23.03.1948
Sameinað þing: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

129. mál, fjárlög 1948

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Það var undrafátt, sem hægt var að henda reiður á eða taka alvarlega í hinni löngu og yfirspenntu ræðu, sem hv. 2. landsk., Einar Olgeirsson, flutti hér í gær. Það var þó ljóst af ræðunni, að hv. þm. er einn af þeim trúuðu í söfnuðinum, einn af þeim ofsatrúuðu. Hann minnti mig með köflum á frægan predikara, sem ég stundum hlusta á að gamni mínu tala á kassa niður á Lækjartorgi.

Þm. boðaði þjóð sinni ógn og skelfingu, dauða og tortímingu, ef hún tæki ekki skyndilega sinnaskiptum og endurfæddist til annarrar og betri trúar í innanlands- og alheimsstjórnmálum. Annað veifið var helzt að heyra, að íslenzka ríkisstj. væri vel á vegi með framferði sinn að steypa allri veröldinni út í ófriðarbál, sem fyrst og fremst mundi tortíma henni sjálfri. Hitt veifið skildist manni samt, að ófriðarhættan stafaði fyrst og fremst af Bandaríkjunum, hinu ægilega dollaraveldi, eins og þm. nefndi þau, ásamt fleiri uppnefnum, sem með hinni óstöðvandi yfirgangs- og heimsveldisstefnu sinni væri að hrinda hinum friðelskandi þjóðum veraldarinnar út í blóðugt varnarstríð. Óneitanlega hljómar það nú sennilegar, að heimsfriðnum gæti fremur stafað hætta af Bandaríkjunum en Íslandi. Hitt er svo annað mál, hversu alvarlega menn taka almennt slíkar ásakanir. Það væru a.m.k. nokkuð snögg sinnaskipti hjá þjóð, er getur lagt sögu sína sem fylgiskjal fyrir þeirri staðreynd, að hún hefur aldrei háð árásarstríð gegn neinni þjóð, stórri né smárri, og ætíð virt landsréttindi friðsamra þjóða og gengið að samningaborðinu við þær eins og jafningi, et' hún hefur viljað við þær skipta. Þjóð, sem aðeins hefur háð styrjaldir við aðra til að stilla til friðar, þegar árásarþjóðir hafa verið búnar að hleypa heiminum í ófyrirsjáanlegan voða með ofbeldi og yfirgangi, eða til að verja sitt eigið land. Það væru snögg umskipti, ef þjóð, sem í síðustu styrjöld jafnframt því að eiga hendur sínar að verja gegn herskáum nágranna, gráum fyrir járnum, ekki aðeins jós hinum nú margumtöluðu forhötuðu dollurum til styrktar öðrum þjóðum, er eins stóð á fyrir, heldur tefldi í hættu lífi milljóna af sonum sínum í frelsisbaráttu annarra þjóða og þar á meðal rússnesku þjóðarinnar. Nú er okkur sagt, að þessi sama þjóð sé albúin að steypa veröldinni út í nýja styrjöld, vegna taumlauss haturs til sinna fyrri samherja og skjólstæðinga. Það trúir hver því, sem honum trúlegt þykir í þeim efnum. Annars er óþarfi að vera með líkindaútreikning í þessum efnum. Kjarninn í ræðu þm. kom svo óvenjulega skýrt í ljós í gegnum allt málæðið, í lok ræðunnar. Og kjarninn var þetta: Ef Íslendingar sjá ekki að sér og taka þegar upp aðra og heillavænlegri stefnu, að hans dómi, þá er landið í bráðum voða og þjóðin getur búizt við því að verða þurrkuð út af hnettinum. Ef hún hins vegar snýr af villu síns vegar og hættir dekrinu við hið „svívirðilega dollaravald“, þó að það að dómi hans hlyti að skapa íslenzku þjóðinni ónáð þess, þá er öllu óhætt, þaðan er enginn voði aðsteðjandi fyrir land né þjóð. Gat þm. sagt öllu skýrar, hvers konar og hvaðan yfirvofandi hætta sú er, að hans eigin áliti, sem hann telur, að geti haft jafnörlagaríkar afleiðingar fyrir þjóð hans? „Það var ekki skýrt, en menn skildu það þó, á Skagafjörð benti það allt“, var einn sinni kveðið. En þetta var skýrt, hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, og þökk fyrir það.

Þm. skýrði frá skoðun ungrar stúlku, er hún hafði látið í ljós við útlending, um það, að henni væri lífið lítils virði, ef það ætti eftir að ske, að þjóð hennar yrði þurrkuð út af hnettinum. Ég býst við, að margir landar hennar gætu þar tekið undir með henni. Öllum þjóðhollum mönnum er land þeirra og þjóð, með kostum sínum og göllum, helgidómur, sem þeir þola ekki að afmáð sé fyrir augum þeirra. Þess vegna leggja þeir jafnan líf sitt í hættu til að verja land sitt og þjóð, þegar þeim er ógnað af utanaðkomandi háska, ef nokkrum vörnum verður við komið. Þetta skiljum við Íslendingar, þó að við séum — eða máske af því að við erum varnarlausastir allra varnarlausra. Þess vegna höfum við flestir fundið sárt til með ýmsum þeim smáþjóðum, sem á undanförnum árum hafa reynt að heyja oft örvæntingarfulla og vonlausa varnarbaráttu fyrir frelsi sínu og tilveru. Ég sagði flestir Íslendingar, en því miður ekki allir, því að sumir landar okkar virðast hafa hlakkað yfir óförum þessara smælingja.

En það er fleira, sem okkur Íslendingum, eins og flestum norrænum og vestrænum þjóðum, er heilagt. Okkur eru mjög hin almennu mannréttindi, sem öndvegismenn og öndvegisþjóðir allra alda hafa barizt fyrir og gefið einstaklingum og þjóðum. akkur er heilagt frelsið til að hugsa og láta skoðanir okkar í ljós í ræðu og riti, hvort sem valdsmönnum þjóðarinnar á hverjum tíma líkar betur eða miður, frelsið til að haga athöfnum okkar og lífi eins og hugð okkar og samvizka segir, innan þeirra takmarka, sem almennt velsæmi og hagsmunir heildarinnar leyfa. Og við metum þessi og þvílík réttindi svo mikils, að ég efast um, að okkur mörgum hverjum væri lífið nokkurs virði, ef þetta væri af okkur tekið, þó að við fengjum að ráfa þannig um í landi okkar, sem þá væri orðið okkur aðeins viðáttumikið fangelsi. Þannig litu milljónir manna á þessi mannréttindi, þegar ofurvald nazismans fór með eldi um heiminn á undanförnum árum, og vildu heldur fórna lífi sínu en þessum dýrmætu gæðum lífsins. Og þannig mun það vera enn um mikinn hluta hins siðmenntaða heims, þrátt fyrir allt og allt. Það mundi flestum finnast, að þeir biðu tjón á sálu sinni, ef slík ógn ætti yfir þá að ganga. Og enn eru þau í gildi hin fornu lífssannindi: „Hvað stoðaði það manninn, þó að hann eignaðist allan heiminn, ef hann biði tjón á sálu sinni.“ — Það má segja hv. þm. til hróss. að í þessum kafla ræðu hans kom fram meiri og nýstárlegri hreinskilni en við var að búast og almennt er að venjast í þeim herbúðum.

Þar sem hann svo minntist á innanlandsmálin, bar heldur minna á nýjabragðinu. Þar var spiluð sama gamla grammófónplatan, sem gengið hefur látlaust hjá málgögnum flokksins og ræðumönnum hans, innan þings og utan, síðan núv. stj. var mynduð. Þm. skipti ekki einu sinni um nál, svo að maður kannaðist við hljóðin. Aðalefni þeirrar „hljómkviðu“ er þetta: Núv. ríkisstj. er til orðin fyrir samtök vondra manna og saman sett af vondum mönnum, sem hafa það takmark eitt með starfi sínu að níðast á þjóð sinni, nema þá helzt á nokkrum útvöldum gæðingum. Að þessu stefnir hún og verður vel ágengt. Viðleitni ríkisstj. til að stöðva verðbólguna og draga úr henni stafar af löngun hennar til að þrengja kosti almennings í landinu. Þegar hún reynir að beita sér gegn auknum útgjöldum fjárlaganna, er það af fjandskap við umbætur og framfarir. Þegar hún gerir tillögur til tekjuöflunar, svo að unnt sé að mæta útgjöldunum, sem Alþingi hefur ákvarðað, er það eingöngu af löngun til að skattpína þjóðina. Þegar hún beitir sér fyrir ráðstöfunum, sem að því miða að nýta á sem hagkvæmastan hátt hinn takmarkaða gjaldeyri þjóðarinnar, þá er það eingöngu til að níðast á einstökum mönnum og stofnunum og varna þeim að verja fjármunum sínum að eigin vild, því að enn þá á að vera hægt að veita öllum allt, sem þeir óska í þeim efnum, aðeins ef ekki vantaði til þess viljann hjá ríkisstj. Og þegar ríkisstj. sjálfri verður vant nægrar fúlmennsku til þessara skemmdarstarfa, þá fær hún í lið með sér steinrunnar embættismannaklíkur til að fullkomna verkið. En þetta er gælunafn, sem kommúnistar hafa valið fjárhagsráði og viðskiptanefnd. — Um landsbankavaldið þarf varla að ræða. Það er alltaf öruggt vígi til liðsemdar hverju skemmdarstarfi í þjóðfélaginu. — Svona mætti lengi telja. En dramatískust er þó lýsingin á því ægilega áfalli, er ríkisstj. varð fyrir á hermdarverkabraut sinni, þegar síldin kom öllum að óvörum inn á Hvalfjörð síðast liðið haust og kollvarpaði í einu vetfangi 2illum hinum djöfullegu áformum ríkisstj. um að koma þjóðinni í svelti þegar á þessum vetri.

Svona er máske hægt að tala með árangri í þeim löndum, þar sem tekizt hefur að hraðfrysta hugsanalíf heillar þjóðar. En það þýðir ekki að bera svona krásir á borð fyrir íslenzkan almenning, — ekki enn þá og verður vonandi aldrei. Læt ég svo útrætt um þetta.

Það var í umræðunni í gærkvöld gefið yfirlit um höfuðdrætti í starfi ríkisstj. til viðnáms þeim vanda, sem að höndum hefur borið og þjóðin á nú við að glíma: dýrtíðina, fjárskortinn almennt. Tel ég því enga þörf að bæta við það, en tel hins vegar rétt að gera nokkra grein fyrir aðgerðum ríkisstj. og stuðningsliðs hennar á þingi í veigamiklum málaflokki, sem fellur undir mitt ráðuneyti, en það eru landbúnaðarmálin, og mun ég þar stikla á því helzta.

Eitt af þeim málum, sem um var samið við stjórnarmyndunina, var það að fela félagssamtökum bændastéttarinnar meira vald og ráðstöfunarrétt yfir sölu og sölumeðferð afurða sinna en áður hafði verið og fá þeim í hendur hliðstæðan rétt í þeim efnum við þann, sem stéttarfélögum neytenda hefur fyrir löngu verið lögtryggður um kaup þeirra og kjör. Þetta ákvæði stjórnarsamningsins var framkvæmt þegar á þinginu 1947 og kom til framkvæmda á því ári. Í þeirri löggjöf var einnig lögfest ákvæði, sem verið hefur mikið áhugamál bændastéttarinnar, að fá viðurkennt til frambúðar, að þeim bæri það verð fyrir framleiðsluvörur sínar, er gæfi þeim svipaðar tekjur og öðrum almennum starfsstéttum landsins. Á þeim grundvelli fengu þeir síðast liðið haust verðhækkun til móts við hækkanir þær á framleiðslukostnaði og kaupgjaldi, sem orðið höfðu undanfarið ár. Var löggjöf þessi í samræmi við þær kröfur, er Stéttarsamband bænda hafði gert frá stofnun þess, og sett í samráði við það.

Þá tel ég rétt að minnast annars máls náskylds þessu, sem nú er nýlega afgr. frá Alþingi fyrir atbeina núv. stjórnarstuðningsmanna, en það er breyt. á l. um búnaðarmálasjóð. Er sú breyting þannig, að hér eftir verður tekjum sjóðsins skipt jafnt milli Stéttarsambands bænda og búnaðarsambandanna, til frjálsra, kvaðalausra ráðstafana þeirra til að standa straum af kostnaði við félagssamtökin og til framkvæmda, er þau hafa með höndum. Er þetta í samræmi við ályktun, sem aðalfundur Stéttarsambands bænda á Akureyri síðast liðið haust samþ. einróma og stjórnir allra búnaðarsambanda landsins féllust á nær einróma, þegar þeirra álits var leitað um málið fyrir skömmu. Er þar með bundinn endir á allviðkvæmt deilumál, sem mikill styr hefur staðið um á Alþingi og utan þess nú um skeið. Höfuðandstaðan gegn þessu máli kom frá kommúnistaflokknum, sem óskiptur, eða því sem næst, beitti sér gegn því, ásamt nokkrum öðrum fylgifiskum þeirra í þessu máli. Kom það í ljós, sem ég hef áður haldið fram, að það voru þeir, sem frá upphafi beittu sér gegn því, að félagssamtök bænda fengju þessar tekjur og til eigin ráðstöfunar, þó að þeim tækist liðsafnaður með ólíklegasta móti til þessara ofbeldisráðstafana og nytu þar áhrifa sinna meðan þeir sátu í ríkisstj. — Á sama hátt beittu þeir sér af öllu afli gegn því, að félagssamtök bændanna fengju umráð yfir afurðasölumálunum samkv. frv. um framleiðsluráð landbúnaðarins.

Þá vil ég einnig í þessu sambandi minnast á það ákvæði dýrtíðarlaganna, sem fjallar um útflutningsábyrgð sjávarafurða, að þar var nú veitt hliðstæð verðábyrgð á útfluttu kindakjöti. Gegn þessu ákvæði börðust kommúnistar einnig með hnúum og hnefum. Þetta er þó augljóst réttlætismál, þar sem verðlag landbúnaðarvaranna og þar með tekjur bænda eru við það miðaðar, að hið ákveðna verð fáist fyrir alla söluvöruna. Með því að verða að selja verulegan hluta af kjötinu erlendis með stórum lægra verði en bændum hafði verið ákvarðað, lækkuðu tekjur þeirra að sama skapi niður fyrir meðaltekjur annarra þeirra stétta, sem við var miðað. Og landbúnaðarframleiðsla er engu síður þjóðnauðsynleg en framleiðsla sjávarafurða. Hún sparar þjóðinni stórfé í innflutningi fæðu og klæðnaðar og veitir henni gjaldeyri, það sem út er flutt. Sé það því réttmætt, að ríkið verji sjávarútveginn áföllum vegna hins gífurlega framleiðslukostnaðar af völdum verðbólgunnar, með ábyrgðarverði á útflutningnum, sem flestir munu telja óhjákvæmilegt eins og sakir standa, þá á landbúnaðurinn vitanlega sömu siðferðiskröfu gagnvart sínum útflutningi.

Þá er enn þess að geta, að á síðasta ári hefur að fullu verið unnt af hendi greiðsla ríkissjóðs vegna ullar þeirrar, sem ríkissjóður tók verðábyrgð á á stríðsárunum og hafði staðið óuppgerð árum saman. Nokkuð af ullinni hafði þegar verið selt, en verzlanirnar höfðu ekki getað gert upp við bændurna, þar sem allmikið stóð enn þá inni hjá ríkissjóði vegna óseldrar ullar og áfallins kostnaðar. Voru bændur orðnir alllangeygðir eftir greiðslu, sem og vonlegt var. — Litlu eftir að núv. ríkisstj. var mynduð, tók hún mál þetta til meðferðar og galt verzlununum mikinn hluta eftirstöðvanna með bráðabirgðaláni, sem hún tók. Síðar á árinu fór svo fram endurskoðun á þessum viðskiptum og kostnaði á geymslu ullarinnar, og voru þeir reikningar greiddir að fullu í árslok, með 4 millj. og 600–700 þús. kr., sem ríkið varð nú í fátækt sinni að taka að láni til að fullnægja þessum gömlu skuldbindingum.

Þá tel ég rétt að gera nokkra grein fyrir lánaútvegun ríkisstj. vegna hinna ýmsu deilda Búnaðarbankans. — Fyrir Alþingi 1946 voru lögð lagafrv. um lánsútveganir fyrir sjávarútveginn og landbúnaðinn. Í lögunum um stofnlánadeild sjávarútvegsins voru ákvarðaðar 100 millj. kr. til vissra framkvæmda sjávarútvegsins, svo sem til skipakaupa og hraðfrystihúsa. Lánsöflun til landbúnaðarins var aftur á móti í því formi, að byggingarsjóði Búnaðarbankans skyldi aflað lánsfjár ca. 5 millj. kr. fyrir 1. júlí 1947, auk þess skyldi hann fá árlegt framlag í 10 ár, 2.5 millj. á ári. Til landnáms og nýbyggða skyldi og veita úr ríkissjóði 2.5 millj. árlega í 10 ár. Ræktunarsjóður skyldi fá 1/2 millj. kr. framlag árlega úr ríkissjóði í 10 ár, en auk þess skyldi afla honum 10 milljón kr. láns með lágum vöxtum. Þannig er gert ráð fyrir 15 millj. króna lánsfjáröflun handa landbúnaðinum nú þegar, en 55 millj. kr. framlagi á næstu 10 árum. Þó að hin beinu framlög megi vissulega telja mikil hlunnindi út af fyrir sig, þá fylgir því mikil áhætta að dreifa þeim á 10 ár fram í tímann og gefa þannig ávísun á óvissa framtíð. — Lögin um ræktunarsjóðinn náðu ekki fram að ganga á þinginu 1946, eins og kunnugt er, en var tryggður framgangur í stjórnarsamningi núv. stj. og samþ. á þinginu 1947. Lögin um stofnlánadeild sjávarútvegsins voru hins vegar samþ. á Alþingi 1946 og komu þegar til framkvæmda, og fékk hún allt það fé, sem Landsbankanum var gert að leggja henni. Nú kom það til kasta núverandi stjórnar að afla þeirra 15 millj. kr. til landbúnaðarins, sem að framan getur. En þá voru mjög breyttar ástæður frá því, sem verið hafði. Stofnlánadeildin hafði að vísu fengið það, sem henni bar hjá Landsbankanum, en nú sýndi reynslan, að hana vantaði 60–70 millj. í viðbót til að uppfylla gefin loforð. Og fjöldi annarra fyrirtækja beið með óuppfylltar þarfir fyrir marga tugi milljóna lánsfjár. Það var því enginn leikur að afla, þótt ekki væri nema 15 millj. kr. láns til langs tíma. Ríkisstj. ákvað samt að gera það, sem unnt væri, til að uppfylla gefnar skuldbindingar um lánsútveganir þessar til landbúnaðarins, þó að svo illa hefði til tekizt, að hann hafði lent í annarri röð af þeim fjáröflunarfrv., sem lögð voru fyrir Alþingi 1946 og ég minntist á áður. Hefur mál þetta verið í stöðugri athugun, Bæði síðast liðið ár og það sem af er þessu, og hefur nú fyrir skemmstu verið ráðið til lykta í samráði við Búnaðarbanka Íslands, þannig að lánið til ræktunarsjóðs er fengið, en verður greitt á fjórum árum, fyrsta greiðsla á þessu ári, en lánið til byggingarsjóðs lánar Búnaðarbankinn í bili, en fær endurgreitt frá ríkissjóði á 3 árum af fé því, sem ætlað er til afborgana af skuldum ríkisins.

Er verið að ganga formlega frá málum þessum þessa daga. Er þess að vænta, að með þessu greiðist nokkuð úr brýnustu lánaþörf landbúnaðarins í bili, en því er þó ekki að neita, að enn vantar mikið á, að bætt sé að fullu úr lánsþörf þeirra framkvæmda, er standa fyrir dyrum á næstu árum, engu siður en hjá stofnlánadeild sjávarútvegsins. Samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarbanka Íslands lágu fyrir á síðustu áramótum umsóknir um lán úr ræktunarsjóði um 6.7 milljónir, og úr byggingarsjóði, þar með taldar eftirstöðvar lána, sem byrjað var að veita, fullar 10 millj. kr.

Það er því auðsætt mál, að enn er fyrir dyrum stórkostleg vöntun á lánsfé til hinna margháttuðu framkvæmda, sem bændastéttin hefur nú í undirbúningi, þrátt fyrir þær úrbætur, sem hér hafa á orðið, og ber brýna nauðsyn til að úr verði bætt. Mun Búnaðarbankinn nú hafa í undirbúningi sölu vaxtabréfa fyrir sjóði sína, og er þess að vænta, að allir velunnarar landbúnaðarins, sem laust fé hafa aflögu, styðji þessa fjáröflunarleið með bréfakaupum, þegar þar að kemur. Brýnust er lánsfjárþörfin hjá byggingarsjóði og ræktunarsjóði. Landnámssjóður, sem ætlað er mikið og merkilegt starf í framtíðinni, er enn sem komið er betur settur, vegna þess að það tekur að sjálfsögðu nokkurn tíma fyrir hann að koma starfsemi sinni í fullan gang, en þeim mun meiri verður þörf hans eftir því, sem tímar líða. Af þessum ástæðum þótti helzt fært að fresta um sinn nokkru af þeim greiðslum, er honum ber lögum samkvæmt, og var því gripið til þess úrræðis, þó að neyðarúrræði megi teljast í þeim vanda, sem ríkisstj. var með að fá tekjur og gjöld fjárlaganna til að vega salt.

Þá vil ég að lokum minnast hér mikils nauðsynjamáls, er bændum er mjög hugleikið, en það er bygging innlendrar áburðarverksmiðju. — Haustið 1944 var lagt fyrir Alþingi frv. til l. um áburðarverksmiðju af þáv. landbrh., Vilhjálmi Þór. Var málið m.a. lagt fyrir rannsóknaráð, sem hvatti eindregið til þess, að samþykkt yrðu lög um áburðarverksmiðju, er tryggðu að hún yrði stofnuð, þegar ástæður leyfðu. Eins og kunnugt er, var málinu slegið á frest á þeim grundvelli m.a., að tryggja bæri nægilega raforku til verksmiðjurekstrar, áður en verksmiðjan yrði sett á stofn. Í janúar 1946 skipaði nýbyggingarráð nefnd til þess að rannsaka það og m.a. möguleika á því að fá nægilegt og ódýrt rafmagn til að reka áburðarverksmiðju hér á landi, og yrði miðað við 2500 smálesta ársframleiðslu af hreinu köfnunarefni. Nefndin skilaði allýtarlegu áliti um málið sumarið 1946, og eru niðurstöður hennar þær, að tiltækilegt sé að hefja hér köfnunarefnisvinnslu, en þó ekki fyrr en næsta virkjun Sogsins er framkvæmd. Síðast liðið haust (1947) fól ég svo dr. Birni Jóhannessyni, er verið hafði formaður verksmiðjunefndarinnar, að semja frv. um áburðarverksmiðju byggt á niðurstöðum nefndarinnar, og var ætlunin að leggja það tímanlega fyrir þetta þing. Inn í mál þetta kom svo erindi frá rannsóknaráði eða formanni þess, Ásgeiri Þorsteinssyni verkfræðingi, sem einnig hafði átt sæti í verksmiðjunefndinni, þar sem hann vakti athygli á nýbreytni í framleiðslu köfnunarefnis, sem mjög ruddi sér til rúms, einkum í Bandaríkjunum, og orðið gæti ódýrari og viðráðanlegri í byrjun fyrir okkur Íslendinga, ef athugun og reynsla leiddi í ljós, að hún hentaði hér. — Aðferð þessi er í því fólgin að framleiða í stað fasts köfnunarefnisáburðar ammoníaklög, sem borinn er á sem fljótandi áburður. Kostur þessarar aðferðar er einkum sá, að verksmiðju- og vélakostur er ódýrari og óbrotnari og köfnunarefnið talið um þriðjungi ódýrara en í föstu formi.

Hvort aðferð þessi hentar hér eða ekki, læt ég ósagt. En nú er dr. Björn Jóhannesson vestanhafs að kynna sér mál þetta af eigin sjón og reynslu, og er gert ráð fyrir að reyna þennan áburðarlög hér á landi á vori komandi. — Af þessum töfum varð frumvarpið um áburðarverksmiðjuna síðbúnara en ætlað var, en samt þótti rétt að leggja það fyrir Alþingi sem stefnumál ríkisstj., þó að ekki geti orðið að því unnið á þessu þingi. En rannsóknum og undirbúningi verksins verður enn fram haldið á þessu ári, í von um að geta hrint þessu mikla nauðsynjamáli í framkvæmd á næstu árum.