23.03.1948
Sameinað þing: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

129. mál, fjárlög 1948

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Hv. alþm. og hlustendur hafa nú hlustað á málflutning stjórnarandstöðunnar, kommúnista, í eldhúsinu að þessu sinni. Sá málflutningur kom okkur, sem til þekkjum, ekki á óvart. Það var sami grautur í sömu skál. Fyrst reið formaður flokksins, hv. 2. þm. Reykv., á vaðið. Var ræða hans hinn undarlegasti samsetningur, blandaður hinum gífuryrtustu árásum á Bandaríkin og venjulegum órökstuddum og ósönnum árásum á ríkisstj. En samtímis var ræða hans blandin mikilli volæðiskenndri hræðslu og um leið ógnunum til íslenzku þjóðarinnar um það, að Ísland yrði eyðilagt og þjóðin afmáð. Minnir það nokkuð á orð rússnesku blaðanna um áramótin 1939–40. þar sem sagt var, að finnsku þjóðina ætti að afmá af yfirborði jarðarinnar. Það var af þeirri ástæðu, að þessu stórveldi þótti hin frjálsa og dugmikla finnska þjóð ekki nægilega eftirlátssöm um afsal á hluta af landi sínu og til þess að veita erlendu stórveldi þar herstöðvar. En mundi nú hv. 2. þm. Reykv. tala í umboði einhvers stórveldis, sem ekki þætti íslenzka þjóðin og ríkisstj. hennar nógu stimamjúk og fús til þess að viðurkenna og játast undir hinn nýja austræna sið? — Hv. þm. ógnaði með atómbombu. Hann á eftir að svara hæstv. utanrrh. um það, hvaðan sú atómbomba ætti að koma. Íslendingar óttast ekki, að stórveldi Vestur-Evrópu né Bandaríkin muni ráðast á Ísland og íslenzku þjóðina, hvorki með atómbombu né öðru. Þessi ríki hafa sýnt það á síðustu tímum, að þau virða rétt og sjálfstæði smáríkjanna og hafa allra sízt í huga að leggja undir sig önnur lönd. En hvaðan á þá atómbomban að koma? Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) á eftir að gera nánari grein fyrir því.

Hv. 2. þm. S-M. (LJós) átti að hafa það hlutverk að bera af flokki sínum þau þungu spjótalög, er að honum var beint í gærkvöld. En varnirnar voru engar, enda var ekki hægt að koma þeim við. Ekkert var hægt að hrekja af þeim rökstuddu árásum, sem beint var að fjárhagsóreiðunni miklu, er dafnaði eins og blóm í vermireit undir verndarvæng kommúnista, þegar þeir voru í ríkisstj. Fjársukkið og spillingin í sambandi við byggingu síldarverksmiðja ríkisins, landssmiðjuna, bátabyggingarnar, flugmálin og fiskimálanefnd var á engan hátt hægt að verja, enda gerði hv. 2. þm. S-M. (LJós) enga frambærilega tilraun til þess. Hann reyndi aðeins af veikum mætti og án árangurs að skjóta nokkrum embættismönnum og starfsmönnum sem skildi fyrir fyrrv. ráðh. kommúnista til afsökunar dæmafáu sukki því og óreiðu, er ríkti undir stjórn kommúnista hvarvetna þar, sem þeir fórn með völd í atvinnu- og fjármálum þjóðarinnar.

Þessi hv. þm. tók undir þann sífellda söng, sem kommúnistar hafa kyrjað það rúmlega ár, sem núv. ríkisstj. hefur setið að völdum. Þegar fyrir ári síðan fullyrtu kommúnistar, að atvinnuleysið væri að halda innreið sína í landið og að stj. væri að auka stórlega á dýrtíðina. En sem betur fer hefur þessi hrunsöngur kommúnista reynzt falskur. Þrátt fyrir allar tilraunir kommúnista til þess að skapa öngþveiti og vandræði í atvinnulífinu hefur tekizt að hindra atvinnuleysi. Og þegar núv. ríkisstj. tók við völdum, var verðvísitalan 316 stig, og nú er hún 319 stig. Þannig hafa kommúnistar reynzt algerðir falsspámenn, þó að ekki hafi þá skort viljann til þess að gera hrunóskir sínar að áhrínsorðum.

Þá vil ég snúa mér að hv. 6. þm. Reykv. (SigfS). Hann sagði aðeins út af þeim aðfinnslum og þeim sönnunargögnum, sem fram voru færð til stuðnings því, sem sagt var um fjársukkið á meðan kommúnistar voru í stj., að það væri að kenna rangri reikningsfærslu þeirra manna, sem þetta unnu. Til þess voru fengnir færir menn og sérfróðir að gera upp sukkið og gefa skýrslu um það, hvernig ástandið væri. Það er alveg áreiðanlegt, að þeir menn, sem tóku þetta að sér og reyndu að komast til botns í þessu sukki, voru fullkomlega starfi sínu vaxnir og hafa enga tilraun gert til þess að láta annað koma í ljós en það, sem var satt og rétt, og var álitið fengið út úr þeim mjög ófullkomnu reikningum og gögnum, sem fyrir lágu. Það þýðir ekki að reyna að skjóta sér undan þessu rökstudda ámæli með því að segja, að færir menn, sem endurskoðað hafa þessa reikningsfærslu og starfsaðferðir, hafi viljað láta eitthvað annað koma í ljós en það sem rétt var. Þeirra skýrsla stendur algerlega óhögguð.

Þá var það önnur aðalaðfinnsla hv. 6. þm. Reykv. (SigfS), að hent hefði verið í það 90 þús. kr. — eins og hann orðaði það — að klastra við sumarbústaði ráðherranna á Þingvöllum nú á síðastliðnu ári. Fyrir nokkrum dögum var frá því skýrt í Þjóðviljanum, að það væru 100 þús. kr. Nú er það komið niður í 90 þús. Ég býst við, að það muni lækka í meðförunum um nokkra tugi þúsunda, a.m.k. þarf það að gera það, til þess að komast nokkuð nærri því rétta. En úr því að nokkuð er á þetta minnzt, er ástæða til að geta um, hver voru höfuðrökin til þess. að nokkuð miklu fé þurfti að verja til alveg bráðnauðsynlegs viðhalds á þessum bústað. Það var sama ástæðan og skýrt var frá í gærkvöld í sambandi við veru kommúnista í stj., að svo illa var farið með fjármuni ríkisins og eignir, að stórtjón varð að. Það skeði það ólán, á sama hátt og ráðh. kommúnista komust í stj., að þeir komust inn í þennan bústað um skeið, og ég hef aldrei komið að ömurlegra býli, sem átti að heita mannabústaður. Hvernig sem á því hefur staðið og af hverju sem það hefur stafað, varð árangurinn af setu þeirra þarna, eins og setu þeirra í stj., að þeir skildu eftir sig auðn og skemmdarverk.

Þessi sami þm. (SigfS) minntist nokkuð á þá ömurlegu staðreynd, sem ég gerði grein fyrir í ræðu minni í gærkvöld, að vegna yfirráða kommúnista hafa íslenzk verkalýðssamtök slitnað úr tengslum við norræn verkalýðssamtök. Honum fannst það vera eins konar gikksháttur af alþýðusamtökum Norðurlanda að afþakka samstarf við þá verkalýðshreyfingu á Íslandi, sem er undir stjórn kommúnista. Hann um það. Norræn verkalýðssamtök eiga sina sögu, — sögu um afrek, sem þau hafa unnið fyrir sína þjóð. Herra Sigfús Sigurhjartarson á ekki langa sögu í íslenzkum stjórnmálum, en þó nógu langa til þess, að hann hefur brugðizt þeim, sem fyrr treystu honum, og horfið þaðan burt til andstæðinganna. Hann ætti allra manna sízt.að setja sig á þann háa hest að dæma norræn alþýðusamtök.

Hann hefur engin skilyrði til þess. — Og svo kastar tólfunum hjá þessum hv. þm., þegar hann segir, að norræn alþýðusamtök og verkalýðshreyfing sé orðin slík, að hún sé gengin á mála hjá atvinnurekendum. Það má segja það, að þeir segja mest um Ólaf kóng, sem hvorki hafa heyrt hann né séð. Og ég er alveg viss um það, að hv. 6. þm. Reykv. (SigfS) þekkir ekkert til norrænna alþýðusamtaka, en hann skortir ekki hvatvísi til þess að kveða upp yfir þeim rangan dóm.

Svo kom þessi hv. þm. inn á það að ræða um Tékkóslóvakíu. Ekki veit ég, hvort hv. 4. landsk. (BrB) hefur komið til hans áður en hann hélt þessa ræðu, eins og hann gerði á stúdentafundinum um daginn, þegar hann skipaði þm. að fara upp á pallinn og ,játa sína kommúnistísku trú. Sigfús Sigurhjartarson hlýddi og talaði á stúdentafundinum. Það má vel vera, að Brynjólfur Bjarnason hafi nú kippt í spottann og látið hann vita, að nú dygði ekki að láta eingöngu íslenzka stúdenta heyra hina einu sáluhjálplegu trú. Hann yrði að láta allan almenning heyra hana, og það gerði Sigfús Sigurhjartarson sannarlega duglega. Ég held, að Áki Jakobsson ætti nú að fara að endurskoða þá fullyrðingu sína, sem hann flutti hér á þ. fyrir nokkru síðan, að Sigfús Sigurhjartarson væri ekki kommúnisti og jafnvel svívirðilegir sósíaldemókrat, því að sósíaldemókratar eru alltaf svívirðilegir í augum þessara manna. Sigfús Sigurhjartarson hefur nú dregið af sér slyðruorðið. Hann fór hér upp í pontuna og talaði um, hvað hefði gerzt í Tékkóslóvakíu. Þar voru nokkrir vondir menn, — svo vondir, að þeir rufu stjórnarsamstarfið. Þá var mynduð ný stjórn. Það var ágæt stjórn, og hún ríkir nú í Tékkóslóvakíu. Búið! Já, það þarf mikil brjóstheilindi til þess að ræða þannig um þennan hörmulegasta þátt í sögu Tékkóslóvakíu. Það vita allir, sem nokkuð vilja vita, að í Tékkóslóvakíu var gerð uppreisn. Fyrst var hrúgað mönnum inn í lögregluna, þvert á móti vilja meiri hluta stj. Þegar að því var fundið og krafizt, að þetta yrði leiðrétt, þá hófust atburðirnir, sem allir þekkja. Og það vita einnig allir, sem nokkuð vilja vita eða nokkuð vilja þekkja, að í Tékkóslóvakíu ríkir nú einræði, fullkomið einræði í skjóli nágrannastórveldis, — að minnihlutaflokkur. sem hafði aðeins tæp 40% af þjóðinni í síðustu kosningum, en talið var að væri að tapa, tók völdin með ofbeldi og heldur þeim með ofbeldi. Ég minntist á það í ræðu minni í gær, hvað það væri ömurlegt, þegar heimsþekkt skáld, eins og Martin Andersen-Nexö, lýsti því yfir, að Jan Mazaryk hefði verið vestrænn sósíaldemókrat og hann hefði bætt fyrir brot sitt með því að svipta sig lífi. Þannig er hugsanagangur hinna sanntrúuðu kommúnista, en ég held aðeins, að 6. þm. Reykv. sé ekki sanntrúaður kommúnisti. Hann er það ekki að minni hyggju. Hann skortir skoðun, en hann fyllir þann flokkinn, sem honum finnst vindurinn blása bezt í.

Svo minntist þessi þm. á Marshalláætlunína og fór um hana álíka orðum og trúaðir skoðanabræður hans yfirleitt gera, taldi hana óalandi og óferjandi. Ég skýrði frá því í gærkvöld, hvernig verkalýðssamtökin í Evrópu hefðu tekið fegins hendi þessari miklu aðstoð. þessari framréttu hönd. En það er líka vitað, að kommúnistar hvar sem er hamast gegn framkvæmd Marshalláætlunarinnar. Það gera líka fleiri menn og það gera menn í Bandaríkjunum. Það eru ekki frjálslyndu öflin þar í landi, sem berjast gegn Marshalláætluninni. Það eru þeir, sem kommúnistar kalla Wall-Street menn. Það eru menn eins og Taft öldungadeildarþingmaður. sem reyna að draga úr Marshalláætluninni. Það er sami maður, sem kom í gegn löggjöf um verkalýðssamtökin í Bandaríkjunum. Það er eins og endranær, að það er skammt öfganna á milli og oft eru þeir bandamenn, kommúnistar og hinir svæsnustu íhaldsmenn.

Útvarpsumræður þær, er farið hafa fram í gærkvöld og í kvöld, sýna það mætavel, að ástand og horfur í umheiminum orka nú meira á íslenzk stjórnmál en nokkru sinni fyrr. Hér á landi eins og annars staðar starfar stjórnmálaflokkur, sem frekar öllu öðru leggur stund á þjónustu við umsvifamikið og ágengt stórveldi og hagar afstöðu sinni til innanlandsmála í samræmi við það. Þetta eru kommúnistar, sem öllu ráða í svonefndum Sameiningarflokki alþýðu. Þeir eru andvígir lýðræði í norrænni og vestrænni merkingu, en hylla af heilum hug það, sem Austur-Evrópuríkin kalla nú alþýðulýðræði eða framkvæmdalýðræði, en áður var nefnt alræði öreiganna, sem fólgið er í allsráðun eins stjórnmálaflokks — kommúnista. Gegn þessu hættulega og ofstækisfulla hugsanakerfi verða allir sannir lýðræðissinnar að sameinast og gera áhrif þess engu ráðandi í landinn. Og það er einnig nauðsynlegt til þess að sjálfstæði Íslands verði varið og verndað, að umboðsmenn og vikapiltar erlends valds verði með öllu áhrifalausir í íslenzkum stjórnmálum.

Þótt þessi að sumu leyti neikvæða barátta sé mjög nauðsynleg og megi aldrei gleymast, þá er þó víst og áreiðanlegt, að taka verður upp ákveðna, jákvæða baráttu fyrir aukinni hagsæld og öryggi almennings í landinu. Er þar mest þörf á að tryggja öruggan og sístarfandi atvinnurekstur og framleiðslustarfsemi, bæði til þess að viðhalda nægri og vellaunaðri vinnu handa öllum landsmönnum og til gjaldeyrisöflunar, svo að unnt sé að fá til landsins nægilegar nauðsynjar. Þá þarf vel að standa á verði gegn verðbólgunni og skipta réttilega takmörkuðum nauðsynjum, sem hægt er að flytja til landsins.

Núv. ríkisstj. hefur reynt að gera það, sem í hennar valdi stendur í þessum efnum, og er heitið á alla þjóðholla og réttsýna menn að styðja hana í því oft erfiða starfi.