23.03.1948
Sameinað þing: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

129. mál, fjárlög 1948

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns skila kveðju frá formanni Sjálfstfl. Ólafi Thors, sem sakir sjúkleika, er hann hefur verið haldinn af allan þingtímann ettir jól, hefur ekki getað tekið þátt í þessum umr., þótt hann sé nú á batavegi.

Mér þótti í kvöld þjóta dálítið öðruvísi í hv. 6. þm. Reykv. (SigfS) í minn garð en hér á árunum áður. Þá var það svo, að hann taldi sér það til heiðurs að geta talið sig vera í skyldleika við mig. Hann gat ekki falið sig vera bróður minn, sem betur fer. En hann fann það út, að hann og ég værum komnir af Grími á Fjöllum, sem uppi var um aldamótin 1800. Það var á þeim árum, þegar æðsta hugsjón hans var sú að verða borgarstjóri í skjóli mínu.

Hv. þm. sagði, að hann minntist ætíð tiltekins orðs, þegar hann heyrði hæstv. menntmrh. nefndan. Það er á sama veg, að öllum þm. öðrum en hv. 6. þm. Reykv. dettur í hug sultardropi, þegar þeir heyra Sigfús Sigurhjartarson nefndan. Það er nú svo með þennan hv. þm., sem menn hafa viljað lýsa með þessu orði, að hann hefur ekki í sér manndóm til þess að standa á móti fyrirmælum einráðs flokks síns um að vitna í utanríkismál það var einmitt hann, sem tók að sér vörn atburðanna í Tékkóslóvakíu. En sú vörn var þá ekki óburðug. Þar eru menn á borð við Hallgrím Benediktsson og Jóhann Jósefsson. Auðvitað má ekki sementskaupmaður eða meðeigandi í S. Árnason & Co. eiga sæti á þingi, „þjóðin“ heimtar þá burt. Þess vegna eru þeir sviptir þingmennsku án samþykkis þjóðarinnar og kosningar fyrst sagðar heimilaðar, þegar 10 þús. framkvæmdanefndir eru búnar að hreinsa til. Þá er öllu óhætt, og þá er séra Sigfús með sultardropann ánægður. Það væri ekki ónýtt fyrir þá félaga, ef þeir gætu látið framkvæmdanefnd, undir stjórn Stefáns Guðmundssonar, Steinþórs Guðmundssonar og Lárusar Pálssonar og annarra æstra kommúnista, hreinsa til í þinginu. Hv. 2. þm. Reykv. sæti í ráðherrastóli og hótaði þeim lífláti, er á móti væru.

Útvarpsumræður þessar munn lengi verða í minnum hafðar. Fyrst gerðist það, að hv. 2. þm. Reykv. (EOl) kom og tilkynnti — að vísu með grátstafinn í kverkunum — öllum landslýð, að ef þeir færu ekki að sínum ráðum og beygðu sig í auðmýkt undir forsjá hinna austrænu erindreka, mundi Íslendingum öllum verða eytt með atómsprengju. Þegar þeirri spurningu var varpað fram, hver mundi kasta bombunni á Íslendinga, sló þögn á hið grátklökka lið kommúnista. En svörin hafa menn heyrt nú í kvöld. Hv. 2. þm. Reykv. kom hér í gærkvöld og tilkynnti það, að ef Íslendingar aðhylltust ekki stefnu kommúnista. þá mundi þeim verða eytt með atómsprengju. Ég spurði hv. þm., hver mundi varpa slíkri sprengju. Hv. 2. þm. Reykv. vildi gefa það í skyn í ræðu sinni í gærkvöld, að fyrst Bandaríkin hefðu hér bækistöðvar, þá mundu þau varpa hér bombu. Eru líkur til, að nokkur einasti maður mundi trúa því, að Bandaríkin varpi sprengju á Ísland? Hér skal engu spáð um, hvort ógnir þær rætast, sem hv. 2. þm. Reykv. og þeir félagar hóta okkur nú með. Ef þeir eru ekki glöggskyggnari á atburði framtíðarinnar en þeir hafa verið um það, er áður gerðist og nú ber að höndum, hygg ég. að fáir muni láta heiftarorð þeirra halda fyrir sér vöku. Eða hver kannast við þá lýsingu á ástandi síðustu daga eða dagsins í dag, að hér hafi ríkt og ríki hið hörmulegasta atvinnuleysi? Hitt vita allir, að atvinnutekjur hafa einmitt verið óvenju miklar, svo miklar, að verkamenn hafa ekki orðið varir, svo að neinu næmi, þeirrar lítilvægu kjaraskerðingar, sem gerð var um s.l. áramót til viðréttingar atvinnuvegunum. Eða hvernig skyldi stórkostlegt atvinnuleysi hafa átt sér stað, þegar fjöldi nytsamra framkvæmda hefur orðið að biða, meðal annars af skorti á vinnuafli, og tugir skipa hafa staðið í naustum vegna þess, að landsmenn höfðu svo mörgu öðru að sinna, að þeir máttu ekki vera að því að sækja á sjóinn sjálfum sér björg í bú og þjóðarheildinni gjaldeyristekjur? Það má sitt hvað að finna, en atvinnuleysið er sem betur fer ekki meðal þess. Enda er atvinnuleysið það böl, sem allt starf núv. ríkisstj. fyrst og fremst beinist að að víkja frá þjóðinni. en hv. Sameiningarflokkur alþýðu, Sósfl., af skiljanlegum ástæðum vill nú ólmur leiða yfir hana. Ógnarskilyrði í sambandi við Marshalláætlunina þarf ekki að ræða. Nægur tími mun verða til þess, þegar sýnt er, hvort við eigum kost á nokkurri aðstoð samkv. áætluninni og þá með hverjum skilyrðum. Hitt er vitað, að engar frjálsar þjóðir hafa látið sér nægja skilyrði Bandaríkjanna í þessu efni, heldur mjög sótzt eftir að fá þá hjálp, sem þau kynnu að vilja veita. Hefur með fullkominni hörku orðið að halda sumum hinna kommúnistísku ríkja í Austur-Evrópu frá því að sækja um þessa hjálp. En eftirtektarvert er það, að hv. 2. þm. Reykv. slær því föstu, að ef gera eigi íslenzkt gengi öruggt, hljóti það að lækka. Það hefur áður verið bent á, að stefna kommúnista hlyti að leiða til gengislækkunar, og hár framleiðslukostnaður og gegndarlaus seðlaútgáfa eru venjulegur undanfari gengishruns. En kommúnistar hafa skrökvað því upp, að Bandaríkjamenn hefðu hér herstöðvar. Það var auðsætt, að þá langaði til að segja, að Bandaríkjamenn langaði til að varpa sprengjum á sínar eigin stöðvar, svo langt hefðu þeir þó ekki gengið.

Það er af öllu auðsætt, að íslenzkir kommúnistar ætla sér nú að ógna íslendingum með rússneskum atómsprengjum. Öðruvísi verða ummæli þeirra um rústir bæjanna við Faxaflóa ekki skilin.

Ég minntist á það í ræðu minni á mánudagskvöldið, að Þóroddur Guðmundsson, sem sagði, að sig varðaði ekkert um þjóðarheill, hefði verið í sama skóla og Gottwald, og varpaði þeirri spurningu fram, hvernig stæði á því, að kommúnistar yrðu reiðir, þegar frá þessu væri sagt. Það er vegna þess, að þeir voru skólabræður á skóla, sem er illræmdur fyrir að hafa kennt kommúnistískum njósnurum.

En íslenzka þjóðin þekkir kommúnista betur eftir þessar umr. en áður. Hún veit, að þeir eru það illgresi, sem umfram allt verður að uppræta, ef hér á að þróast gróandi líf.