15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

182. mál, verndun fiskimiða landgrunnsins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Enda þótt ég muni samþ. það frv., sem hér liggur fyrir, eins og það er, þá vil ég taka það fram, að ég vil, að strax séu gerðar ýmsar þær ráðstafanir og setfar þær reglur, sem þetta frv. ætlast til, að gerðar séu einhvern tíma. Ég hefði óskað eftir, að þetta væri ákveðið í frv., en ekki lagt eins mikið og þar er gert í vald stj., en þetta var rætt í utanrmn., og náðist ekki samkomulag um annað en það, sem hér er.

Það fyrsta, sem ég álit, að þurfi að gera, er að segja upp samningnum við Englendinga frá 1901. Sá samningur er ekki úr gildi fallinn fyrr en tveim árum eftir, að honum verður sagt upp. Þess vegna vil ég láta segja honum upp strax og ekki láta það dragast lengi, þótt hugsanlegt væri, að það væri meiri kurteisi, ef óskað væri eftir endurskoðun á honum. En um leið og samningnum er sagt upp, vil ég láta með reglugerð færa út landhelgislínuna. Ég held, að það sé viðurkennd staðreynd, að þótt eitthvað sé deilt um það í heiminum, hvaða rétt einstök ríki hafa til að ráða sinni landhelgislínu sjálf, þá hafi þjóðir, sem ekki hafa veitt þar áður, ekki heimild til að veiða innan þeirrar línu, sem ríki hefur ákveðið, og til þess að fyrirbyggja það, að nýjar þjóðir komi og veiði á því svæði, sem við viljum telja til okkar landhelgi, vil ég láta gera þetta mjög fljótt, eftir að l. koma til framkvæmda. Eins og vitað er, hafa margar þjóðir ekki stundað hér fiskveiðar, og þær þjóðir, sem ekki hafa gert það, gætu byrjað á að setja hér togara, og undireins og búið væri að því, er vafamál, hvort þessar þjóðir hafa ekki rétt til að fiska á því svæði. Þess vegna legg ég megináherzlu á það, að jafnframt því, sem samningunum við England sé sagt upp eins fljótt og unnt er, sé færð út landhelgislínan, svo að nýjar þjóðir öðlist þar ekki rétt til að veiða.

Þetta felst í frv., og með tilliti til þess, að þetta sé gert, fylgi ég þessu, þó að það sé ekki nema nokkurs konar heimildarl. fyrir stj.