09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. 2. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég verð að biðja hæstv. forseta afsökunar á því, að það er aðallega sagnfræði, sem ég ætla að ræða, en get þó lofað því að vera ekki langorður. Hv. 1. landsk. hefur innleitt þessar sagnfræðilegu umr., og tel ég mér skylt að svara honum nokkuð. Hv. þm. var mjög taugaóstyrkur, er hann stóð hér upp áðan og hafði ekki önnur rök fram að færa en þau, að hann segði satt, en ég ósatt. Þetta endurtók hann nokkrum sinnum til þess að berja því þannig inn í hv. þm. Þetta er nú líklega sterkasta bardagaaðferð þessa hv. þm., en ég hef síður en svo tilhneigingu til að beita slíku. Hv. þm. staðhæfði, að hlutatryggingu sjómanna væri fyrst að finna í samningum, er hann hefði gert við ákveðinn útgerðarmann hér 17. jan. 1936. Þegar slík stórmerki áttu að hafa gerzt hér í Rvík, þá höfðu sjómenn eða forustumenn þeirra fyrir norðan ekki einu sinni verið farnir að hugsa um slíka samninga. Þá sagði hv. þm., að sú deila, sem varð í byrjun síldarvertíðar 1936, hefði ekki leitt til neinna samninga. Hv. þm. ætti nú að muna það, þar sem hann er eldri og reyndari en ég í verkalýðshreyfingunni, að umtal og jafnvel samningar um lágmarkstryggingu höfðu staðið yfir í mörg ár og að fyrst voru undirritaðir samningar varðandi þetta 1936, að lokinni deilunni, sem hv. þm. taldi, að ekki hefði leitt til neinna samninga. Ég vil svo aðeins endurtaka þá staðreynd, að fyrstu samningarnir um lágmarkstryggingu voru gerðir milli Sjómannafélags Norðurlands og útgerðarmanna. Um þetta atriði gæti ég lagt fram skjallegar sannanir, þótt ég hafi þær ekki við höndina nú, en ég vona, að hv. þingmenn muni það með mér, að í sinni fyrstu ræðu vitnaði hv. 1. landsk. alltaf í síldarvertíð 1936, og hygg ég, að það sé bezta sönnunin fyrir sannleiksgildi orða minna.

Hv. 1. þm. Reykv. lýsti vel afstöðu sinni til þessa máls og þeirrar tilraunar, sem í frv. er gerð til þess að tryggja þennan aðalatvinnuveg Íslendinga. Hv. þm. sagði, að till. mín og 1. þm. N-M. á þskj. 678 væri alveg fjarri öllu viti, það væri sem sé alveg fjarstæða að taka eitthvað af hagnaði bankanna og henda því í þessar sporzlur, eins og hann orðaði það. Það eru m.ö.o. sporzlur á máli hv. þm. að reyna að tryggja aðalatvinnuveg Íslendinga. Þetta skýrir vel afstöðu þessa hv. þm., sem raunar mátti búast við hver væri. Hann og aðrir heildsalar hafa sjálfsagt meiri áhuga á að eyða því, sem þeir hafa þénað á útveginum, í aðrar „sporzlur“ en að tryggja þennan atvinnuveg.