23.03.1948
Sameinað þing: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

129. mál, fjárlög 1948

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þm. Sósfl. kunna illa við, þegar flett er ofan af afstöðu þeirra eins og hún var á stríðsárunum, og gekk hv. 2. þm. S–M. svo langt í ræðu sinni, að hann neitaði, að þeir hefðu verið á móti Bretum framan af styrjöldinni. Þetta veit hv. þm. sjálfur og aðrir, að er ósatt. Ég hef áður í þessum umr. tínt saman ummæli í Þjóðviljanum, sem sýna glögglega þessa afstöðu, og hvernig hún snérist, þegar Rússar voru komnir í stríðið, og ég get haldið áfram og bætt við, ef kommúnistar vilja. 19. marz 1941 sagði Þjóðviljinn: „Það verður að banna togurunum að sigla út.“ Og nú vill hv. þm. segja, að þessi afstaða hafi verið tekin í blaðinu vegna öryggis sjómannanna, til þess að koma á betri öryggisútbúnaði. Já, nú segja þeir þetta. En hvað sagði Þjóðviljinn 16. apríl 1941, þegar rætt var um aukinn öryggisútbúnað togaranna. Hann sagði orðrétt:

„Þegar menn eru að heimta vopnun togaranna, þá eru þeir beinlínis að vinna að því að koma ógnum og villimennsku nazismans og stríðsins yfir Íslendinga. slíkir handlangarar Hitlers á Íslandi vilja reka sjómennina fyrir fallbyssukjafta fasista.“

Og til þess að taka af allan vafa um afstöðu kommúnista hér framan af styrjöldinni til Breta, þá ætla ég að lokum að tilfæra klausu úr Þjóðviljanum 22. jan. 1941. Þar segir svo:

„Væri landið í slíku ásigkomulagi að geta varið sig, væri Ísland nú í stríði við England eins og Noregur við Þýzkaland.“ — Svo þegar Bandamenn hafa unnið stríðið, þá skríða þessir menn að fótum þeirra og tala með fjálgleik nm það, að Ísland hafi nú fórnað svo miklu fyrir þá í styrjöldinni. En þetta fal sitt á hvað er engin tilviljun, og það er engin tilviljun, að nú er verið að dæma kommúnista erlendis fyrir störf, sem þeim eru metin til landráða.

Hv. 2. þm. S–M. sagði, að ég hefði margt skemmdarverkið unnið meðan ég átti átti í ríkisstj. fyrir styrjöldina. M.a. sagði hann, að ég hefði neitað um leyfi fyrir síldarverksmiðjum og bátum. Ég hygg„ að ég þurfi ekki að bera kinnroða fyrir það, sem hann nefndi, eins og högum var þá háttað. Verðmæti saltfiskútflutningsins hrapaði úr 36 milljónum niður í 17 millj. króna á ári af á milli 40 og 50 millj. króna heildarútflutningi, og ýmsir aðrir erfiðleikar voru eftir þessu. En á þessu sama tímabili voru þó reist um 25 hraðfrystihús, afköst síldarverksmiðjanna jukust um 150%, og enn fremur varð stórmikil aukning í öðrum verksmiðjuiðnaði og mjólkurbúum. Sogsvirkjuninni var komið á fót og fleiri virkjanir gerður, og þannig matti halda áfram að telja, en á sama tíma, eða þessum fjórum árum, jukust skuldir ríkisins út á við aðeins um 6,5 millj. kr. á móti allri þeirri verðmætaaukningu, sem ég hef nú drepið á.

Þá minntist hv. 2. þm. S-M. á veltuskattinn og söluskattinn og sagði, að Framsfl. hefði svikið í því sambandi, og síðan las hann upp úr Tímanum í sambandi við verzlunarmálin almennt og var hissa á því, að Tíminn skyldi skrifa þannig, er Framsfl. væri í ríkisstj. En þetta sýnir aðeins heilbrigt frjálslyndi Framsfl. Það er hins vegar ekki að undra, þótt kommúnistar séu hissa á slíku, svo gersamlega gagnrýnilaust og þögult um óhappaverkin sem Blað þeirra var á meðan sá flokkur tók þátt í stjórn landsins. En á meðan þeir voru í ríkisstj. og áttu að geta haft áhrif á þetta, gerðu þeir engar till. um það. Það er því ekki einkennilegt, þó að hv. 2. þm. S-M. segist vera hissa á því, að Tíminn og Framsfl. skuli halda áfram harðri baráttu fyrir þeirri stefnu, sem flokkurinn vildi fara, þegar sá flokkur stendur nú að ríkisstj.

Hv. 2. þm. S-M. talaði hér mikið um ýmislegt brask, sem ætti sér stað og væri nú í fullum gangi. En þetta brask, sem er í fullum gangi, er afleiðing af því háttalagi, sem átti sér stað, þegar flokkur þessa hv. þm. var í ríkisstj. Og það er langt frá því, að búið sé að stöðva allt það brask og annað slíkt, sem sett var í gang af þessum flokki hv. þm. á þeim tíma.

Þá talaði hv. 2. þm. S-M. um sjávarútvegsmálin. Það er margt, sem ræðumenn Sósfl. ættu að varast, en alveg sérstaklega að minnast á úfgerð. Þeirra hlutur í þeim málum er þannig, að fyrir þá væri þögnin bezt. En fyrst þeir hafa valið sér það hlutskipti að klifa á þessu, er rétt að gera afskiptum þeirra af útgerðinni örlítil skil.

Fyrstu stríðsárin voru blómatími fyrir íslenzka útgerð og allt fram á árið 1942, en þá skipti gersamlega um og snérist um þverbak fyrir útgerðinni. En hvað var það, sem gerðist 1942? Það var meðal annars það, að kommúnistar, sem höfðu verið studdir til valda í verkalýðsfélögunum og höfðu líf þáv. stj. í hendi sér, notuðu miskunnarlaust aðstöðu sína til þess að reka af stað verðbólguna. Fyrst og fremst bitnaði þetta á sjávarútveginum, útflutningsatvinnuveginum, því að útvegsmenn og fiskimenn gátu ekki velt af sér yfir á aðra. Ég ætla ekki að fara langt út í það að lýsa hér með eigin orðum þeim búsifjum, sem útgerðin hefur orðið fyrir af ráðabruggi kommúnista, en ætla að leiða hér vitni. Það er Landssamband íslenzkra útvegsmanna. Hinn 7. nóv. í haust gerði fjölmenn n. fyrir hönd Landssambandsins grein fyrir, hvernig ástatt er um útgerðarmálin og þróun þeirra síðustu árin. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í nál. því, sem lagt var fyrir fulltrúaráðsfund Landssambandsins hinn 11. nóv. s.l. ár og fulltrúar hafa fengið afrit af á þessum fundi, er i stórum dráttum og skýrum rakið það helzta. sem gerzt hefur í útvegsmálum þjóðarinnar frá því á árinu 1942, þegar vélbátaflotinn var rekinn með viðunandi afkomu, og jafnframt gerð grein fyrir því, hvernig dýrtíðin í landinn, sem síðan hefur jafnt og þétt aukizt ár frá ári, hefur þrengt meir og meir að aðalatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveginum, svo að yfir honum vofði fullkomið öngþveiti eða jafnvel algert hrun, ef ekki yrðu fundnar varanlegar og heilbrigðar leiðir til leiðréttingar i þessum efnum.“

Í umræddu nál. er meðal annars bent á þetta: „Þegar samningar voru gerðir við brezka matvælaeftirlitið 15112 um fisksölur til Bretlands, var vísitala framfærslukostnaðar í landinu 183 stig. Þá var verð á nýjum fiski innanlands, slægðum með haus, kr. 0.45 fyrir kg. Var afkoma vélbátaflotans þá sæmileg og hafði verið frá árinu 1940. Eftir það fer algerlega að halla undan fæti fyrir útveginum í landinu, því að frá þeim tíma fer framleiðslukostnaðurinn ört hækkandi, dýrtíðin vex, en fiskverðið stendur í stað. Þannig reynist meðalvísitala ársins 1913 að vera 257,5 stig, en fiskverðið óbreytt. Árið 1941 er meðalvísitala framfærslukostnaðarins orðin 268.5 stig og fiskverðið enn óbreytt. Enn hefur vísitalan hækkað árið 1945. eða upp í 275.5 stig, en fiskverðið enn að mestu leyti óbreytt, nema hvað greitt var 15% hærra verð — eða kr. 0.52 fyrir kg — fyrir nokkurn hluta fisks þess, sem bátaflotinn seldi til útflutnings i fiskkaupaskip það ár. Árið 1046 er meðalvísitala framfærslukostnaðarins i landinn orðin 2923/4 stig, en hækkar í des. sama ár upp í 306 stig, og er þá fiskverðið aðeins kr. 0.50 fyrir kg.“

Þá er enn fremur bent á hið mikla ósamræmi, sem er á milli tekna (launa) þeirra manna, er fá kaup sitt í hluta af afla vélbátaflotans, og hinna, sem vinna fyrir föstum launum eða tímavinnu i landi, og það i stórum stíl við óarðbæran atvinnurekstur fyrir þjóðarbúið.

Í framhaldi af þessu er gerð grein fyrir hinni brýnu nauðsyn þess að koma sjávarútveginum á heilbrigðan grundvöll, svo að hægt sé að reka framleiðslutækin til sjávarins án fyrirsjáanlegs taprekstrar, og bent á ýmsar leiðir til að ná því marki.

Enn fremur segir svo: „Allur fjöldi vélskipaflotans er sokkinn í skuldir. Eigendur mjög margra skipa hafa ekki getað greitt skipverjum hlut þeirra af síldveiðunum, vátryggingargjöld skipanna, afborganir og vexti af skipum eða önnur nauðsynleg útgjöld.“ Þetta er þokkaleg lýsing á afkomu sjávarútvegsins! Ekki mjög óglæsilegur vitnisburður uni afrek kommúnista í sjávarútvegmálum þau 2 ár, sem þeim var falin forusta í þeim málum. Það er komið svo í lok þessa tímabils, að engin fleyta er talin geta farið á sjó, nema ríkið taki ábyrgð á fiskverðinu, og stendur þó svo tæpt, að ekkert má út af bera, en meginhluti fiskiflotans þá þegar sokkinn í skuldir.

Nú mundu sumir segja, að þetta sé bara barlómur úr útvegsmönnum, og það vantar ekki, að kommúnistar haldi því fram, þegar þeim þykir það henta. þótt þeir hafi útsendara sina í herbúðum útvegsmanna til þess að smjaðra fyrir þeim og reyna að telja þeim trú um, að kommúnistar hafi sérstakan áhuga fyrir afkomu þeirra. En því miður er þessu ekki þannig varið, að hér sé um barlóm útvegsmanna að ræða. Það er bláköld staðreynd, að verðbólgustefnan hefur reytt af útgerðinni það, sem hún var búin að hagnazt framan af styrjöldinni, og hrint henni út í fen taps og skulda.

En hvað er þá um fiskimenn, sjómenn? Hefur þá fjármagnið frá útgerðinni ekki runnið til þeirra? Hafa menn ekki stundum heyrt kommúnista guma af því, að þeir hefðu svo mikinn áhuga fyrir afkomu fiskimanna? En það er nú öðru nær en að þannig hafi verið á málum haldið. Í því sambandi skal ég ekki nefna margar tölur, en rifja upp einn vitnisburð. Sá vitnisburður er frá hendi hagfræðinganna fjögurra. sem gerðu upp fjárhags- og atvinnumálin haustið 1946, sömu dagana og kommúnistar voru að hrökklast frá yfirstjórn sjávarútvegsmálanna. Einn af þessum hagfræðingum hefur að minnsta kosti fram að þessu verið sérstakur áhugamaður í liði kommúnista. En hagfræðingarnir segja svo:

„Þetta yfirlit ætti að nægja til þess að sýna, hversu geysialvarlegt ástandið er nú í þessum efnum. Sjómenn og landmenn vélbátaflotans vinna erfiðara og áhættusamara starf en nokkrir aðrir þegnar þjóðfélagsins. Aðbúnaður þeirra í verstöðvum er víða ekki mönnum samboðinn. Þeir verða mikinn hluta ársins að lifa fjarri fjölskyldum sínum. Það starf, sem þeir inna af hendi, hefur úrslitaþýðingu fyrir velferð þjóðarinnar. Samt fer því fjarri, að þessir menn hafi sambærilegar tekjur við aðra landverkamenn, hvað þá meiri. Um ástæðurnar fyrir þessari þróun þarf ekki að fjölyrða. Vélbátaútgerðin hefur ekki getað tekið þátt í kapphlaupinu um vinnuaflið á síðari árum, vegna þess að verð hennar er ákveðið á erlendum markaði. Um hitt þarf ekki heldur að fjölyrða, að vá er fyrir dyrum, séu ekki skjótar ráðstafanir gerðar til úrbóta, og engin tök verða á að manna skipin, meðan þetta tekjuhlutfall helzt og næg atvinna er í landinu.“

Þetta er ófagur vitnisburður um aðbúnaðinn að hluta- og fiskimönnum, en hann er sannur.

Það er ekki að furða, þótt kommúnistar vilji guma af afrekum sínum í þessum efnum. Það er blátt áfram grátlegt að horfa upp á það, hvernig glæsilegir afkomumöguleikar fyrir undirstöðuframleiðslu landsmanna til útflutnings hafa verið skemmdir og öllu snúið upp í sama baslið og menn þekktu svo allt of vel á tímum verðfalls og markaðstapa fyrir stríð, og út yfir tekur, að svona var á málum haldið og allt sett í þessa sjálfheldu án þess, að nokkrar ytri ástæður kæmu þar til. Það er þrýstingurinn á útgerðina innan frá, sem reið baggamuninn um afkomuna, og kommúnistar lögðu til eldsneytið manna mest, þótt fleiri kæmu þar að.

En með þessu er ekki sögð öll sagan um afrek kommúnista í sjávarútvegsmálum. Af eðlilegum ástæðum vilja þeir nú sem minnst um það tala, sem þegar hefur verið rætt, en í stað þess guma þeir af hinum miklu framkvæmdum. En hverjar voru hinar miklu framkvæmdir sérstaklega? Jú, bygging tveggja síldarverksmiðja, sem allir flokkar höfðu sameiginlega ákveðið, að skyldi komast á fót. Það er því ekkert sérstaklega kommúnistum að þakka, að verksmiðjurnar voru byggðar, en það er framkvæmdin á byggingunum, sem kommúnistar eiga að svara fyrir. Og hvernig tókst hún? Með því blygðunarleysi og þeirri óskammfeilni, sem einkennir forustumenn þeirra, héldu þeir þannig á framkvæmdinni, að annað eins hefur víst aldrei þekkzt i íslenzkri stjórnmálasögu, og hefur það sukk og ráðleysi valdið útgerðinni milljónatuga fremur en milljóna tjóni. Þetta verða útgerðarmenn og sjómenn að greiða á næstu árum í lægra hrásíldarverði. Málefnum útvegsins hefur verið þannig komið, að það er ekki létt verk að bæta úr. Dýrtíðarlöggjöf núv. ríkisstj. er fyrsta tilraunin, sem framgang fékk, sem gerð er til þess að bæta úr þessu, þótt skammt nái. Áður höfðu verið gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að koma í veg fyrir, að svo þyrfti að fara fyrir útgerðinni sem komið er, en þær tilraunir reyndust árangurslausar.

Það þarf ekki að taka það fram, það vita allir, að kommúnistar hafa gengið berserksgang á móti öllum dýrtíðarráðstöfunum ríkisstj., sem fyrst og fremst koma sjávarútveginum til góða. Þeir gera það ekki endasleppt.