjárl. Hann sagði, að það hefði ekki verið ráðizt á ýmsa eyðslu, og sérstaklega hefði ekki verið gerð tilraun til þess að fá því breytt, að merin hefðu lengri vinnudag. En í des. s.l. bar ég fram till. í sambandi við afgreiðslu dýrtíðarlöggjafarinnar um, að tekið skyldi inn á frumvarpið ákvæði um, að embættismenn skyldu hafa 48 vinnustunda viku. Ég man ekki betur en einmitt þessi hv. þm. greiddi atkv. gegn þessu. En það er þá gott, ef honum hefur snúizt hugur síðan. Ég hafði líka heyrt frá hæstv. ráðh., að það hefði verið tímabært að taka þetta ákvæði inn í l. Mér þótti rétt að láta þetta koma fram að gefnu tilefni.

Vegna brtt. á þskj. 582 frá hv. 4. þm. Reykv., vildi ég aðeins leyfa mér að spyrja, hvort það sé rétt stefna að leyfa hvaða einstaklingi í landinu sem er að setja upp leikskóla, ef hann á svo að eiga kröfu á þingið um fjárveitingu. Á að skilja það þannig, að hvaða maður sem er geti sett upp leikskóla, enda þótt hann hafi takmarkaða hæfileika ti1 þess, án þess að það sé gert í samráði við ríkisstj. eða menntmrh., og geti svo síðan komið til Alþ. og sagt, að því beri skylda til þess að leggja fram fé til þessarar stofnunar? Ég er ekki á þeirri skoðun. Leikskólar í landinu eru stofnanir utan við allt skólakerfi. Fjvn. hefur ekki viljað mæla þarna sérstaklega með þessum styrk, af því að hún lítur svo á, að þessi braut sé röng. En ef hæstv. menntmrh., sem á að úthluta þessu fé, telur, að hyggilegt sé að láta það ganga til Ævars Kvarans, þá gerir hann það. Við í fjvn. vildum ekki ýta undir það, að hver maður gæti eins og honum sýndist sett upp leikskóla og komið svo og sagt: Ég á kröfu á því að fá svo og svo mikið fé, jafnvel þó að það liggi ekki fyrir, að þessi leikskóli sé betri en aðrir. — Ég hef séð þessi plögg frá leikskólum, og ég gef ekki mikið fyrir þau. Það er sagt þar, að þeir hafi haft svo og svo marga einstaklinga við nám án þess að þeir hafi greitt skólagjald, sem ég veit ekki, hvort ástæða er til á þessum tímum, að kenna þeim frítt. Og það er ekkert í þessum plöggum. sem sýni eða réttlæti, að fé verði veitt til þessara skóla. Við höfum því sett þetta þannig að hafa þetta á valdi menntmrh., sem þá á að ganga úr skugga um það eða láta fræðslumálastjóra ganga úr skugga um það, hvað sé' réttast í þessu efni.

Í sambandi við brtt. frá hv. 1. þm. Eyf. um veiting fjár til Grímseyjar vil ég benda á, að það var gert með fullri vitund að veita ekki fé til byggingar bryggju í Grímsey, af því að svo mikið fé er í geymslu til þessara framkvæmda eins og hann upplýsti. Þar að auki hefur vitamálastjóri ekki tekið þennan stað upp í sínar till. Það var því ekki ástæða til fyrir fjvn. að leggja til, að þetta yrði hækkað, og þá ekki sízt, þegar vitað var, að ekki var hægt að veita nægilegt fé til þeirra staða, sem áttu ekki fé í geymslu hjá ríkissjóði, eins og þarna á sér stað með Grímsey.

Út af brtt. hv. þm. A-Húnv. um Skagastrandarveginn hefur fjvn. rætt það atriði, og er henni ljós sú þörf, sem þar er um að ræða. En henni er líka fullljós sú þörf, sem er á að bæta við marga aðra vegi á landinn. Hennar úthlutun eða skipting á vegafénu er náttúrlega enginn Salómonsdómur, og er það þá á valdi hæstv. Alþ... hvort það vill breyta gerðum n. En fjvn. getur ekki á þessu stigi málsins mælt með því, a þessi brtt. verði samþ.

Ég held, að það sé ekki annað, sem komið hefur fram hér við þessar umr., sem ég þarf að minnast á að sinni.