23.03.1948
Sameinað þing: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

129. mál, fjárlög 1948

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. (SigfS) hugðist hnekkja því, sem ég sagði um tollana, með því að tollar væru einnig lagðir á fatnaðarvöru, en ég sagði í minni ræðu, að mestur hlutinn af nauðsynjavörum almennings væri undanþeginn tollum, og ég veit ekki betur en fatnaður sé nauðsynjavara. — Hv. þm. sagði, að nýjar reglur um úthlutun leyfa væru lítils virði. Ég get huggað hv. þm. með því, að viðskiptan. hefur samþykkt þessar úthlutunarreglur og sent þær fjárhagsráði til afgreiðslu, og ég sé enga ástæðu til að efast um, að þær verði afgr. í svipuðu formi og þar er gengið frá þeim.

Ég vil nú endurtaka það, að þegar sýnt er, að ríkissjóður þarf að gefa 55 millj. kr. með atvinnustarfseminni í landinu til þess að hún geti gengið, áður en séð er, hvernig stendur með kaup og sölur, þá er það glæpur, — ég skal endurtaka það orð, sem ég hafði um þessa starfsemi kommúnistasprautnanna, — að egna þjóðina til kaupkrafna, sem sýnt er, að ekki er hægt að fullnægja og getur riðið atvinnuvegunum að fullu. Það er að vísu sú hugsun á bak við hjá þessum flokki að nota þá aðstöðu, ef þetta fæst ekki í gegn, til pólitísks ávinnings. En eins og ég hef áður tekið fram, þá hygg ég, að þeir hafi lítið upp úr þessu.

Hv. 2. þm. Reykv. hóf hér upp rödd sína á hærri nótu í síðustu ræðu sinni og spurði, af hverju ríkisstj. hefði bannað að birta vísitöluna. Nú væri kominn 23. marz, en það væri vant að birta hana í hverjum mánuði fyrir sinn tíma. Það er af því, sagði hv. þm., að vísitalan er nú 329 stig, og bætti við: það er, ef smjörverðið er reiknað með, — eins og verið er að gera, þar sem þetta smjör hefur ekki verið fáanlegt, þá sé rangt að reikna með því smjörverði, sem gert hefur verið. Ég get fullvissað þennan hv. þm. um það, að af hálfu ríkisstj. eru engar ráðstafanir gerðar til þess að vísitalan yrði ekki birt, ég veit ekki annað en hún sé nú 319 stig, eins og hún var í s.l. mánuði, ef reiknað er eins og áður, því að þetta smjör, sem hv. þm. lýsti eftir, hefur ekki fengizt síðustu mánuði. Það er von á, að skammtur, sem enn stendur upp á ríkisstj. að skaffa, geti komið bráðlega, og þarf þá ekki um það að sakast.

Hvers vegna hinum ríku hafa verið gefnar 8 millj. kr. úr stofnlánasjóði, skal ég ekki segja. Með frv., sem hv. 2. þm. S-M. bar fram, var breytt stofnlánasjóðslögunum, sem gerði það að verkum, að sá skilningur, sem áður hafði verið framkvæmdur á 1., varð ekki framkvæmanlegur. Það varð að lána úr stofnlánasjóði með l., með þessari breyt., sem gert er ráð fyrir og Sósfl. á hlut að.

Svo kom hv. 2. þm. Reykv. að því, sem mér þótti merkilegast í hans ræðu. Hann sagðist ekki vilja stríð, sagðist þekkja stríð, og hann sagðist vilja biðja þjóðina að dragast ekki inn í átökin. Ég vissi, að hv. þm. er fljótur að skipta um skoðun, en ég hélt ekki, að hann gæti skipt svona fljótlega um skoðun, eins og hann hefur gert síðan í gærkvöld. Hann sagðist þá halda, að hér yrðu ekki skýjaborgir, heldur rústir, og hann nefndi nöfn eins og Reykjavík, Hafnarfjörð og Keflavík og sagði, að fyrir þessum borgum lægi ekkert annað en rústir og skírskotaði til þjóðarinnar, að hún gæti sameinazt þeim megin, sem hann taldi sigurinn vísan. Hann var ekki þá með þau orð á vörunum sem nú, að reyna að draga þjóðina úr átökunum.

Að öðru leyti var hv. þm. með ómáttugt níð um hæstv. forsrh. Það eru gamlar lummur, sem hann endurtekur jafnoft og það er hrakið, og hirði ég ekki að rekja það frekar.

Þeir, sem hlustað hafa á þessar eldhúsdagsumr., munu hafa veitt því athygli, að þær hafa orðið með nokkuð öðrum hætti en títt er venjulega. Það er gamall og góður siður, að við fjárlagaumr. fari þessar umr. fram í því skyni, að stjórnarandstöðunni sé þá gefinn kostur á því að gagnrýna gerðir ríkisstj., þá stefnu, sem fram kemur við afgreiðslu fjárlaga, og ýmsar stjórnarathafnir, sem þeir telja, að séu ámælisverðar og öðruvísi en vera ætti. Þetta hefur aðeins að litlu leyti átt sér stað nú, en að því leyti sem það var gert, hafa því verið gerð skil. — Hins vegar hefur aðalumræðuefnið orðið um kommúnistaflokkinn, sem ég vil leyfa mér að kalla svo, Sameiningarflokk alþýðu, Sósfl., stefnu hans og starfsemi, bæði hér á landi og erlendis, og ekki að ófyrirsynju. Þetta sýnir, að augu manna eru smám saman að opnast fyrir þeirri hættu, sem felst í starfsemi þessa flokks, hér á landi eins og annars staðar, því að alls staðar eru þeir sjálfum sér líkir. Hin pólitíska þróun hér á næstunni mun því í aðalatriðum mótast af því, hvaða áhrifum þessum flokki tekst að ná og hvernig við starfsemi hans verði snúizt af hinum flokkunum. Eftir styrjöldina var yfirleitt sú stefna uppi í öllum nágrannalöndum okkar að hafa samvinnu við þennan flokk, og þeir voru mjög víða teknir í stjórnir þessara landa. Þessi stefna var að vissu leyti eðlileg, því að þeir höfðu í flestum þessum löndum tekið virkan þátt í baráttunni gegn sameiginlegum óvini, eftir 1941. En það kom fljótt í ljós alls staðar, að þegar krufið var til mergjar starf þeirra á styrjaldartímunum, og sömuleiðis stjórnarstarf þeirra á eftir, að öll þessi störf voru raunar við allt annað miðuð en hagsmuni þeirra landa, er þeir störfuðu í, og þeirrar alþýðu, er þeir þóttust starfa fyrir. Þetta hefur einnig komið í ljós hér. Þegar mest á reið, haustið 1946, að ráðstafanir væru gerðar til að tryggja áframhaldandi starfsemi höfuðatvinnuvegar okkar, sjávarútvegsins, en hann var þá í mikilli hættu vegna vaxandi dýrtíðar, fengust þessir menn, sem þá voru þó í stjórn, ekki til að ræða þessi mál, heldur bundu þeir þátttöku sína um lausn þessa máls við það, að fjandsamleg afstaða væri í ríkisstj. tekin til óskar, er fram hafði komið frá Bandaríkjunum um afnot af Keflavíkurflugvelli fyrir flugvélar á leið til Þýzkalands, á meðan þeir hefðu hersetu í því landi. Og þeir gerðu meira. Þeir rufu stjórnarsamstarfið á þessu máli. Ímyndaðir hagsmunir erlends ríkis voru látnir sitja í fyrirrúmi fyrir lausn stórmála innanlands. Það er þetta, sem hefur opnað augu manna frekar en nokkuð annað fyrir starfsemi þessara manna og meðal annars verið orsök í því, að allir stjórnmálaflokkarnir í landinu hafa nú tekið höndum saman til þess að vinna á móti þeim. í því skyni að eyða áhrifum þeirra á íslenzka pólitík. — Flokkarnir, sem að núv. stj. standa, hafa um margt ólíkar skoðanir, en þeir eru sammála um eitt að minnsta kosti, og það er það, að lausn íslenzkra mála skuli eingöngu miða við hagsmuni íslenzku þjóðarinnar og engra annarra. Þeir hafa sannfærzt um það. að þó að kommúnistar í orði þykist berjast fyrir hagsmunum íslenzkrar alþýðu, þá haga þeir þeirri starfsemi sinni í verki þannig, að aðrir hagsmunir virðast sitja þar í fyrirrúmi.

Þegar rætt var um sameiningu Alþfl. og kommúnistaflokksins, sællar minningar, 1937, var það ófrávíkjanlega skilyrði sett fyrir sameiningunni af hálfu kommúnista, að í stefnuskrá hins nýja flokks yrði sett það ákvæði, að „flokkurinn tæki skilyrðislausa afstöðu með Sovét-Rússlandi.“ Inn á þetta skilyrði vildi Alþfl. ekki ganga, og á því meðal annars strönduðu sameiningartilraunirnar, og kannske á þessu atriði fyrst og fremst. Alþfl. var og er fyrst og fremst íslenzkur flokkur, sem ávallt miðar starfsemi sina við hagsmuni umbjóðenda sinna, íslenzkrar alþýðu, og gat því hvorki né vildi bundið sig „skilyrðislaust“ við þessa þjónustuaðstöðu til erlends stórveldis. Þessi afstaða kommúnistaflokksins hefur enn komið berlega í ljós í afstöðunni til Marshalláætlunarinnar. 16 lönd í Vestur-Evrópu hafa bundizt samtökum nm að vinna kerfisbundið að endurreisnarstarfinu í þessum löndum á þeim grundvelli og með þeirri aðstoð, sem gert er ráð fyrir í þessari áætlun. Mörg þessara landa eru okkar beztu viðskiptalönd. Jafnframt er vitað, að ýmis þeirra geta því aðeins haft viðskipti við okkur, að endurreisnarstarfið takist hjá þeim heima fyrir og að þau fái þá fjárhagslegu aðstoð, sem gert er ráð fyrir í áætluninni. Kommúnistar neita allri þátttöku í þessu starfi og berjast gegn henni, þar sem þeir mega sín nokkurs. Þess vegna þykir íslenzkum kommúnistum skylt að gera slíkt hið sama, enda þótt það sé mjög greinilegur fjárhagslegur ávinningur fyrir okkur Íslendinga, að komið sé fótum undir efnahagsstarfsemi þessara þjóða. Þeir hafa bannað Alþýðusambandi Íslands að taka þátt í því og yfirleitt gert allt, sem í þeirra valdi stendur hér, til að hindra það, þó að það hafi ekki tekizt, sem er þeim að þakkarlausu. Yfirleitt hefur framkvæmd þessa flokks í einu og öllu verið á þá lund, að hún verður ekki skýrð nema á einn hátt — þann, að störf og stefna flokksins mótist af þjónustu við erlend öfl. Þetta kunna Íslendingar áreiðanlega ekki að meta, ekki til lengdar að minnsta kosti, og því munu allir hugsandi menn á þessu landi snúa við þeim bakinu.