15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég þyrfti í sjálfu sér að biðja nokkurrar velvirðingar á því, að ég tók það ekki nægilega skýrt fram, þegar ég talaði um frv. fyrst, að það er í því misritun eða prentvilla, — ég veit ekki, hvort heldur er, — sem snertir 1. gr. tölul. 3, að það á að standa þar, ekki samkvæmt 21. tölul. 13. gr. 1. nr. 35/1946, heldur samkvæmt 4. gr. laga nr. 35 frá 1946. Þetta vildi ég biðja hv. n. að athuga, og ég hef nú heyrt af ræðu hv. 1. þm. N–M., að hann hefur komið auga á þetta, sem ég tók undir, strax og hann minntist á það. Svo að ég vona, að það verði leiðrétt hjá hv. n.

Hv. 8. landsk. þm. fór nokkrum orðum um þessi mál, og skal ég ekki segja um það mikið, að hann fór ekki alveg rétt með það, sem ég sagði þarna um 3. tölul. Hann sagði, að ég hefði sagt, að þetta yrði ekki gert nema í þetta eina skipti. Ég vona, að það verði svo. Ég sagði að vísu ekkert um það. Ég vona, að fjárhagur ríkisins verði svo framvegis, að þess þurfi ekki, en ég sagði það ekki, heldur, að þennan niðurskurð á fjárframlögum úr 21/2 millj. kr. um eina millj. kr. bæri ekki þannig að skilja, að það ætti að svipta fyrir fullt og allt lögin um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum þessu fjárframlagi að þessum hluta. Ég veit, að hv. 8. landsk. þm. misskildi þetta og að það hefur ekki verið viljandi gert af honum að segja hitt.

Að því er snertir aðrar þær umr., sem hér hafa farið fram, þá hafa þær nú, sérstaklega hjá hv. þm. Barð., verið nokkuð á við og dreif. Og það má náttúrlega tala um ákaflega margt í sambandi við þetta „skemmtilega“ frv.form, sem kallað hefur verið „bandormur“ og er ekki nýtt hér á Alþ. slík lagasetning hefur sézt hér fyrr. Ég álít nú samt sem áður, að það sé lítil ástæða til þess fyrir mig að elta ræðu hv. þm. Barð. í einstökum atriðum. Ég skal alveg játa það, að okkur greinir ákaflega mikið á um tekjuvonina fyrir ríkissjóð á þessu ári. Hann hefur þar aðrar skoðanir en ég, og ég vildi óska þess, að hans skoðanir í því efni reyndust réttar, en mínar rangar. En úr því sker reynslan ein. En hvað þetta frv. snertir og þau áhrif, sem það hefur á löggjöfina, þá finnst mér nú, að hv. þm. Barð. fari dálítið villur vegar um þau skaðvænlegu áhrif, sem það hafi, t.d. viðkomandi l. um opinbera aðstoð við byggingar í kaupstöðum og kauptúnum. Og svo í öðru lagi er það alveg í ósamræmi við stefnu hans í slíkum málum, því að það er ekki farið fram á annað en það, að framvegis verði sá háttur á hafður, að fjárveitingarvald þingsins sé haft fyrir leiðarstjörnu í því, sem gert verður samkv. þessum kafla. Hv. þm. Barð. veit eins vel og ég, að nú sem stendur er þessi kafli þannig, að leggja má svo og svo miklar byrðar á herðar ríkissjóðs, án þess að fjárveitingarvaldið hafi nokkuð þar um að segja og án þess að fjmrn. sé kvatt þar til nokkurra hluta fyrr en kemur að skuldadögunum. Ég er viss um, að menn geta verið sammála um það, að fjármálavald þingsins ætti alltaf að vera sá ráðandi kraftur og að í sjálfu sér ættu engin veruleg útgjöld að geta faríð fram úr ríkissjóði án þess að það væri leyft af slíku valdi.

Þá er það ákvæðið, sem snertir 4. gr. l. um landnám og nýbyggðir í sveitum. Þeir, sem eru kunnugir þessu máli, þ. á m. hv. 1. þm. N-M., taldi það ekki neitt til skaða á þessu stigi málsins. Það er rétt, að til eru mörg önnur l., sem gætu komið til greina, þegar um það er að ræða, og ekki nýtt á Alþ. Það hefur komið fyrir áður, að Alþ. hefur þurft að spyrna við fótum og athuga sig með ýmsa löggjöf, t.d. að skjóta á frest í bili útgjaldalöggjöf, og höfuðmarkmiðið hefur alltaf verið það sama, að létta eitthvað þær byrðar, sem á ríkissjóði hvíla. Um það má svo mikið deila, hvað eigi að nefna fyrst í þessu. Hv. þm. Barð., sem hefur á sínum herðum alla erfiðleikana af því að koma saman fjárl., er manna kunnugastur því þrefi og þeirri togstreitu, sem um það hlýtur að verða, þegar verið er að reyna að ná samkomulagi um einhver úrræði til þess að draga úr kostnaðinum, þegar maður sér sitt óvænna að halda á hlutunum. Hv. þm. telur, að sum ákvæði löggjafarinnar um fjárhagsráð eigi að vera fyrst í þessari röð. Í því efni er ég honum ekki sammála. Það hefur verið talið og er nauðsynlegt, að þessi svo kallaða fjárfesting kæmi í þjóðfélaginu og áætlunarbúskapur. Ég hef hlustað á mörg rök í þessu á síðustu árum, en þegar á að framkvæma þetta, eru menn, sem eru óánægðir, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Barð. Mér þykir leitt, að hann sér sér ekki fært að fylgja þessu frv. Svo kann að vera um fleiri, að þeir sjái sér ekki fært að fylgja því. Aðrir kunna að sjá sér það fært, og verður að ráðast, hvernig það fer í þ. Eins verður að ráðast, hvernig fer um viðbætur eða breyt., hvort sem þær koma frá einstökum þm. eða n., ef menn sjá ástæðu til að bæta einhverju við nú. Það eitt er víst, að ég held, að allir hljóti að vera sammála um það, að löggjafinn hafi undanfarin ár í mörgum efnum hlaðið á ríkissjóð skuldbindingum allt of hratt. Ég ber mína fullu ábyrgð á því sem þm., en ég tel mér leyfilegt fyrir því að lýsa yfir þeirri skoðun. sem hefur magnazt í mér núna síðan þessi löggjöf er farin að sýna sig í verki, að hér sé um allt of margar lagagreinar að ræða, sem íþyngja ríkissjóði með skyldum um lán eða bein fjárframlög og mörgum fleiri hlutum, sem þyrftu að koma inn í þennan bandorm, eins og hv. þm. tók fram. En honum er ljóst og okkur öllum, að til þess að fá slíku framgengt þarf miklu meira en vilja eins einstaks þm. eða jafnvel þótt tveir séu. Til þess þarf samtök, sem ná yfir meiri hluta þingsins, að standa að þeim breyt., sem gera þarf í þessum efnum, og ég held, að margir muni viðurkenna, að hér hafi verið gengið fulllangt.

Ég skal svo ekki þreyta umr. um þetta mál að sinni. Ég hef reynt að benda á bæði um hvað frv. væri, hvað það snertir og þær skerðingar, sem það hefur í för með sér, og líka hef ég leitazt við að upplýsa eins og mér er unnt þann misskilning, sem á sumum pörtum hefur komið hér fram í umr.