09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það skyldi engan undra, þótt miklar umr. yrðu um mál sem þetta, því að í fyrsta lagi er málið stórmál og í öðru lagi er þetta tilraun, sem engin fordæmi á til að styðjast við, og er því eðlilegt, að umr. verði nokkuð fálmkenndari en ella. Þó hygg ég, að það sé alveg rétt hjá hv. 1. landsk., að umr. séu orðnar helzt til miklar, því að við munum ekki komast að betri niðurstöðu með frv. en nú er. Brtt. eru líka að verða helzt til margar, því að hv. sjútvn. flytur á þskj. 670 7 brtt., og varla er prentsvertan á því þskj. þornuð, þegar tveir nm. flytja eina brtt. í viðbót á þskj. 672. Síðan þarf hv. form. n. að flytja aðra á þskj. 671, og nú er hann að sögn að unga út einni í viðbót. Ég hygg, að nú séu ekki komnar fram færri brtt. en fram komu við 2. umr., og getur svo farið, að frv. verði allt í ósamræmi, nálægt því að vera hrein vitleysa, er það verður samþ. út úr deildinni við 3. umr. Nú eru fram komnar till., sem sumar fara í þá átt að auka útgjöld sjóðsins og aðrar í þá átt að rýra tekjur hans, og getur samþykkt margra þessara till., leitt til alls konar röskunar. Ég tel, að úr því að farið var inn á þessa tekjuöflunarleið við 2. umr., að sjóðurinn skuli fá 1/2% útflutnings- og innflutningsgjald, þá sé bezt að halda henni. Nú vilja sumir þdm. engar kvaðir leggja á sjómenn til öflunar tekna sjóðsins, aðrir vilja ekkert taka frá útgerðinni, enn aðrir vilja ekki láta ríkissjóð greiða neitt til hans, svo eru þeir, sem ekkert vilja taka frá útflutningsverzluninni, þá þeir, sem ekkert vilja láta innflutningsverzlunina leggja til hans, og að síðustu þeir, sem ekkert vilja taka frá bönkunum. En öllum er það sammerkt, að þeir vilja sjóðinn sem sterkastan, en koma sér bara alls ekki saman um, hvaðan framlagið til hans eigi að koma.

Út af till. þeirra hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. N-Þ. vil ég segja það, að úr því að ekki tókst að fá samþ. að taka tekjur til sjóðsins af óskiptum afla og fá framlag frá ríkinu á móti, þá hafi ekki aðrir breiðara bak að bera þessi gjöld en innflytjendurnir, S.Í.S. og heildsalarnir. Einhver sagði áðan, að ef taka ætti þetta framlag frá S.Í.S., þá kæmi það niður á meðlimum samvinnuhreyfingarinnar. Þetta er að nokkru leyti rétt. Eftir því sem hagnaður S.Í.S. af innflutningsverzluninni er minni, því minni verður sú upphæð, sem kaupfélögin geta úthlutað meðlimum sínum sem arði. Þannig er skipulag samvinnustefnunnar, miðlandi skipulag, því að sá gróði, er verður á innflutningsverzluninni, fer frá S. Í. S. til kaupfélaganna og frá þeim til meðlimanna. Þetta er því heilbrigðasta verzlunarform, sem hugsazt getur. En ef nú einhver hagnaður verður á innflutningsverzlun S.Í.S., er honum síður en svo illa varið til þess að tryggja útveginn, því að verzlunin stendur og fellur með honum og hefur hingað til fleytt rjómann af því, sem útvegurinn hefur aflað. Allt öðru máli gegnir um heildsalana, þar skiptist ágóðinn af innflutningsverzluninni ekkert, heldur er fastur hjá þeim. Báðir þessir aðilar, S.Í.S. og heildsalarnir, geta því mjög vel borið þessar byrðar, og ég tel það vera á miklum rökum reist hjá hv. þm. Barð., að þessir aðilar hafi nú góðar ástæður til þess að koma þeim áhættusama atvinnuvegi, sem þeir fá allan sinn gjaldeyri hjá, til-hjálpar í nauðum. Að þessu athuguðu hygg ég, að bezt sé að hafa þetta óbreytt eins og það var eftir 2. umr.

Þá er það till hv. þm. Barð. á þskj. 671. Ég held, að þessi brtt., ef samþ. verður, valdi í eins mörgum tilfellum misrétti eins og að leiðrétta það, sérstaklega milli skipa í sama flokki. Eru þetta afleiðingar af þeirri breytingu, sem n. gerði á 9. gr. Áður en brtt. n. komu til, stóð í 9. gr.: „Skal hvert það skip, sem aflar 45% eða minna af meðalaflaverðmæti“ o.s.frv. En í brtt. n. stendur: „45% eða minna af meðalafla.“ Ef þessi brtt. n. verður samþ., getur orðið um mikið misrétti að ræða, því að í samá flokki skipa með sama aflamagn getur verið um mikinn mismun að ræða á aflaverðmætinu. T.d. getur eitt skip verið með ákveðið magn af þorski, en annað með sama magn af flatfiski, og er þá auðvitað um mikinn mun á aflaverðmætinu að ræða. Hv. n. hefur því alveg farið öfugu leiðina og innfært í 9. gr. orðalag 4. gr., en þar er verið að ákveða allt annað, eða meðalaflamagn í landinu. En í 9. gr. átti að segja, hvað mikið krónutal í viðbót við það, sem aflinn hefur gefið, hvert bótaskylt skip átti að fá. Í 9. gr. átti því alls staðar að miða við aflaverðmæti, en ekki aflamagn. Þetta kemur líklega skýrast í ljós í sambandi við síldveiðarnar. Þar geta tveir bátar verið með alveg sama aflamagn, en annar með allan sinn afla í salt, en hinn í bræðslu.

Þá kem ég að till. þeirra hv. 6. landsk. og hv. 1. þm. N-M. Þar leggja þeir til, að sjóðnum sé einnig aflað tekna með því að taka 10% af nettóhagnaði Landsbankans og Útvegsbankans. Ég hygg nú, að það sé eins með þessa aðila og S.Í.S. og heildsalana, að þeir gætu vel borið þetta, því að meginhagnaður bankanna er einmitt kominn frá sjávarútveginum: Annað mál er það, að þetta ákvæði brýtur ef til vill í bága við bankalögin, og þá er það ekki til neins gagns. Ég mundi sætta mig betur við, að bankarnir væru skyldaðir til að lækka útlánsvexti sína til útvegsins um ákveðna upphæð, og væri þá þannig hægt að ná í 10% af nettóhagnaði þeirra. Bæði bankarnir og innflytjendurnir eiga gengi sitt komið undir útgerðinni. Þetta ættu þeir að vita og sýna það í verki með því að aðstoða hana í nauðum.

Hv. þm. Barð. gat þess, að hann hefði verið svo elskulegur að bjóða mér á fund hv. sjútvn. Þetta er alveg rétt, hann hringdi til mín í gær, á háhelgum degi, og bauð mér að sitja fund n., en ég þáði ekki, því að ég kann ekki við að sitja fund n., er ég á ekki sæti í, einnig eiga þar sæti svo margir reyndir og sannfróðir menn, að ég gæti enginn ráðgjafi orðið þeim. En þar með afsalaði ég mér engum rétti til að gera athugasemdir við þær brtt., er n. kynni að bera fram, og það hef ég nú líka gert og meira að segja í fullum rétti. En það er nú svo, að ekki er gott að gera hv. þm. Barð. til hæfis. Hann taldi áðan, að tveir hv. þm. hefðu svikið sig og ég ætti að vera með bundnar hendur, af því að ég hafði ekki komið eftir vinki frá honum á fund sjútvn.

Ég er sannfærður um, að tekjur þessa sjóðs eru áætlaðar allt of lágar, og þessu til sönnunar vil ég nefna dæmi frá þeim eina aflatryggingasjóði, sem starfað hefur á Íslandi. Tekjur hans voru 2% af óskiptum afla og 0,7% frá ríkissjóði. Sex eða sjö fyrstu árin kom aldrei til bótagreiðslna, en í fyrra tæmdist hann algerlega. Þetta sýnir, að tryggja þarf það mjög vel, að sjóðurinn geti staðizt þær sveiflur, sem eru á veiði skipa, og skakkaföll sjávarútvegsins almennt.

Ég held, að heppilegt væri að draga úr þessum umr., þó ekki væri nema til þess að sporna við fleiri brtt., sem sumir þm. virðast hafa ótæmandi möguleika á að unga út. Fæstar þessar till. munu vera til heilla og þó allra sízt síðasta brtt. þm. Barð., sem áreiðanlega er til mikilla óheilla og tilraun til að varpa byrðunum á sjómenn og útgerðarmenn að verulegu leyti og því ekki rétta leiðin til tekjuöflunar fyrir sjóðinn.

Hv. þm. Barð. taldi ekkert við það að athuga, þó að ákvæði um reglugerðir væri á tveim stöðum í frv., en eftir hans till. á það að vera svo bæði í sambandi við 4. gr. og 14. gr. Hann sagði meira að segja, að ekkert gerði til, þó að 100 reglugerðarákvæði væru í frv. Þetta er hans gamla speki, en hins vegar verð ég að segja, að nýstárlegt væri það frv., sem innihéldi ákvæði um fleiri reglugerðir en tvær. Að lokum vil ég svo láta þá ósk í ljós, að þær till., sem fram hafa komið síðan n. gekk frá frv., verði felldar.