19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

129. mál, fjárlög 1948

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að benda hv. frsm. á það, að mér virðist koma fram hjá honum mjög mikill misskilningur á minni brtt. Hann var að telja upp þær afleiðingar, sem hann taldi, að mundu verða af því, ef mín brtt. væri samþ. Ég vil benda honum á, að þau sænsku hús, sem komu inn á árinu 1945, eru flutt inn af mönnum, sem gerðu ráð fyrir því að fá tollinn ekki endurgreiddan. Það er fyrst eftir að búið er að samþ. bráðabirgðaákvæði l., sem um tollinn fjalla, sem það er í raun og veru búið að gera samning — óbreyttan samning við þá menn, sem vilja flytja inn þessi hús á árinu 1946, samning um að fá tollinn endurgreiddan. Og það, sem mér finnst fyrst og fremst skipta máli í þessu, er, hvort Alþ. rennur frá sínum gerðum í þessu efni. — Og á sama hátt er svo hitt, að ég vil ekki láta Alþ. renna frá samningum sínum gagnvart þeim mönnum, sem hér hafa smíðað báta fyrir ríkissjóð. Þeir eru smíðaðir eftir ákveðnum samningi. Og þó að menn kæmu svo á eftir og segðu: Hagurinn er óhagstæður og menn tapa á smíði. bátanna, — þá er það annað mál og kemur ekki hinn við, sem er gerðir samningar um eftirgjöf tollsins af húsunum. Spurningin er því, hvort Alþ. vill standa við það, sem það hefur gefið mönnum vilyrði fyrir, að þeir mundu fá. Ég skal ekki bera á móti því, að þeir, sem hafa flutt inn báta, hefðu gott af því að fá gefinn eftir af þeim toll, og að svipað geti staðið á um þá að því leyti eins og innflytjendur sænsku húsanna. En þeir, sem bátana hafa flutt inn., hafa aldrei getað flutt þá inn með þeirri vissu, að Alþ. væri búið að lofa með lögum, að tollur af bátunum yrði eftir gefinn. Þar er munurinn. Það hafði ekkert vilyrði verið gefið fyrir því, að gefinn yrði eftir tollur af sænsku bátunum, sem hins vegar átti sér stað gagnvart sænsku timburhúsunum. Þegar flutt voru inn sænsk timburhús árið 1946, þá gerðu menn það með þeirri vissu, að tollur mundi verða gefinn eftir af þeim. Og til þess að gera ekki Alþ. ómerkt að orðum sínum, er það sem ég flyt þessa brtt.

En ég vil benda á önnur atriði í sambandi við afgreiðslu fjárl. Hér er gengið inn á dálítið nýjar brautir og sumar mjög varhugaverðar, og ég vona, að hæstv. ráðh. framkvæmi þær ekki. Þar á meðstj. vil ég nefna, að það er heimiluð há fjárveiting í veg á Reykjanesi, mig minnir 200 þús. kr., sem á að liggja samhliða öðrum ágætum vegi, einum af beztu vegum, sem gerðir hafa verið hér á landi. Þessi vegur er ekki á vegalögum. Nú á að leggja fé þannig í, og það sparast vegalengd um h.u.b. 5 km leið við að leggja fé í þennan veg, sem er ekki á vegalögum og ber ekki að leggja fé frá ríkinu í á þennan hátt, eftir öllum venjum og landslögum. Og þessa heimild á að veita á sama tíma, sem Patreksfirðingar líða skort af því, að þá vantar mjólk vegna vegaleysis. — Þetta er ekki alveg nýtt hér hjá okkur. Því að í fyrra fékkst ekki að láta gera þjóðveg frá Gemlufalli og niður að sjónum. Vegurinn á þessum kafla var samt sem áður byggður fyrir ríkisfé, en hann er ekki enn í þjóðvegatöln í vegal. En ríkissjóður er búinn að byggja hann. Ég álít varhugaverða leið að byggja vegi fyrir ríkisfé, sem eru ekki á vegal., og sérstaklega ef þeir liggja þannig, að allur almenningur telur enga þörf á að byggja þá. Og ég treysti því, að hæstv. fjmrh. noti ekki þessa heimild, þó að hún verði samþ. Vona hann hafi vit fyrir Alþingi.