15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um bráðabirgðabreytingu nokkurra h er, eins og aths. geta til kynna, um að freista þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs á yfirstandandi ári og sumpart til að afla ríkissjóði aukinna tekna, og má sjá á aths. þeim, sem frv. fylgja, á hvern hátt það er hugsað.

Það er þá fyrst ákvæði 1. gr. l., er snertir 3. kafla l. nr. 44 1946, um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Með ákvæðum 3. kafla l. nr. 44/1946, um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, er ríkissjóði lögð sú skylda á herðar að lána sveitarfélögum til 50 ára með 3% vöxtum allt að 75% af byggingarkostnaði húsa, er sveitarfélög reisa fyrir þá, sem búa í heilsuspillandi íbúðum. Auk þess ber ríkissjóði að leggja til í viðbót vaxtalaust lán til 50 ára, er nemi 10% af byggingarkostnaðinum. Eins og nú horfir, er ekki annað hægt en að hægja á með framkvæmd þessara ákvæða l. Með þeim breyt., sem hér er lagt til að gerðar verði á l., er að því stefnt, að skylda þessi hvíli ekki á ríkissjóði utan þess ramma, sem Alþ. setur um þetta í fjárl. hverju sinni. Af þessu leiðir, að l. verða virk, þó að skyldunni sé létt af ríkissjóði. Og í öðru lagi losna bæirnir þau árin, sem ekki er veitt á fjárl. fé til þessa, við skyldu þá, sem á þeim hvílir í þessum efnum.

Þá er um 2. lið, að það er leitað heimildar til að innheimta gjöld til ríkissjóðs samkv. IX. kafla l. nr. 68/1947, um eftirlit með skipum, með verðlagsuppbót, til að standa straum af framkvæmd l. Þessi l. voru sett á Alþ. í fyrra eða hittiðfyrra, og hafa þau orðið mikil fjárbyrði fyrir ríkissjóð, þar sem ekki hefur reynzt kleift að innheimta allan kostnaðinn af skipunum sjálfum, en eðlilegast væri, að þjónusta þessi væri goldin af skipunum sjálfum. Er því stefnt að því að víkja reglunni við, svo að skipaeftirlitið þurfi ekki að vera byrði á ríkissjóði.

Loks er þriðja atriðið, að farið er fram á, til að létta á ríkissjóði, að frestað verði greiðslu á 1 millj. kr. af þessa árs framlagi ríkissjóðs til byggingarsjóðs samkv. 13. gr. l. nr. 35/1936, um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum. Með þessu er létt greiðslu þessarar upphæðar um stund, en hún er ekki tekin af byggingarsjóði fyrir fullt og allt.

Ég vona, að þessar skýringar nægi, en þær eru endurtekning á því, sem prentað er með frv., og vænti ég þess, að hv. Ed. geti fallizt á að afgr. frv. og að því verði svo vísað til 2. umr. og hv. fjhn.