22.03.1948
Neðri deild: 80. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

182. mál, verndun fiskimiða landgrunnsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að mér finnst í hæsta máta óviðeigandi að afgreiða þetta mál til n., án þess að annaðhvort hæstv. sjútvmrh. eða hæstv. utanrrh. séu viðstaddir, og óska ég þess eindregið, að annar þeirra komi hingað. Það er rétt hjá hæstv. forsrh., að málið var rætt í utanrmn., en meðferð þess í n. var þannig, að ég kemst ekki hjá því að rekja hana nokkuð hér, og þó vil ég segja, að heppilegast er að ræða ekki svona mál opinberlega. Ég álít því óforsvaranlegt að afgreiða eitt stærsta mál þingsins án þess, að annaðhvort sé reynt betur að ná fullu samkomulagi um afgreiðslu frv. og notkun þeirra heimilda, sem ríkisstj. eru gefnar með því, eða þá, ef samkomulag ekki næst, þá verður ekki komizt hjá því að ræða málið nákvæmlega. Í utanrmn. voru skiptar skoðanir á því, hvaða aðferðum við ættum að beita til þess að koma málum okkar fram á eftir. Þetta er ákaflega viðkvæmt mál og nauðsynlegt, að sem fæstir viti um fyrirætlanir okkar. Því verðum við að vera 100% sammála um allar aðferðir, og ég álít, að slíkt geti orðið. En ég hef í utanrmn. ekki getað fengið neitt svar hjá hæstv. utanrrh. um það, hvaða aðferðir mundu notaðar til að koma málinu fram, og ef engin svör fást um það og ekki er reynt að ná samkomulagi, getur það orðið til þess, sem ekki er heppilegt, að málið þurfi að ræðast ýtarlega hér á Alþingi. Það er óhæfileg þvermóðska að fá ekki reynt samkomulag um mál, sem okkur er lífsnauðsyn að vera 100% sammála um. Hér er ef til vill um að ræða mesta stórmálið í sjálfstæðisbaráttu okkar, frá því að æðsta vald var flutt inn í landið og frá stofnun lýðveldisins. Við erum hér að endurheimta gamlan rétt, og það er þvermóðska að vilja ekki reyna fullt samkomulag um aðferðirnar til þess. Það er sama þvermóðskan og hjá ríkisstj. árið 1940, þegar ákvörðunin var tekin um að flytja æðsta valdið inn í landið þann 10. apríl, þvermóðska, sem kom fram í því, að heila nótt var fundur haldinn í Alþingi með þm. stjórnarinnar og jafnvel utanþingsmönnum, en við 3 þm. sósíalista vorum útilokaðir. En þetta frv., eða þáltill. öllu heldur, um að flytja æðsta valdið inn í landið var eitthvert þýðingarmesta mál í sögu okkar. Það var ekki mælt fyrir till. af hálfu ríkisstj. Við sósíalistar báðum um 10 mínútna umhugsunarfrest og fengum hann og þurftum ekki nema 5 mínútur til að taka jákvæða afstöðu til málsins. Okkur var ljóst, hve geysiþýðingarmikið málið var, og hikuðum því ekki við að fela römmustu andstæðingum okkar æðsta vald í málefnum landsins. Eftir á var lögð á það höfuðáherzla, að það hefði verið gæfa okkar, að við stóðum einhuga saman. Það kom skýrt fram, að bak við ákvörðunina um endurheimtingu æðsta valdsins í málefnum landsins var tvímælalaus þjóðarvilji. Núna er sama þvermóðskan hjá hæstv. ríkisstj. og hjá ríkisstj. 1940. Það fæst ekki samkomulag áður en málið er tekið hér fyrir, rétt eins og beinlínis sé verið að knýja fram umr., sem ég álít neyðarrúrræði, og vil ég því eindregið óska þess, að málinu sé frestað, þangað til hæstv. utanrrh. eða hæstv. fjmrh. eru viðstaddir, eða það, sem ég álít betra, að þetta mál sé rætt einu sinni enn í utanrmn., áður en lengra er haldið. Þetta er 1. umr., og ef málinu verður án frekari umr. vísað til 2. umr., munu koma fram brtt., en heppilegast er, að þær þyrftu ekki að koma. Ég álít þetta óverjandi meðferð máls sem þessa, að ætla að knýja fram umr., og lýsir það eingöngu þvermóðsku hæstv. ríkisstj. Ég óska því eindregið, að málinn verði frestað.